Dekkjahöllin opnar hjólbarðaverkstæði og lager í Miðhrauni í Garðabæ

Dekkjahöllin bætir nú við nýju hjólbarðaverkstæði við Miðhraun í Garðabæ, en fyrir eru fjögur verkstæði fyrirtækisins starfrækt í Skeifunni og Skútuvogi í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Nýja verkstæðið í Garðabæ opnar á næstu dögum en verið er að leggja lokahönd á frábæra aðstöðu við Miðhraun 18 í Garðabæ.

Saga Dekkjahallarinnar spannar 40 ár, en Gunnar Kristdórsson, stofnandi fyrirtækisins byrjaði fyrst með hjólbarðaþjónustu í bílskúr á Akureyri árið 1982. Í kjölfarið opnaði hann Dekkjahöllina í Draupnisgötu 5 árið 1984. Því næst opnaði Dekkjahöllin í Fellabæ á Egilsstöðum árið 1998 sem þróaðist í yfirtöku á rekstri Sóldekks árið 2002. Verkstæðin tvö voru svo sameinuð nokkrum mánuðum síðar. Í febrúar árið 2008 opnaði Dekkjahöllin svo fyrsta hjólbarðaverkstæðið í Reykjavík í Skeifunni 5. Í framhaldinu var opnað annað verkstæði árið 2012 í Skútuvogi 12 til að anna eftirspurn eftir þjónustu sem síðan hefur farið sívaxandi.

Færa sig nær viðskiptavinum sínum í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Reykjanesi

Með tilkomu verkstæðisins í Miðhrauni eru þau orðin fimm talsins, þar af þrjú á höfuðborgarsvæðinu. Jón Trausti Ólafsson er forstjóri Vekru sem er eigandi Dekkjahallarinnar. „Í Miðhrauni verður Dekkjahöllin með hjólbarðaverkstæði og lager. Með síauknu vöruúrvali og tilkomu Continental umboðs Dekkjahallarinnar hefur þörfin aukist fyrir stórt og gott lagerhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt erum við að færa okkur nær viðskiptavinum okkar í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Reykjanesi til að geta boðið þeim upp á fljóta og góða hjólbarðaþjónustu og mikið úrval af vönduðum dekkjum í flestum stærðum. Áhersla Dekkjahallarinner er að bjóða upp á fyrsta flokks úrval af negldum og ónegldum vetrardekkjum, heilsársdekkjum og sumardekkjum í ýmsum verðflokkum svo að hægt sér að uppfylla þarfir sem flestra.“

Dekkjahöllin hefur sérhæft sig í sölu á dekkjum og léttri þjónustu við bifreiðaeigendur. Jón Trausti segir að nýja verkstæðið muni þó einbeita sér að dekkjunum: „Miðhraunið verður fyrst og fremst hjólbarðaþjónusta og sala þar sem áhersla verður lögð á framúrskarandi þjónustu og að verkstæðið sé vel búið með nýjum og vönduðum tækjabúnaði.“

Persónuleg og hröð þjónusta

Aðspurður um sögu Dekkjahallarinnar, sem er upphaflega rótgróið fjölskyldufyrirtæki svarar Jón Trausti: „Við höfum lagt mikla áherslu á að halda í gömlu fjölskyldugildin, sem eru góð og persónuleg þjónusta og að þjónustustigið breytist ekki. Dekkjahöllin er þekkt fyrir frábæra þjónustu og gott úrval vandaðra dekkja. Mikil þekking og reynsla er fyrir hendi í góðum hópi starfsmanna, sem margir hverjir hafa fylgt fyrirtækinu í mörg ár og jafnvel áratugi. Viðskiptavinir okkar geta því treyst því að þeir fáir faglega, persónulega og fyrsta flokks þjónustu og að við veljum birgjana okkar af kostgæfni sem fyrr. Fyrirtækið er í samstarfi við marga af stærstu, bestu og rótgrónustu birgjum heims í dekkjum og þar má nefna Continental, Yokohama og Falken“.

Landsmenn eru sjálfsagt farnir að huga að dekkjaskiptum, en samkvæmt Jóni Trausta er óþarfi að bóka tíma hjá Dekkjahöllinni: „Við erum ekki með tímabókanir þar sem við kappkostum að bjóða upp á skjóta þjónustu þegar viðskiptavinurinn þarf á henni að halda. Viðskiptavinir geta því treyst því að geta mætt til okkar og fengið ráðgjöf eða úrlausn vandamála,“ segir Jón Trausti en hvetur um leið þá sem ætla að skipta yfir á naglalaus vetrardekk að vera tímanlega í því og jafnvel sé gott að klára það sem fyrst í október: „Þegar fyrsti snjórinn kemur þá verður alltaf meira að gera og þá er bara að mæta og við gerum þetta hratt og örugglega – nýja verkstæðið kemur sem góð viðbót núna í nóvember og það er gott að opna í Miðhrauni beint á móti 66°norður.“

Eitthvað hefur einnig borið á umræðu um yfir hvaða tímabil notkun nagladekkja er heimil: „Þann 1. nóvember er heimilt að setja nagladekkin undir, en það má einnig gera það fyrr ef akstursaðstæður krefjast notkunar þeirra. Ónelgd vetrardekk má vitanlega setja undir fyrr. Reglugerðin setur þá kröfu á ökumann að honum sé skylt að vera á vetrardekkjum eða nagladekkjum þegar snjór eða ísing er á vegi,“ nefnir Jón Trausti.

Fengur í Continental umboðinu og loftbóludekkjum Yokohama

Dekkjahöllin hefur verið þekkt fyrir að bjóða upp á gott vöruúrval ásamt fylgihlutum, Jón Trausti nefnir að fyrirtækið velji sérstaklega inn vörumerki og dekk sem henta íslenskum aðstæðum: „Dekkjahöllin er meðal annars nýr umboðsaðili Continental sem er einn stærsti og vandaðasti framleiðandi heims, með mjög háa markaðshlutdeild á Norðurlöndunum, til dæmis í Noregi þar sem markaðshlutdeild Continental er gríðarlega mikil og samsetning bílaflotans ekki ólík því sem gerist á Íslandi. Yokohama dekkin hafa einnig heldur betur sannað sig við íslenskar aðstæður síðustu ár og við eigum marga viðskiptavini sem hafa eingöngu keyrt á þeim í yfir áratug. Vetrardekkin frá Yokohama henta einstaklega vel við íslenskt veðurfar, en merkið býður upp á loftbóludekk fyrir þá sem kjósa naglalaus dekk, ásamt vönduðum fjölnagladekkjum sem geta tekist á við mest krefjandi aðstæðurnar.“

Jón Trausti segir að verkstæðið í Miðhrauni verði fyrst og fremst hjólbarðaþjónusta og sala þar sem áhersla verður lögð á framúrskarandi þjónustu, en verkstæðið verður vel búið með nýjum og vönduðum tækjabúnaði. Verkstæðið verður opnað á næstu dögum, en verið er að leggja lokahönd á flotta aðstöðu við Miðhraunið.

Jón Trausti gefur okkur einnig dæmi um þá aukahluti sem Dekkjahöllin býður upp á: „Dekkjahöllin selur einnig og sérpantar álfelgur undir flestar gerðir bíla. Meðal annars er fyrirtækið umboðsaðili fyrir MAK sem eru ítalskar og sérstaklega fallegar gæðafelgur. Við seljum einnig og skiptum um loftþrýstiskynjara í bifreiðum, pöntum og seljum vetrardekk á felgum í flestar gerðir bíla. Auk þess erum við með kerrur og varahluti í þær, en leggjum þó ekki megináherslu á það.“

Fjölnagladekk Falken góð á blautum ís

En hvað með nagladekkin; eru þau nauðsynleg og öruggari eða nægja góð vetrardekk? „Okkar birgjar hafa fjárfest umtalsvert í hönnun naglalausra dekkja undanfarin ár og áratug og það hefur skilað sér í bættri gúmmíblöndu og betra gripi við fjölbreyttar aðstæður. Þar má til dæmis nefna Viking Contact 7 og 8 frá Continental sem eru framúrskarandi naglalaus dekk sem hafa unnið fjölmargar prófanir. Loftbóludekkin frá Yokohama hafa einnig sannað sig frábærlega við fjölbreyttar íslenskar aðstæður,“ svarar Jón Trausti en segir jafnframt að nagladekkin hafi enn vinninginn við krefjandi aðstæður eins og akstur á blautum ís: „Því velja margir ökumenn þau ennþá, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Sem dæmi má nefna að Iceguard nagladekkin frá Yokohama, IG65 og IG55, sem og F-ICE 1 fjölnagladekkin frá Falken hafa komið mjög vel út í snjó og hálku, en eru einnig endingargóð, með góðu naglahaldi og hljóðlát.“

Jón Trausti talar að lokum um að Dekkjahöllin leggi áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta valkosti í vöruúrvali á öllum stöðum á landinu til að lágmarka biðtíma og mæta ólíkum þörfum viðskiptavina. Aðspurður um verðlag svarar hann einfaldlega: „Dekkjahöllin leggur áherslu á að veita skjóta og vandaða þjónustu á sanngjörnu verði. Það er ekki markmið okkar að vera ódýrust, en við viljum vera með gæði í okkar vöru og um leið veita framúrskrandi þjónustu.“

Forsíðumynd. Jón Trausti Ólafsson er forstjóri Vekru sem er eigandi Dekkjahallarinnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar