Börn og ungmenni áhugasöm og forvitin um hönnun á Hönnunarsafninu

Einn megintilgangur safna er að mennta, uppfræða og taka þátt í og móta samfélag. Það er fengur að Hönnunarsafni Íslands hafi á sínum tíma verið valinn staður í Garðabæ og að sveitarfélagið hafi verið tilbúið að fóstra safnið. Í dag er safnið einn af hornsteinum samfélagsins og líflegri flóru menningar og mannlífs, þjónustu og verslunar á Garðatorgi.

Í Garðabæ er gróskumikið menningarlíf. Menning og listir eru gildur þáttur í samfélaginu og mikilvægt sameiningarafl. Sveitarfélagið lætur sig varða lista- og menningarstarf barna og ungmenna. Hönnunarsafnið er barnvænt safn og markmiðið er að börnum og ungmennum líði vel á safninu, en stór hluti starfsemi Hönnunarsafnsins miðar að þessum hópi.

Heimsóknir barna og ungmenna á söfn geta skilað margvíslegum ávinningi. Söfn eru tilvalinn vettvangur fyrir börn til að læra og afla þekkingar. Oft veita söfn innsýn inn í heim sem ekki er gerð ítarleg skil í skólum eða annarsstaðar. Mikilvægi hönnunar fer vaxandi. Innsýn og fjárfestingar í hönnun hafa jákvæð áhrif á umfang nýsköpunar. Á Hönnunarsafninu hefur verið lögð áhersla á að auka vitund og forvitni barna og ungmenna um hönnun. Í heimsókn í safnið geta börn og ungmenni kannað nýja þekkingu á sviði hönnunar og svalað forvitni á eigin forsendum. Þetta getur örvað sköpun, gagnrýna hugsun og skapað nýjar tengingar við heiminn í kringum þau. Heimsókn á Hönnunarsafnið getur því skapað áhuga og tækifæri tengd íslenskri hönnun sem getur veitt framtíðarhönnuðum innblástur og til framtíðar ýtt undir hönnun, jafnvel nýsköpun, sem sækir andgift í íslenskan hönnunararf.

Heimsóknir barna og ungmenna á söfn geta skilað margvíslegum ávinningi.

Safnafræðsla fyrir börn og ungmenni leikur sífellt stærra hlutverk í starfsemi safnsins og tekur safnið á móti vaxandi fjölda nemenda ár hvert. Safnið hefur tekið þátt í Barnamenningarhátíð Garðabæjar og hefur einnig verið ötult við að bjóða upp á viðburði, afþreyingu, örnámskeið sem og lengri námskeið fyrir börn og ungmenni, m.a. í gegnum Hönnunarskóla Íslands sem safnið starfrækir og var stofnaður af safninu árið 2019. Árið 2020 tók safnið í notkun nýtt rými, Smiðjuna, sem hefur verið nýtt fyrir safnafræðslu, námskeið og smiðjur m.a. fyrir börn og ungmenni. Á síðasta ári var stærðfræðiþrautaborð byggt á hugverki Einars Þorsteins arkitekts vígt í safninu. Barnamenningarsjóður styrkti verkefnið um 1,1 m.kr. Borðið er staðsett í Smiðjunni og hefur verið nýtt af skólahópum sem og fjölskyldufólki sem heimsækir safnið. Ungmenni í sumarstarfi í Hönnunarsafninu á vegum Garðabæjar hafa gætt safnið lífi yfir sumarmánuðina og tekið þátt í margvíslegum verkefnum á safninu. Til skoðunar er að útvíkka hvatningarsjóð Garðabæjar fyrir unga listamenn með það að leiðarljósi að ungir hönnuðir komi jafnframt til greina við úthlutun styrkja.

Sveitarfélagið Garðabær hefur mikinn metnað fyrir hönd Hönnunarsafnins og er starfsemi safnsins í sífelldri þróun. Þá hefur Hönnunarsafnið í samstarfi við menningarfulltrúa Garðabæjar verið að þróa frekari uppbyggingu safnastarfs fyrir börn og ungmenni sem verður spennandi að fylgjast með á komandi árum.

Dagstund á Hönnunarsafninu með börnum og ungmennum getur verið uppbyggileg og gefandi. Hægt er að fylgjast með dagskrá á heimasíðu safnsins (honnunarsafn.is) og á samfélagsmiðlunum, Facebook og Instagram.

Stella Stefánsdóttir,
Formaður stjórnar Hönnunarsafns Íslands

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar