BY•L – skartgripir by lovisa opnar stórglæsilega verslun í nýju húsnæði að Silfursmára 8 á föstudaginn

Skartgripaverslunin BY•L – skartgripir by lovisa opnar stórglæsilega verslun í nýju húsnæði að Silfursmára 8 í Kópavogi á morgun, þann 11. október, en verslunin hefur verið staðsett í Urriðaholti í Garðabæ síðustu ár undir merkjum by lovisa.

Á bakvið BY•L er skartgripahönnuðurinn og gullsmiðurinn Lovísa Halldórsdóttir Olesen. Skartgripalínur Lovísu hafa vakið mikla athygli og notið mikilla vinsælda á undanförnum árum. Lovísa lauk sveinsprófi í gull- og silfursmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 2007 og meistararéttindum í kjölfarið.

Lovísa sækir áhrif sín mest úr hversdagslífinu þar sem tvinnast saman klassík og nýir straumar. Litir, hráefni og form hafa alltaf verið aðal atriði í hönnuninni sem setur mark sitt á fjölbreytileikann í hennar smíði og hönnun. 
 Lovísa hóf rekstur undir eigin vörumerkjum árið 2013 eftir að hafa unnið við fagið í nokkur ár. Fyrsta verslun var opnuð í bílskúrnum á heimili hennar í Garðabæ, en árið 2021 opnaði hún fallega verslun í Vinastræti í Urriðaholti Garðabæ.

En nú eru stór tímamót hjá fyrirtækinu sem færir sig yfir í Kópavoginn og opnar glænýja verslun í Silfursmára föstudaginn 11. október kl. 13. ,,Við gerum það að sjálfsögðu með pompi og prakt þar sem opnunartilboð, gjafapokar, Dj og veitingar verða á boðstólnum,“ segir,“ segir Lovísa.

En af hverju ákvaðstu að færa þig um set og yfir í Silfursmárann? ,,Það var komið að næsta skrefi hjá okkur, við höfum vaxið og dafnað fallega þökk sé okkar frábæru viðskiptavinum. Við fundum því að nú var tími til kominn að færa okkur meira miðsvæðis og í stærra rými,“ segir hún.

Urðum heilluð af húsnæðinu og staðsetningunni

Var ekkert erfitt að yfirgefa Garðabæinn enda búin að vera með verslun í bænum í rúm 10 ár? ,,Jú, þetta hefur verið ljúfsárt ferli, bæði ákvörðunin og svo flutningarnir. Við höfum átt yndislega tíma í Urriðaholtinu en þegar við sáum húsnæðið við Silfursmárann urðum við alveg heilluð af því og staðsetningunni.“

BY•L er staðsett á móts við Smáralind

 Eykur vöruúrvalið og bætir við nýjum vörum

Og verða einhverjar breytingar á versluninni með nýju og stærra húsnæði og er spennandi að vera að opna nýja verslun? ,,Jú, það fylgja vissulega mjög spennandi breytingar, í fyrsta lagi erum við að aðlaga aðeins nafnið og þá logo fyrirtækisins, en það er nú BY•L – skartgripir by lovisa. Ég hef vitað í dágóðan tíma að það væri þörf á því vegna erlends skartgripamerkis sem heitir Lovísa. Þau eiga réttinn á því nafni og því ákvað ég að stytta okkar aðeins og fríska upp á lógóið í leiðinni,“ segir hún og bætir við: ,,Ég mun kynna nýjar vörur og auka úrvalið í núverandi vörulínum asamt því að auka enn frekar úrvalið af skartgripalínum úr 14kt gulli, hvítagulli, með eðalsteinum og demöntum.“ 

Nýtt lógó BY•L

Ný heimasíða opnuð

,,Og svona af því að flutningarnir og breytingarnar voru ekki nóg þá höfum við einnig sett í loftið nýja heimasíðu sem tekur mið af þessum breytingum,“ segir hún hlæjandi og það má því segja að það hafi verið nóg að gera hjá öllu starfsfólki BY•L síðustu misseri. 
 
Og það er væntanlega spennandi að geta hannað sína eigin verslun frá grunni? ,,Við gerðum það í Vinastrætinu og svo aftur núna, það er alltaf jafn gaman að geta gert rými algjörlega að sínu eigin og eftir sínu höfði. Við höldum í okkar stíl áfram en það smá sjá glitta í nýja liti og mynstur sem munu einkenna Silfursmárann.“ 
 
En fyrir utan að vera að hanna og opna nýja verslun, hvað er þá að frétta af skartgripasmíðinni? ,,Með tilkomu nýrrar verslunar aukum við úrvalið svo um munar, þá helst inn í núverandi línur. Svo eru jólin framundan og aldrei að vita nema það detti inn eitthvað skemmtilegt í kringum það season.“

Módel með 14kt gull og demants- skartgripi frá Lovísu/BY•L

Herraskartgripalínan Stormur fengið frábærar viðtökur

Og hönnun þín snýr ekki eingöngu að konum því þú hefur einnig hannað skart fyrir karlmenn og Unisex – ekki rétt? ,,Jú, það er rétt, fyrsta herralínan okkar leit dagsins ljós í sumar. Línan í herraskartinu heitir Stormur og hefur hún fengið frábærar viðtökur. Í henni eru hálsmen, keðjur, armbönd og hringir úr bæði silfri og svo 14kt gulli og í einstaka gripum eru svartir demantar.“
 
Og hönnun þín nær í raun til allra aldurshópa og er í öllum verðflokkum? ,,Ég hef svona haft það að leiðarljósi að ná til allra aldurshópa. Nýja verslunin okkar gefur okkur meira rými til þess. Úrvalið hefur aldrei verið jafn mikið og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Þannig að þú ert spennt fyrir að opna dyrnar að nýrri verslun í Kópavogi? ,,Þetta ferli hefur verið mjög lengi í bígerð og því má segja að við getum hreinlega ekki beðið eftir því að opna í Silfursmáranum. Við vonum að sjálfsögðu að sjá sem flesta í Kópavoginum,“ segir hún brosandi og bætir við: ,,Svo er það bara í raun ein gata sem skilur Garðabæinn og Smárahverfið að, þannig það er stutt að fara úr Garðabænum,“ segir Lovsía brosandi að lokum.

Forsíðumynd: Lovísa er eðlilega spennt að opna nýja verslun í Silfursmára 8 á föstudaginn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar