Deildarmeistarar Stjörnunnar þurfa að leika við KR um laust sæti í efstu deild

Hið unga og efnilega lið Stjörnunnar í körfuknattleik kvenna hefur leikið frábærlega í vetur og dögunum voru þær krýndar deildarmeistarar í deild kvenna, eftir að hafa sigrað deildina nokkuð örugglega.

Það er þó nokkuð sérstakt að þrátt fyrir sigurinn þá fara þær ekki beint upp í deild þeirra bestu, Subway-deildina, heldur þurfa Stjörnustúlkur að taka þátt í úrslitakeppni 1. deildarinnar, sem hefst 25. mars og þar mæta þær KR.

En af hverju fara deildarmeistarar 1. deildar kvenna ekki beint upp í úrvalsdeild eins og efsta liðið gerir í 1. deild karla. ,,Það er ákvörðun félaganna á körfuknattleiksþingi að hafa fyrirkomulagið svona. Þetta fyrirkomulag var samþykkt á þingi 2009 af þeim fulltrúum sem þangað mættu. Fyrir þann tíma hafði deildarmeistari 1. deildar kvenna farið beint upp, en þá var engin úrslitakeppni leikin í 1. deild kvenna. Fyrir þinginu núna liggja breytingar á fyrirkomalagi úrvals- og 1. deilda kvenna sem myndu færa fyrirkomulagið nær því sem þekkist í 1. deild karla, en það er þá undir þingfulltrúum að samþykkja eða fella tillöguna,” segir Snorri Örn Arnaldsson móta- og fræðslustjóri Körfuknattleikssamband Íslands er Garðapósturinn hafði samband við hann.

Stjarnan – KR í Umhyggjuhöllinni laugardaginn 25. mars kl. 12:30

Eins og áður segir er fyrsti leikurinn hjá Stjörnunni við KR í Umhyggjuhöllinni á laugardaginn, 25. mars kl. 12:30, en KR endaði í 4. sæti 1. deildar. Svo er leikur aftur 28. mars á Meistaravöllum og þriðji leikurinn er 31. mars í Garðabænum. Garðbæingar! Það er skyldumæting.

Forsíðumynd: Deikdarmeistarar Stjörnunnar mæta KR í úrslitakeppni 1. deildar um laust sæti í Subway deild á næsta tímabili

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar