Börnin hvött til að nýta ímyndunaraflið út í ystu æsar

Óhætt er að segja að skapandi sumarnámskeið Klifsins séu farin að skapa sér sess hjá krökkum í Garðabæ. Kristjana Mist og Hildur Lára sem stýra sumarstarfinu í ár eru ánægðar með mikla eftirspurn eftir námskeiðum sumarsins en það er nú þegar orðið fullt á nokkur þeirra.

Kristjana Mist stýrir sumarstarfi Klifsins í ár ásamt Hildi Láru

,,Við erum svo lánsamar að vera með framúrskarandi listafólk sem mun kenna á sumarnámskeiðum Klifsins” Söngkonan, lagahöfundurinn og rithöfundurinn Rebekka Sif ætlar að vera aftur með okkur í sumar og kenna söng fyrir 6-12 ár. Einnig mun Bára Lind sem er nýútskrifuð úr leiklistarskóla á Englandi vera með spennandi námskeið í leiklist, spuna, tjáningu og framkomu fyrir 6-12 ára,“ segir Kristjana Mist sem mun kenna hið sívinsæla Skapandi sumarfjör. ,,Skapandi sumarfjör er skemmtileg leikja- og listasmiðja þar sem börn fá að leysa eigin sköpunarkraft úr læðingi á sviði vísinda, myndlistar, leiklistar, dans og tónlistar. Leikir og hópefli verða ríkjandi og munu námskeiðin einkennast af mikilli sköpunar- og leikgleði,“ segir hún. 

Fjölbreytt myndlistarnámskeið

,,Fyrir börn sem elska að skapa með höndunum þá verða fjölbreytt myndlistarnámskeið í boði. Bæði bjóðum við upp á hefðbundin myndlistarnámskeið og myndasögugerð sem hafa verið vinsælustu námskeið Klifsins, en í ár ætlum við einnig að bjóða upp á Procreate sem er nýtt námskeið sem Ísold Davíðsdóttir mun kenna. Hildur Lára mun kenna Hreyfimyndagerð, Myndlist og Málun en einnig Myndasögugerð, hún er dásamlegur kennari sem hefur kennt í Klifinu til fjölda ára og mörg dæmi um það að börn komi aftur og aftur á námskeið til hennar,“ segir hún og bætir við að lokum. ,,Mikil gleði og ánægja hefur fylgt sumarnámskeiðunum Klifsins, enda eru börnin hvött til að nýta ímyndunaraflið út í ystu æsar,” segir Kristjana Mist sem hlakkar til sumarsins.

Fyrir þá sem vilja nálgast frekari upplýsingar um námskeiðin bendi ég á www.klifid.is.

Spennandi námskeið í leiklist, spuna, tjáninug og framkomu er í boði í Klifinu í sumar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar