Dýrmætar sögur

Það jafnast fátt við það að fara inn í aðventu og jól með ungum börnum og fá að verða vitni að eftirvæntingunni og gleðinni yfir öllu því sem tengist undirbúningnum og hátíðinni sjálfri. Nú styttist í spennuna yfir skógjöfunum svo um daginn dró ég fram góða jólabók fyrir fimm ára dóttur mína þar sem farið var yfir alla jólasveinana okkar, þeirra helstu hrekkjabrögð og ættartré. Grýlu og Leppalúða voru gerð góð skil ásamt jólakettinum. Dóttur minni fannst hræðilegt hvernig kattarófétið lagði sig fram við að éta þau sem voru allra fátækust og út frá því spunnust dýrmætar umræður um mikilvægi þess að láta sér þykja vænt um fólk og gera sitt besta til að hjálpa öðrum að eiga gleðileg jól. Það er nefnilega þannig með gamlar þjóðsögur að þær geyma í sér dýrmætar lexíur í lífinu og ég er hjartanlega þakklát jólakettinum fyrir að hafa staðið vaktina í öll þessi ár og minnt okkur á sem þjóð að passa upp á hvert annað.

Þegar þessari skemmtilegu yfirferð var lokið fann ég að það var nokkur spenna í minni konu. Hún á það til að lifa sig inn í sögur og allt þetta tal um þjófnað, hrekki og barnaát var kannski full mikið svona í skammdeginu fyrir unga sál. Ég fór auðvitað í það að draga í land. Sagði henni að Grýla væri löngu dauð ásamt sínum andstyggðar ketti og að jólasveinarnir hefðu þroskast upp úr sinni vondu hegðun og væru í dag á fullu að bæta upp fyrir gamlar syndir með því að gefa gjafir og gleðja börn. Hún var augljóslega fegin þessari góðu þróun.

Allar þjóðir og hópar þurfa að eiga sér sögur. Þær innihalda gildi og lærdóma og hjálpa okkur að þekkja það hvaðan við komum og af hverju hópurinn sem við tilheyrum er eins og hann er. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju íslenskar þjóðsögur snúast að svona miklu leyti um það að hræða fólk en e.t.v. gefur það innsýn inn í aðstæðurnar sem sögurnar spruttu upp úr. Það gat verið hart líf að búa á Íslandi hér áður fyrr og komið sér vel að óttast umhverfi sitt og fara þar af leiðandi varlegra en ella. Það er merkilegt hvað mannshugurinn er byggður til að muna sögur sem gerir það að verkum að ef maður vill að barnið manns muni eitthvað mikilvægt er lang sniðugast að koma lærdómnum fyrir í skemmtilegri frásögn. Ég er handviss um að sagan af jólakettinum hefur skilið eftir sig áminningu sem dóttir mín mun seint gleyma. Hins vegar langar mig ekki að hún ali á ótta í hjarta sínu svo ég skipti sem snöggvast yfir í Betlehemsfrásögnina. Sú saga inniheldur vissulega utanaðkomandi ógn og óttaslegið fólk, því þannig getur lífið svo oft verið, en í gegnum alla söguna höfum við himneska engla sem fyrst og fremst bera þá fregn að við þurfum ekki að vera hrædd. „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða ykkur mikinn fögnuð“ tilkynnti engillinn furðulostnum hirðunum „ykkur er í dag frelsari fæddur“. Ég vil að dóttir mín eigi sér hugrekki og að hún viti á sama tíma og hún rífur upp jólapakkana í sykurvímu að allt þetta umstang sé vegna þess að einu sinni fæddist fátækur drengur á vergangi sem þurfti að gerast flóttamaður með foreldrum sínum vegna grimmra yfirvalda. Sem átti engar sérstakar eignir og náði engum árangri eða fínum titli sem í daglegu tali þykir eftirsóknarverður en breytti samt sem áður heiminum bara með því að elska. Þar liggur frelsið falið og ég vil að hún muni það.

Sr. Matthildur Bjarnadóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar