Spennandi jazztónar munu óma þegar Garðatorg verður að lifandi Jazzþorpi dagana 19.-21. maí. Ómar Guðjónsson, listrænn stjórnandi hátíðarinnar hafði í nógu að snúast við skipulag hátíðarinnar þegar Garðapósturinn heyrði í honum og var vægast sagt upp veðraður af þessu skemmtilega verkefni.
Vill auka menningu og fegurð í bænum sínum
Tónlistarmanninn Ómar Guðjónsson þarf vart að kynna. Hann er Garðbæingur í húð og hár og var bæjarlistarmaður Garðabæjar árið 2011. Hann hefur margsinnis komið fram á jazzhátíðum, meðal annars Jazzhátíð Garðabæjar og er hann búinn að leika með mörgum af fremstu tónlistarmönnum og hljómsveitum landsins síðustu áratugi. Það var því auðsótt mál að fá hann til að taka að sér listræna stjórnun Jazzþorpsins. „Já þegar maður býr í bæjarfélaginu og hefur alist upp þar vill maður auðvitað leggja sitt af mörkum til að auka menningu og fegurð í bænum,“ segir Ómar.
Fjölskylduhátíð með jazzbragði Jazzþorpið byggir að sjálfsögðu á hinni rótgrónu Jazzhátíð Garðabæjar, sem hefur verið fastur liður í menningardagskrá bæjarins. Ómar fékk frjálsar hendur við útfærsluna og fékk þá hugmynd að breyta Garðatorgi í Jazzþorp. En hvað meinar hann eiginlega með því? „Mig langaði að búa til fjölskylduhátíð með jazzbragði,“ segir hann. „Þetta er afsprengi af jazzhátíð Garðabæjar sem er yndisleg og rótgróin hátíð. Þegar ég fékk fyrirspurn um að taka að mér listræna stjórnun hugsaði ég: ,,Hvað getur svona hátíð verið?” Ég og fólkið í kring um mig er alltaf að leitast við að finna eitthvað í nærumhverfinu sínu sem getur orðið til þess að við getum gert okkur glaðan dag með fjölskyldunni. Þá datt mér í hug að skapa upplifun, ekki bara músík. Fara á sýningu. Niðurstaðan var að byggja upp þorp á gamla góða Garðatorgi. Þú þarft ekki „bara“ að njóta tónlistar, heldur geturðu fengið þér sæti, notið veitinga, skoðað fallega muni og jafnvel tekið þá með þér heim,“ segir hann.
Skapar notalegarkósístofur á Garðatorgi
Tekið þá með þér heim? „Já, þegar við fórum af stað langaði okkur að fylla allt torgið af húsgögnum og skapa notalegar kósístofur og gera hreinlega algjöra breytingu á torginu. Að það væri hægt að koma inn í heila veröld af Jazz,” segir hann og þannig varð til samstarf með Góða hirðinum.
Getur tekið húsgögnin með þér heim
„Þau verða með svona „pop-up“ verslun á torginu. Þau voru mjög spennt að taka þátt í þessu með okkur og við höfum verið að safna húsgögnum með þeim í margar vikur,“ segir Ómar og kemst á flug. „Svo verður loftið þakið af ljósum og kúlum. Æ-i það er erfitt að segja frá þessu, sjón er sögu ríkari,“ segir hann og hlær.
En sem sagt, þú getur setið í sófasett inu og svo bara tekið það með þér heim eftir hátíðina? ,,Já, allt sem verður þarna af húsgögnum og munum frá Góða hirðinum verður til sölu. En fyrst og fremst þá snýst þetta um fallegt rými og skapandi með notalega nærveru. Samstarfið við verslanir og fólkið á Garðatorgi hefur verið frábært og það eru allir svo spenntir að vera með.“
Allir vilja vera með
Til að kóróna andrúmsloftið verða til sýnis ljósmyndir af jazztónlist á Íslandi, gamlar og nýjar, sem teknar voru af Rúnari Gunnarssyni og Hans Vera ljósmyndurum. „Við vorum mjög heppin, það gripu allir þetta á lofti og vildu vera með. Hugmyndin var alltaf að fá ástríðufólk með okkur í þetta og það hefur svo sannarlega tekist. Fólk trúir á hugmyndina og vill vera með,“ segir Ómar.
Jazzbúð, kaffihús, bjór, náttúruvín, jazzsúpa og fleira
En þess má geta að auk tónlistar og fallegra muna verður boðið upp á Jazzsögu fyrirlestur með Jónatan Garðasyni og Jazzkviss sem Pétur Grétarsson stjórnar. Þá verða Lucky Records með Jazzbúð, kaffihúsið Te og kaffi verður með forlátan Citróen bíl þar sem hægt verður að fá veitingar fyrir alla, Mói ölgerðarfélag mun bjóða upp á sérstakan bjór fyrir hátíðina og Tíu dropar mæta með náttúruvín. „Svo verður auðvitað Jazzsúpa frá ástríðukokk- inum Klarinettukela,“ segir Ómar. ,,Allt torgið verður sem sagt sett upp eins og kósístofur, nóg verður af afþreyingu og veitingum og svo í næstu viku verður byrjað að raða inn á torgið.”
Hátíðin er fyrir alla
Og er hátíðin fyrir harðkjarna Jazzunnendur og styttra komna? „Ég hugsaði prógrammið með það í huga. Það verða tvö svið, eitt lítið og eitt stórt. Kvöldtónleikarnir fara allir fram á stærra sviðinu. Þetta gerist allt á Garðatorgi, gamla góða Garðatorginu,“ segir Ómar og brosir.
Hvernig fékkstu Mezzoforte til að mæta og spila? „Það er langt síðan þeir spiluðu síðast á Íslandi og ég veit að þeir geta ekki beðið eftir að spila fyrir okkur.“
Getur notið hátíðarinnar frá morgni til kvölds
Mér sýnist þið ætla að bjóða upp á eitt hvað fyrir alla, er hægt að mæta þarna að morgni og fara síðastur út að kveldi? „Þú getur labbað í gegn á fimm mínútum eða ílengst og notið hátíðarinnar frá morgni til kvölds,“ segir Ómar. „Mér finnst svo gaman að Garðabær var tilbúinn til þess að hoppa á þessa hugmynd og allt sam-starf hefur gengið afskaplega vel. Ég verð að fá að hrósa Ólöfu menningarfulltrúa sérstaklega. Ég vona að það verði flæði af fólki á öllum aldri og aðgangur er ókeypis. Dagskráin býður bæði upp á það að fullorðnir og harðir jazzunnendur njóti sín en einnig að þau sem eru kannski styttra komin geti notið sín,“ segir Ómar að lok- um og það má með sanni segja að þetta verður algjör veisla og um að gera fyrir Garðbæinga að fjölmenna.
Meðal tónlistarmanna sem koma fram á Jazzhátíðinni eru: Mezzoforte, Ife Tolentino, Arctic Swing Quintet ásamt Sigurði Guðmundssyni, Dj Sammi Jagúar, Skuggamyndir frá Býsans, Uppáhellingarnir, Hljómsveit Önnu Grétu Sigurðardóttur með stórsöngvurunum Ragnheiði Gröndal, Högna Egils, Valdimari Guðmundssyni og Kristjönu Stefáns.