Bókaverðlaun barnanna – 340 atkvæðisseðlar bárust

Góð þátttaka var í Bókaverðlaunum barnanna í ár, en 340 atkvæðaseðlar bárust með 836 atkvæðum. Börnin völdu sínar uppáhaldsbækur frá árinu 2023 og fór kosning fram í Bókasafni Garðabæjar og flestum skólabókasöfnum bæjarins.

Alls 88 bækur hlutu atkvæði en nokkrar urðu langefstar í kosningu barnanna. Vinsælustu íslensku bækurnar voru Orri óstöðvandi: Jólin eru að koma og Salka: Hrekkjavakan eftir Bjarna Fritzson, Bannað að drepa og Bella gella krossari eftir Gunnar Helgason, Lára missir tönn eftir Birgittu Haukdal og Stelpur stranglega bannaðar eftir Emblu Bachmann. Af þýddum bókum voru það Messi er frábær, Mbappé er frábær, Handbók fyrir ofurhetjur, Dagbók Kidda klaufa, Hundmann og Verstu gæludýr í heimi sem hlutu flest atkvæði. Þrír heppnir þátttakendur voru dregnir út og fengu þeir bók í verðlaun. Það voru þau Guðrún Marín í 3.bekk í Sjálandsskóla, Arnhildur Ylfa í 7.bekk Flataskóla og Tómas Ingi í 6.bekk Álftanesskóla.

Niðurstöðurnar í Garðabænum eru nokkuð samhljóða valinu á landsvísu, en þar hefur verið tilkynnt um fimm efstu bækurnar í hverjum flokki sem hægt er svo að kjósa um á netinu til lokaúrslita sem verða tilkynnt í beinni útsendingu 8.júní á RÚV þegar Sögur – verðlaunahátíð barnanna fer fram. Bókasafnið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og óskar vinningshöfum, rithöfundum og þýðendum til hamingju.

Forsíðumynd: Tómas Ingi Álftanesskóla

Guðrún María í Sjálandsskóla
Arnhildur Ylfa í Flataskóla

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar