„Eftirvæntingu í augum má sjá“ – hátíðarkveðja frá bæjarstjóra

Í upphafi aðventunnar er það siður að leikskólabörn tendri ljósin á jólatrénu á Garðatorgi ásamt bæjarstjóra. Það er alltaf notaleg stund og þegar við töldum niður í tendrunina með börnunum mátti sjá eftirvæntinguna í augum þeirra eins og segir í laginu. Þó að vindar hafi blásið aðeins á okkur, þá hlýnaði okkur öllum við að sjá jólatréð, sem að þessu sinni kom úr garðinum í Ásbúð 87, uppljómað.

Jólahátíðin er svo sannarlega tími barnanna, en þetta ár minnti okkur líka á að halda fast utan um ungmennin okkar. Við gerðum breytingar á leikskólastarfi sem hafa skilað sér í betri þjónustu til fjölskyldna bæjarins og styrkt starfsumhverfi starfsfólks. Þetta hefur fækkað veikindadögum og dregið hefur umtalsvert úr lokunum vegna manneklu. Á nýju ári ætlum við einnig að leggja aukna áherslu á að skoða árangur og námsstöðu barna og unglinga í grunnskólum Garðabæjar. Það skiptir miklu máli að við höfum góða yfirsýn á námsárangur barna í bænum okkar og nýtum upplýsingar í að gera enn þá betur. Við sjáum það á mælingum á líðan barna og unglinga í Garðabæ að þau eiga traust bakland heima fyrir og í skólunum. Í þessu samhengi langar mig að óska Hrafnhildi Sigurðardóttur, kennara við Sjálandsskóla og handhafa Íslensku menntaverðlaunanna, sérstaklega til hamingju. Verðlaunin hlaut hún fyrir fjölbreytta og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn fyrir kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.

Talandi um góða Garðbæinga, við hófum þetta ár á því að velja „Garðbæinginn okkar“, Pál Ásgrím Jónsson, eða Páló, og við endum það á að kalla eftir tilnefningum fyrir þessa góðu nafnbót sem er komin til að vera. Öll getum við haft áhrif til góðs á nærumhverfi okkar og með því að útnefna „Garðbæinginn okkar“ erum við að þakka fyrir það sem vel er gert, þakka einstaklingi og einstaklingum fyrir sitt framlag, þeim sem eru til fyrirmyndar á einhvern hátt og minna okkur á að við getum öll haft jákvæð áhrif hvert á okkar hátt.

Ég hef sagt það áður, en samtalið beint við bæjarbúa er mér ómetanlegt í störfum mínum. Á liðnu ári hafa margir heimsótt mig á bæjarskrifstofuna, við höfum mæst á viðburðum Garðabæjar en svo hafa íbúafundir enn og aftur sannað gildi sitt. Mér þótti einstaklega fróðlegt og ánægjulegt að „flakka“ um Garðabæ, fá mér sæti á fjölförnum stöðum Garðabæjar í vor og ræða við samborgara undir fjögur augu. Ég hlakka til þess að gera það aftur á nýju ári, það er margt að ræða og þessum fundum fylgir yfirleitt góð yfirferð yfir það sem betur má fara, en einnig það sem er framúrskarandi. Í Garðabæ höfum við margt að þakka fyrir og við höfum einsett okkur að vera gott samfélag.

Í sumar náðum við þeim áfanga að verða tuttugu þúsund, þegar hann Ævar Smári Matthíasson fæddist. Það var gaman að heiðra hann og hans ungu fjölskyldu í Urriðaholti. Vexti bæjarins fylgja nefnilega gleðilegir áfangar. Við tókum 2. áfanga Urriðaholtsskóla í notkun í vor og leikskólinn Urriðaból við Holtsveg hóf starfsemi. Við getum verið afar stolt af þessari innviðauppbyggingu og einnig því að við erum mjög langt komin með uppbyggingu stíga og leiksvæða í Urriðaholti. Við höldum ótrauð áfram og sjáum að uppbygging heldur áfram á Álftanesi en á næsta ári munum við bæta við leikskólarými þar og taka í notkun nýja félagsaðstöðu fyrir eldri borgara. Við stígum einnig fyrstu skrefin í spennandi uppbyggingu í Vetrarmýri og Hnoðraholti. Það er alltaf jafn gaman að segja frá því að við höfum einnig náð þeim áfanga að yfir 40% af landsvæði Garðabæjar hefur verið friðlýst og við náum að láta náttúru, samfélag og innviði ganga í takt.

Í lok árs förum við ekki bara yfir verkefni ársins, heldur tökum stöðuna á fjármálum Garðabæjar. Það var ánægjulegt að ganga frá metnaðarfullri fjárhagsáætlun fyrir næsta ár í desember. Í henni er lögð áhersla á sterkan rekstur sveitarfélagsins og framúrskarandi þjónustu við íbúa.
Útkomuspá fyrir yfirstandandi ár sýnir að áherslur síðustu ára á sterkari grunnrekstur hafa gengið eftir. Markmið fjárhagsáætlunar er að halda álögum lágum, tryggja áframhaldandi lífsgæði íbúa og halda áfram að þróa og bæta þjónustu sveitarfélagsins.

Síðast en ekki síst langar mig að nefna blómlegt íþróttastarf og menninguna í Garðabæ.
Íþróttafólkið okkar náði fínum árangri á árinu og við gerum því góð skil á íþróttahátíð í byrjun næsta árs. Framboðið af heilsueflandi starfi fyrir börn er alltaf að eflast í bænum og við leggjum okkur fram um að bæta aðstöðuna jafnt og þétt. Á næsta ári munum við sem dæmi taka í notkun rými á annarri hæð Miðgarðs, sem mun nýtast vel.

Menningarlíf í bænum er í blóma og það var einstaklega gaman að fagna 60 ára afmæli Tónlistarskólans í nóvember. Það styttist í að nýr flygill prýði hátíðarsal skólans og við einhendum okkur svo í hönnun á viðbyggingu við skólann. Annars eru menningarviðburðirnir margir og ég hvet íbúa á öllum aldri til að fylgjast vel með og taka þátt. Fram undan eru t.d. safnanótt og Jazzþorpið. Sjáumst þar!

Kæri Garðbæingur, ég sendi þér og þínu fólki hlýjar hátíðarkveðjur og hlakka til ársins 2025 í okkar góða samfélagi.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar

Forsíðumynd: Almar Guðmundsson bæjarstjóri ásamt Björg Fenger formanni bæjarráðs og tveimur landsþekktum jólasveinum, Stekkjastaur og Hurðaskelli þegar jólaljósin voru tendruð á jólatréi Garðbæinga á Garðatorgi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar