Bjarni Th. í 4.-6. sæti

Sjálfstæðisstefnan og öll þau gildi sem hún hefur að geyma er ríkur þáttur í mínum áherslumálum. Garðabær er sveitarfélag sem hefur verið stýrt af sjálfstæðismönnum um áratugaskeið. Þar er gott að búa enda haldið vel á málum. En betur má ef duga skal þótt Garðabær sé framúskarandi sveitarfélag á íslenskan mælikvarða og þótt víða væri leitað.

Hver er maðurinn?

Ég er 57 ára gamall, kvæntur Iðunni Jónsdóttur og búum við á Strandveginum í Sjálandshverfi, en áður áttum við heima í Mávanesinu. Ég er fjögurra barna faðir og get státað af sjö barnabörnum, er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu og áherslu á rekstur og fjármál.

Ég er fæddur á Dalvík, bjó á Húsavík frá fjögurra ára aldri og flutti til Akureyrar um fermingu. Er stúdent frá MA. Við hjónin fluttum í Mávanesið árið 2004. Iðunn lokkaði mig í Garðabæinn enda hafði hún alist þar upp frá fermingu og gengið í Garðaskóla og FG. Yngsta barnið okkar var í fyrsta árgangi Sjálandsskóla og var fyrsti nemandinn til að útskrifast þaðan.

Störf Bjarna Th.

Á æskuárum mínum á Húsavík naut ég þess frelsis sem slík bæjarfélög bjóða. Á veturna var skíðamennskan allsráðandi enda stutt í brekkurnar á Húsavík.

Á námsárum mínum eftir Gaggó á Akureyri stundaði ég aðallega sjómennsku á bátum, togurum og uppsjávarskipum á sumrun. Það gaf góðar tekjur og hjálpaði til að greiða námskostnað á vetrunum.
Í um aldarfjórðung hef ég verið stjórnandi í atvinnulífinu og komið að margþættum rekstri. Lengst af sem stjórnandi innan BYKO, en einnig sem markaðs- og útgerðarstjóri hjá Fiskafurðum og framkvæmdastjóri Ellingsen. Ég starfaði eitt ár í Lettlandi sem framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis BYKO sem hafði með innkaup á timbri í baltnesku löndunum að gera. Einnig bjó ég í eitt ár í Noregi og var framkvæmdastjóri Skíðamenntaskóla þar sem sonur minn var í námi

Ég var bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar árin 2014-2018. Á þeim tíma gengdi ég ýmsum stjórnarstörfum samhliða bæjarstjórastarfinu t.d. stjórn Almannavarnanefndar Eyjafjarðar, stjórnarformaður dvalarheimils aldraða á Dalvík, hafnarstjóri Dalvíkurhafna, stjórn Eyþings landshlutasamtaka, stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, sat í stjórn Róta byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi. Í dag er ég fjármálastjóri í fjölskyldufyrirtæki okkar hjóna ásamt syni okkar. En það fyrirtæki hefur með höndum innflutning og sölu á íbúðaeiningum frá Lettlandi.

Félagsstörf og stjórnmálastarf

Skíðamennskan hefur verið mín íþrótt þó svo ég hafi líka æft handbolta, fótbolta og frjálsar íþróttir á mínum yngri árum. Ég er fyrrum landsliðsmaður á skíðum og var skíðaþjálfari keppnisfólks um áratugaskeið. Frá maí 2019 hef ég verið formaður Skíðasambands Íslands.

Fyrir aldamótin tók ég þátt í Round Table hreyfingunni til fjölda ára og eftir það hef ég verið virkur í Frímúrarareglunni á Íslandi.

Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn um leið og aldur leyfði. Var öll menntaskólaárin í stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Var í stjórn SUS og hef sótt landsfundi síðan Geir heitinn Hallgrímsson var formaður.

Ég gef kost á mér í 4.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ þann 5. mars nk.

Bjarni Th. Bjarnason

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar