Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar þann 14. nóvember síðastliðinn var samþykkt að vísa nýrri tillögu að breytingu á aðal- og deiliskipulagi Arnarlands til auglýsingar. Nýja tillagan byggir á grunni þeirrar tillögu sem auglýst var í vor en þar sem gerðar hafa verið veigamiklar breytingar á henni taldi nefndin rétt að auglýsa hana að nýju.
Í þeim skipulagsáformum er varða uppbyggingu í Arnarlandi er áhersla lögð á öflugt og líflegt borgarumhverfi sem styrkir nærumhverfið og bætir lífsgæði þeirra sem búa og starfa á svæðinu sem og í nálægð við það. Þar er gert ráð fyrir blöndu af íbúðum, ýmissi nærþjónustu og heilsuklasa þar sem áhersla er á aðsetur fyrir fjölbreytt fyrirtæki tengd heilsu og hátækni.
Breytingar gerðar til að koma til móts við áhyggjur íbúa
Garðapósturinn spurði Björgu Fenger, formann skipulagsnefndar Garðabæjar, hvaða viðamiklu breytingar þetta væru og hvort það sé verið að koma vel til móts við íbúa bæði í Garðabæ og Kópavogi? „Þegar við fórum yfir þær athugasemdir og umsagnir sem við fengum við auglýsta tillögu í sumar var ljóst að margar þeirra vörðuðu byggingarmagnið og hæð bygginga á svæðinu. Í kjölfarið var ákveðið að yfirfara tillöguna og gera breytingar til að koma til móts við þessar áhyggjur íbúa,“ segir Björg og segir að þetta feli meðal í sér minna byggingarmagn, færri hæðir í byggingum og að við bætist rými fyrir leikskóla.
Heildarfjöldi íbúða nú 451 í stað 529 í áður auglýstri tillögu
,,Breytingarnar sem nú fara í auglýsingu fela það í sér að bæði byggingarmagn atvinnu- og íbúðarbyggðar minnkar töluvert eða um 15% í íbúðabyggðinni og um14% í atvinnubyggðinni. Heildarfjöldi íbúða er nú 451 í stað 529 í áður auglýstri tillögu. Hámarkshæð kennileitisbyggingar lækkar jafnframt úr 8 hæðum í 7 auk þess að flestir aðrir hlutar bygginganna við Hafnarfjarðarveginn eru lækkaðir um 1-2 hæðir. Hæðarfjöldi lækkar einnig á mörgum byggingareitum íbúðarbyggðar, m.a. næst Fífuhvammsvegi,“ segir Björg.
Bætt við heimild fyrir leikskóla á miðsvæðinu
,,Einnig er gaman að segja frá því að í nýju tillögunni er bætt við heimild fyrir leikskóla á miðsvæðinu, það er á opnu svæði sem myndast í miðju hverfinu þegar dregið hefur verið úr byggingarmagni. Með því er verið að opna fyrir þann möguleika að á svæðinu verði rekinn sjálfstætt starfandi leikskóli sem þjónar þá þeirri atvinnuuppbyggingu sem er á svæðinu ásamt íbúum,“ segir hún.
Gert ráð fyrir að áætluð umferðarsköpun af byggð af Arnarlandi minnki um allt að 14%
Hver er staðan á umferðarmálunum í og við Arnarland? „Það að draga úr byggingarmagni á svæðinu hefur áhrif á umferð á og í kringum Arnarland þar sem bein tengsl eru á milli fjölda íbúða og atvinnufermetra annars vegar og magn bílaumferðar hins vegar. Í nýju tillögunni er gert ráð fyrir að áætluð umferðarsköpun af byggð af Arnarlandi minnki um allt að 14% samhliða minnkun á byggingarmagni,“ segir Björg og bætir við: „Þess má einnig geta hér að vinna stendur nú yfir við að gera breytingar á aðkomu frá bæði Akrarbrautinni sem og Bæjarbrautinni að hringtorginu á Arnarnesveginum. Á báðum þessum stöðum er verið að vinna að því að fjölga akreinum í tvær og þannig bæta flæði og umferðaröryggi við hringtorgið.“
Tenging Akrabrautar að undirgöngum undir Arnarnesveg yfir í Arnarland færist austar
Þessi útfærsla kallar einnig á breytingu á deiliskipulagi Akrahverfis, hvaða breytingar eru það? „Tillagan að breytingu á deiliskipulagi Akrahverfis felst í því að tenging Akrabrautar að undirgöngum undir Arnarnesveg yfir í Arnarland færist austar og þar með nær meginaðkomu inn í Akrahverfið. Með þessu teljum við að það verði minni líkur á gegnumumferð í Akrahverfið til að komast inn í Arnarlandið,“ segir Björg. „Með því að auglýsa tillöguna að nýju verður hægt að koma athugasemdum á framfæri, Við teljum að þessi útfærsla muni skapa meiri sátt íbúa,“ segir Björg.
Stefnt að opnum íbúafundi þann 4. desember þar sem tillagan verður kynnt og íbúum
Hver eru næstu skref og er í raun komið eitthvað tímaplan er kemur að framkvæmdum – hvenær ættu framkvæmdir að geta hafist? „Eins og tímaplanið lítur út núna þá er gert ráð fyrir að nýja tillagan fari í auglýsingu í framhaldi af afgreiðslu bæjarstjórnar á tillögunni á fundi þann 21. nóvember nk. Í kjölfarið er svo stefnt að opnum íbúafundi þann 4. desember þar sem tillagan verður kynnt og íbúum og hagsmunaaðilum gefst kostur á að fá svör við spurningum. Athugasemdafrestur við tillöguna verður svo fram í byrjun janúar en í framhaldinu tekur skipulagsnefndin málið aftur fyrir og fer yfir og svarar ef einhverjar athugasemdir berast. Ef allt gengur að óskum ætti skipulagið svo að vera samþykkt um mánaðarmótin febrúar-mars og uppbygging ætti að geta hafist fljótlega í kjölfarið.“
Arnarlandið ótrúlega spennandi svæði
Hvernig líst svo Björgu sjálfri á þessa fyrirhuguðu uppbyggingu í Arnarlandi, spennandi viðbót við Garðabæ? „Ég tel Arnarlandið vera ótrúlega spennandi svæði enda vel staðsett með tilliti til samgangna og þjónustu enda er það nokkuð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björg.
Hluti íbúðanna verði útbúnar með velferðartækni
„Skipulagið sem verið er að vinna að leggur áherslu blöndu af íbúðum þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að hluti íbúðanna verði útbúnar með velferðartækni. Jafnframt er þar að finna metnaðarfulla uppbyggingu á atvinnustarfsemi en saman býður þetta upp á möguleika fyrir einstaklinga að búa og vinna á sama svæði sem er eitthvað sem við sjáum að verið er að leita að í enn ríkara mæli en áður. Einnig er þar að finna mikla áherslu á gott aðgengi að fjölbreyttum útivistar- og grænum svæðum bæði innan hverfisins og í nærsamfélaginu. En ég tel að það séu gæði sem einstaklingar og atvinnurekendur munu í auknum mæli leitast eftir að hafa í sínu nærumhverfi og við í Garðabæ höfum verið svo gæfusöm að geta boðið upp á,“ segir hún að lokum.
Helstu breytingar
Hér má sjá helstu breytingar sem gerðar eru á tillögunni frá því hún var auglýst nú í sumar.
- Undirgöng undir Arnarnesveg færð austar og nær meginaðkomu inn í Akrahverfi.
- Byggingarmagn ofanjarðar minnkar, um það bil 15% færri íbúðir og um það bil 14% minna atvinnuhúsnæði.
- Áætluð umferðarsköpun af byggð af Arnarlandi minnkar um allt að 14%.
- Endurskoðun byggingarmagns tekur fyrst og fremst mið af ásýnd og afstöðu bygginga og dvalarsvæða gagnvart sólu.
- Hámarkshæð kennileitisbyggingar verður 7 hæðir í stað 8 hæða. Aðrar hæðir 1-6 hæðir.
- 4 hæða bygging á lóð F fellur út og aukið rými skapast fyrir tröppustíg og dvalarsvæði í almenningsrými.
- Bætt verður við rými fyrir leikskóla, ásamt leikskólalóð sem snýr vel við sólu og í góðu skjóli miðsvæðis á lóð F.
- Inndregin efsta hæð á fjölbýli á móti heilsuklasa.