Það verður boðið upp á létta tónlistarveislu á jólahlaðborði veitingahússins Sjálands í ár, en einvalalið tónlistarmanna, eins og Stefán Hilmarsson og Klara Elíasdóttir, munu sjá um vandaða tónlistardagskrá á meðan gestir njóta girnilegra kræsinga af jólahlaðborði Sjálands.
Tók að sér hlutverk gestgjafans
Það er hinn geðþekki Garðbæingur, Einar Bárðarson, sem verður gestgjafi Sjálands og Garðapósturinn spurði hann nánar um sinn þátt og hvaða tónlistarmenn munu mæta í Sjáland? ,,Við Stefán, eigandi Sjálands, erum góðir kunningjar og hann spurði mig í sumar hvaða listamenn gætu passað vel í smá hátíðarhald á Sjálandi og ég ráðlagði honum að athuga með þetta frábæra fólk þannig að ég ber þannig einhverja ábyrgð á þessu. Svo sló ég bara til og ákvað að taka að mér hlutverk gestgjafa eða kynnis eftir því hvað við kjósum að kalla það en það er nú líka vara að því ég bý í næstu götu og get ekki hugsað með betri aðdraganda jóla en að hlusta á þau syngja jólalög cirka 15 eða 20 kvöld fram að jólum.”
Uppáhaldssöngvari margra kynslóða
Og það verða væntanlega sungin einhver jólalög enda Stefán þekktur fyrir nokkur slík? ,,Stefán er náttúrulega uppáhaldssöngvari margra kynslóða og þegar kemur að jólalögum þá hefur hann verið ótrúlega fundvís á fallegar jólamelódíur og mikið af fallegu efni til með honum.”
Jaðrar við að fá handritin heim með komu Klöru
Hvað með Klöru Elíasdóttur, langt síðan að hún hefur komið fram hér á landi?
,,Klöru er ég búinn að þekkja síðan vorið 2004 þegar hún kom í áheyrnaprufur til okkar í söngverkefni sem svo þróaðist í það sem við þekkjum sem Nylon. Þær voru frábærar og skemmtilegar í því samstarfi og held ennþá sambandi við þær allar. Klara hefur búið í Los Angeles bróður part síðasta áratugar og unnið þar við söng og lagasmíðar en hún er nú með þannig rödd að það jaðrar við að fá handritin heim að fá hana aftur til Íslands og fá að hlusta á hana hérna heima.”
Undrabarnið Þórir Úlfarsson
Og þau mynda gott jóladúó, en hafa þó sér til halds og trausts ,,undarbarnið” og tónlistarstjórann Þóri Úlfarsson. Hann ætti að kunna þetta? ,,Þórir er frábær og hefur unnið mjög mikið með Stefáni og vann heilmikið með okkur í Nylon verkefninu á sínum tíma og svo hef ég unnið jafnt og þetta með honum síðustu ár í þeim fáum tónlistarverkefnum sem rekið hafa á mínar fjörur.
Þannig að það verður sannkölluð jólaveisla í Sjálandi í nóvember og desember? ,,Þetta er sérvalið inn á Sjáland eins og allt sem Stefán eigandi Sjálands gerir, þangað fer ekkert inn og ekkert boðið gestum sem er ekki vel út pælt og ígrundað.”