Draumurinn á Vífilsstöðum

Vífilsstaðir eru eitt helsta kennileiti Garðabæjar. Byggingin er glæsileg og minnir á þýskan herragarð. Nærliggjandi hús, eins og gamli læknisbústaðurinn og Fjósið, leyna á sér. Nú er unnið að endurgerð læknisbústaðarins og vel má hugsa sér að önnur nærliggjandi hús verði líka tekin í gegn. Saga Vífilsstaða hefur ekki alltaf verið lituð ljósum litum enda héldust þar í hendur gleði og sorg á tímum berklahælisins.

Í dag er þar rekin sjúkrastofnun og dvelst þar einkum aldrað fólk sem bíður vistar á hjúkrunarheimili. Því kynntist ég sem aðstandandi. Þótt starfsfólkið sé yndislegt og þjónustan góð þá fannst mér húsið sjálft barn síns tíma fyrir þá starfsemi. Mér finnst heppilegra að í náinni framtíð fái húsið annað hlutverk og framtíð Vífilsstaða verði sem miðstöð iðandi mannlífs og gleðistunda í bæjarlífinu. Lista- og menningarlíf í forgrunni.

Djass og smurbrauð

Vífilsstaðir og nærliggjandi hús mynda lítið þorp í Garðabæ og það er svolítið eins og að stíga út úr tímavél að koma þangað. Þarna eru stór tún og tré allt um kring og útsýnið nær til allra átta. Ef Álafosskvosin í Mosfellsbæ og Árbæjarsafnið í Reykjavík rynnu saman þá mætti hugsa sér stað eins og Vífilsstaði og á þeim möguleikum getum við byggt. Þar mætti hugsa sér listviðburði eins og upplestur rithöfunda, listasmiðjur, myndlistasýningar og djasskvöld. Í veitingasalnum á jarðhæðinni gæti verið smurbrauðsstaður sem færi mætti í bakgarðinn á sumardögum. Þar væri þá hægt að bjóða upp á lifandi tónlist í blíðunni.

Þar sem húsakostur er mikill og húsin nokkur mætti líka hugsa sér eitthvað sem tengist andlegri heilsu og vellíðan, jóga og hugleiðslu. Nú þegar störf án staðsetningar færast í aukana þá gæti líka verið þarna aðstaða fyrir fólk sem þarf skapandi rými til að vinna og funda, eins og Kjarvalsstofa í Reykjavík býður upp á og Betri Stofan í Hafnarfirði. Báðir þessir staðir eru eftirsótt vinnu- og afþreyingarrými.

Sjálfstætt afþreyingarþorp

Öll útihúsin eru kjörin sem lítil sérverslunar- og þjónusturými, eins og fyrir markað beint frá býli. Þannig gæti Vífilsstaðaþorpið orðið sjálfstæður heimur sem dregur að sér fólk úr öllum áttum allan ársins hring. Lifandi reitur. Á sumrin og á aðventu gæti starfsemin sprungið út og myndi án nokkurs vafa styðja vel við nýja byggð í Hnoðraholti og Vetrarmýri. Nú þegar streyma tugþúsundir á ári hverju í útivistarparadísina Vífilsstaðavatn sem er friðland okkar. Við eigum að fá það fólk til að staldra lengur við og eiga viðskipti.

Þessi þróun er háð samstarfi við ríkið sem á húsin í dag en bærinn hefur skipulagsvaldið. Augljóslega eru framundan kaflaskil í sögu Vífilsstaða hver sem þau verða, en þetta er hugmyndagrunnurinn sem ég vil leggja fram og vinna að af krafti.

Guðfinnur Sigurvinsson varabæjarfulltrúi,
sækist eftir 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar