„Þarna eru mjög afgerandi breytingar lagðar fram sem að stórum hluta snúast um að þvinga vel rekin sveitarfélög í hækkanir á álögum sínum. Ég leyfi mér nú að trúa því að málið muni taka breytingum í meðferð ráðuneytisins og Alþingis. Við munum fylgja þessu máli vel eftir,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar um tillögur að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en um miðjan mars sendi Innviðarráðuneytið öllum sveitarfélögum landsins upplýsingar um gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en fyrirhugaðar breytingar miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að greiða framlög til sveitarfélaga í þeim tilgangi að jafna mismunandi tekjuöflunarmöguleika og útgjaldaþörf þeirra. Af því leiðir að framlög til sveitarfélaga eru mjög mismunandi. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga og hefur ráðherra sveitarstjórnarmála á hendi yfirstjórn sjóðsins.
Bæjarráð Garðabæjar hefur falið bæjarstjóra að gera athugasemdir við tillögur um skerðingu framlaga í þeim tilvikum sem sveitarstjórn nýtir sjálfsákvörðunarrétt sinn til ákvörðunar útsvars. „Í lögunum kemur skýrt fram að það er á valdi hverrar sveitarstjórnar að ákvarða álagningarhlutfall útsvars innan ákveðinna marka og hefur sú ákvörðun engin áhrif á hlutdeild Jöfnunarsjóðs af útsvarsgreiðslum íbúa viðkomandi sveitar-félags,“ segir í fundagerð bæjarráðs um málið, en á síðasta ári greiddi Garðabær 600 milljónir króna umfram það sem hann fékk í framlög úr jöfnunarsjóðnum.
Skilja einn milljarð eftir í vösum bæjarbúa
Á árinu 2022 var hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvari Garðbæinga um 2,0 ma. á sama tíma og sjóðurinn greiddi framlög til Garðabæjar að fjárhæð um 1,4 ma. Garðbæingar greiddu því í sjóðinn um 600 mill.kr. umfram það sem sjóðurinn greiddi sem framlög til Garðabæjar. Og með þessum fyrirhugðu breytingum þá munu framlög til Garðabæjar lækka töluvert þar sem Garðabær gerir vel við íbúa Garðabæjar með því að hafa útsvarið eitt það lægsta á landinu? „Við skulum ekki gleyma því að með því að leggja á lágt útsvar – 13,92% samanborið við 14,74% hámarksútsvar – skiljum við tæplega einn milljarð króna eftir í vösum bæjarbúa á þessu ári. Það gerum við á grunni góðs rekstrar og þess að það er ekki náttúrulögmál að skattar séu í botni,” segir Almar.
Garðabær greitt 2 milljörðum meira í sjóðinn en fengið úthlutað úr honum á síðustu þremur árum
,,Það er síðan mjög mikilvægt að það komi fram að þrátt fyrir þetta er sjóðurinn alls ekki að leggja Garðabæ til fé því á síðustu þremur árum hafa Garðbæingar greitt ríflega 2 milljörðum króna meira í sjóðinn en Garðabær hefur fengið úthlutað úr honum. Þannig að með þessum fyrirhuguðu breytingum er verið að skapa ranga hvata og hindra þannig að sveitarfélög geti skilað ávinningi af góðum rekstri til bæjarbúa sinna. Í raun er verið að þrýsta á þau að hækka útsvarsprósentu bæjarbúa í botn.“
Við erum ekki uppvís af „vannýtingu útsvars“
Er það ekki stjórnarskrárvarinn réttur sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum? „Jú það er svo sannarlega þannig og lög um tekjustofna sveitarfélaga veita heimildir fyrir álagningu útsvars sem við erum innan. Við erum því ekki uppvís af „vannýtingu útsvars“ eins og það er svo smekklega kallað í umræddum tillögum. Það getur auðvitað ekki gengið að úthlutunarreglur sjóðsins vegi svona að grundvallar hugmyndum um sjálfsstjórn sveitarfélaga.“
Munu kynna málefni Jöfnunarsjóðs gagnvart þingmönnum, fjölmiðlum og öðrum
En hvort og hvernig þá getur Garðabær brugðist við þessum fyrirhuguðu breytingum á jöfnunarsjóðnum – hvað ætlið þið að gera? „Við munum skila inn ítarlegri umsögn og fylgja henni vel eftir. Þá munum við einnig kynna málefni Jöfnunarsjóðs gagnvart þingmönnum, fjölmiðlum og öðrum. Ég verð var við mikinn misskilning um sjóðinn. Það er til dæmis staðreynd að fjármagni úr honum er ráðstafað í grunnframlög til rekstrar grunnskóla og þjónustu við fatlað fólk í öllum sveitarfélögum óháð stærð og staðsetningu, enda voru þessir málaflokkar færðir frá ríki til sveitarfélaga. Sjóðurinn hefur líka jöfnunarhlutverk, sem er bæði eðlilegt og mikilvægt og við Garðbæingar tökum svo sannarlega þátt í með mun meiri greiðslum til sjóðsins en við fáum til baka,“ segir Almar að lokum.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Jöfnunarsjóður hefur markaðar tekjur sem ráðast af skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Hann fær sem nemur 2,111% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og tryggingargjöldum og 0,264% af álagningarstofni útsvars síðastliðins tekjuárs.
Til viðbótar rennur til sjóðsins ákveðin hlutdeild af útsvarsstofni hvers árs: 0,77% vegna reksturs grunnskóla og 0,99% vegna málefna fatlaðs fólks. Framlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga skiptast í
jöfnunarframlög, þ.á m. vegna reksturs grunnskóla og vegna málefna fatlaðs fólks, bundin framlög, þ.á m. til samtaka sveitarfélaga og sérstök framlög, þ.á m. til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.