Björg Fenger

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver ert þú og hvaða sæti sækist þú eftir?
Ég er forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður íþrótta- og tómstundaráðs. Ég býð mig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Ég hef verið bæjarfulltrúi í Garðabæ síðastliðin 4 ár en var áður varabæjarfulltrúi. Á þessu kjörtímabili hef ég setið í bæjarráði, verið stjórnarformaður Strætó bs. ásamt því að sitja í samstarfsnefnd skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. Ég hef jafnframt setið í ýmsum vinnu- og starfshópum á vegum Garðabæjar. Ber þar hæst að ég leiddi vinnu starfshóps vegna undirbúnings byggingar á Miðgarði, nýja fjölnota íþróttahúsinu okkar hér í Garðabæ.

Ég er 43 ára lögfræðingur, gift Jóni Sigurðssyni forstjóra Stoða og saman eigum við tvo drengi. Sigurð, nemanda í HR og Styrmi, nemanda í Garðaskóla.

Af hverju býður þú þig fram?
Ég vil gera góðan bæ enn betri. Ég hef ávallt látið mig nærsamfélagið varða og tekið virkan þátt í gegnum foreldrastarf, stjórnarsetu í íþróttafélögum ásamt þátttöku í sveitarstjórnarmálum. Á undanförnum árum hef ég tekist á við umfangsmikil og krefjandi verkefni á vegum bæjarins og þannig öðlast dýrmæta reynslu. Ég tel að sú reynsla muni nýtast mér vel til að vinna að því að Garðabær verði áfram eftirsóknarvert bæjarfélag í fremstu röð.

Hverjar eru þínar helstu áherslur?
Ég legg áherslu á áframhaldandi uppbyggingu á fjölskylduvænu samfélagi með traustan fjárhag. Í því felst að skapa í bænum aðstæður þannig að einstaklingar á öllum aldri geti lifað góðu lífi. Það tel ég best gert með því að bjóða upp á framsækið skólastarf í leik- og grunnskólum og kröftugt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf fyrir alla aldurshópa. Fjölbreytt húsnæði fyrir einstaklinga á mismunandi æviskeiðum þarf að vera í boði og bærinn okkar á að vera snyrtilegur. Viðhaldi þarf að vera vel sinnt ásamt því að bæjarbúar geti stundað útivist í fallegri náttúru innan bæjarins sem og í friðlandinu.

Ég vil að fjárhagur bæjarins sé traustur, álögur lágar og ráðdeild sé viðhöfð í rekstrinum. Við þurfum að vera fjárhagslega í stakk búin til að halda áfram að byggja hér upp innviði samfara stækkun bæjarins og bjóða upp á framúrskarandi þjónustu með valfrelsi að leiðarljósi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar