Efling leikskólastigsins í Garðabæ

Á bæjarstjórnarfundi sl. fimmtudag lögðum við undirrituð fram tillögu um eflingu leikskólastigsins í Garðabæ. Tillagan var samþykkt en hún felur í sér að veita 25 milljóna króna framlagi til fræðslu- og menningarsviðs til eflingar leikskólastigsins með áherslu á að mæta mönnunarvanda leikskólanna.

Mikilvægi leikskólastigsins

Leikskólastigið er það skólastig sem leggur grunninn að skólagöngu barna og velferð. Þar fer fram gríðarlega mikilvægt starf sem brýnt er að standa vörð um. Erfiðlega hefur gengið að ráða starfsfólk á leikskóla í Garðabæ og á höfuðborgarsvæðinu í vetur og mannekla hefur haft áhrif á mönnun og þjónustu. Ýmsar ástæður liggja þarna að baki. Í október 2021 vann fræðslustjóri samantekt vegna uppbyggingar og starfsmannamála og byggir greinargerðin með tillögu okkar á þeim grunni.

Stuðningur við leikskólastigið

Leikskólastigið er að glíma við ýmsar áskoranir og hefur Garðabær reynt að koma til móts við starfsfólk leikskóla með ýmsum hætti. Má þar m.a. nefna:

• Garðabær greiðir fasta yfirvinnutíma til stjórnenda
• Góður tækjabúnaður – stjórnendur og leikskólakennarar fá fartölvur
• Veittir eru sérstakir styrkir til náms
• Þróunarsjóður leik- og grunnskóla hefur eflt fagleg verkefni starfsfólks og þróunarvinnu í skólum Garðabæjar
• Í dag er unnið að þremur verkefnum í samstarfi við háskóla til að efla gæði í skólastarfi
• Boðleiðir í stjórnsýslu Garðabæjar eru stuttar og skólastjórnendur hafa orð á því hvað það er mikils virði. Stuðningur frá skólaskrifstofu er mikill og stjórnendur eru ánægðir með hann
• Stjórnendahópur leik- og grunnskóla Garðabæjar er mjög faglega sterkur
• Starfsumhverfi leik- og grunnskóla bæjarins er mjög frjótt og samstarf milli skóla afar gott
• Skólar hafa leitað allra leiða til að ráða til sín starfsfólk og m.a. verið í góðu samstarfi við Virk starfsendurhæfingu
• Farið var í sérstaka auglýsingaherferð til að fjölga umsækjendum

Hagaðilar taki höndum saman

Í samtölum við skólastjóra leikskólanna í Garðabæ hafa ýmsar hugmyndir verið nefndar til að mæta álagi á starfsfólk skólanna. Það skiptir miklu máli að auka virðingu og skilning á starfsemi leikskóla fyrir samfélagið og börnin. Einnig er mikilvægt að móta umræðuna út frá velferð, þroska og menntun barnanna. Nauðsynlegt er að ræða við hagsmunaaðila eins og foreldra, atvinnulífið, félag stjórnenda í leikskólum og félag leikskólakennara. Þá er kominn tími til að Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins haldi ráðstefnu um stöðu leikskólastigsins í landinu og áskoranir og komið verði með raunhæfa sýn á framtíð leikskólastarfs á Íslandi.

Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar