Bjartsýnn á framkvæmdir í skólunum

„Við vissum að sumarið yrði lykilinn að framkvæmdunum í skólum bæjarins og þetta hefur gengið eins og best er á kosið,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri. Miklar framkvæmdir hafa verið í Álftanesskóla, Hofsstaðaskóla, Flataskóla og Garðaskóla í sumar, en nemendur og starfsfólk skólanna stóðu sig einnig afskaplega vel í umfangsmiklum framkvæmdum í vetur og vor vegna rakaskemmda.

Vissum að þetta myndi reyna á þolrif allra

„Við fórum í þetta verkefni með það að markmiði að allt væri upp á borðum og vissum að þetta myndi reyna á þolrif allra. Mig langar að þakka nemendum og starfsfólki og stjórnendum skólanna fyrir þolinmæðina,“ segir Almar og bætir við: „Við erum nú komin með gott verklag – sem við þurfum vonandi ekki að nota mjög mikið í framtíðinni– til að takast á við svona verkefni. Það felst meðal annars í upplýsingagjöf, að grípa inn í hratt og jafnframt vanda til verka. Við vitum að það er ekkert gefið í þessum málum og að eftirfylgnin og endurteknar sýnatökur skipta máli.“

Bjartsýnn eftir verkfund

Garðabær hefur unnið með verkfræðistofunni Mannvit og fjölmörgum verktökum. Í síðustu viku var haldinn verkfundur þar sem farið var yfir stöðuna í skólum bæjarins og eru framkvæmdir á áætlun.
 „Eftir þennan verkfund er ég ágætlega bjartsýnn. Ég hef fylgst vel með þessum málum og átt í góðu samtali við alla sem að þeim koma,“ segir Almar.  „Framkvæmdir ganga vel í Hofsstaðaskóla og er upprunalegt plan okkar þar að halda. Þar er verið að setja upp sérstakar loftræstieiningar í stofur og við sjáum fram á að framkvæmdir haldi aðeins áfram fram á haustið á ytra byrgði skólans. Eftir verslunarmannahelgina hefjast þar þrif.“
 
Flatarskóli reyndist eitt flóknasta verkefnið, þar sem skólinn var byggður í fjölmörgum áföngum á mörgum árum. „Við eigum von á að fá vesturhluta skólans afhentan, fyrir utan matsalinn, þann 9 ágúst. Gluggaskipti og þakviðgerðir ganga vel og við erum bjartsýn á að kennslustofur og rými innanhúss verði klár fyrir skólabyrjun. Smíðastofa, matsalur að hluta og heimilisfræðistofa eru þar undanskilin og en eru forgangsmál í vetur.“

Álftanesskóli og Garðaskóli
Álftanesskóli er að verða klár eftir framkvæmdir og verður tilbúinn áður en skólinn hefst í lok mánaðar. „Svo er það Garðaskóli. Við fengum þær niðurstöður auðvitað bara í vor, og þar er enn allt undir. Við sjáum samt fram á að flestar ef ekki allar skólastofurnar sem þurfti að laga verði klárar í byrjun skólaársins en munum þurfa lengri tíma í skrifstofur og annað. Svo er það eftirfylgni með öllum skólunum, við endurtökum sýnatökur og fullvissum okkur um að framkvæmdir hafi heppnast sem allra best,“ segir Almar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar