Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 4.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ á laugardaginn 5. mars n.k.
Sjálfstæðisstefnan er samþætting frjálslyndra og íhaldssamra gilda. Þannig varð okkar flokkur til. Ég fylgi þeirri stefnu með áherslu á að einstaklingsfrelsið sé kjarninn í hugmyndafræðinni.
Sem 57 ára gamall sjálfstæðis-maður og fyrrum stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, SUS, er gaman að sjá að stefnan er óbreytt frá því í gamla daga: „Tilgangur sambandsins er m.a. að efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslynda framfarastefnu á grund-velli einstaklingsfrelsis, atvinnu-frelsis og séreignar, með hags-muni allra stétta fyrir augum.“
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt höfðað til unga fólksins með sinni stefnu um frelsi til orðs og æðis. Umburðarlyndi og virðing gagnvart náunganum er ákveðinn grunnur í sjálfstæðis-stefnunni með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Árið 2004 fluttum við fjölskyldan í Garðabæ. Eiginkona mín, Iðunn Jónsdóttir, ólst upp sem unglingur í Garðabæ og var í Garðaskóla og Fjölbraut í Garðabæ. Yngsta barnið okkar var í Sjálandsskóla og eftir hans skólagöngu fluttum við okkur úr Mávanesinu á Strandveginn í Sjálandshverfinu.
Árin 2014-2018 voru bæjarstjóraárin í fæðingarbænum Dalvík. Við hjónin héldum þá tvö heimili, á Dalvík og í Garðabæ. Á Dalvíkurárum mínum voru mörg krefjandi stjórnsýsluleg mál sem þurfti að finna lausn á. Fyrir utan starf bæjarstjóra og hafnarstjóra í 2.000 manna sjávarútvegsbyggð, þá var stjórnarformennska Dalbæjar í fjögur ár, dvalarheimilis aldraðra á Dalvík, krefjandi og kærleiksríkt starf. Að bera ábyrgð sem stjórnarformaður hjúkrunarheimilis aldraðra í heimabyggð um fjögurra ára skeið var dýr-mæt reynsla og kenndi manni vel á stjórnsýsluna hjá ríkinu. Auk heimaverkefna féllu til ýmis stjórnarstörf s.s. í Eyþing (sveitarfélagasamtök), AFE (Atvinnu-þróunarfélag Eyjafjarðar), Rætur b.s. (byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi), Almanna-varnanefnd Eyjafjarðar, Molta ehf.(lausnir í sorpeyðingarmálum).
Skíðamennskan og sem fyrrum landsliðsmaður á skíðum og skíðaþjálfari ungmenna dróg mig inn í formennsku SKÍ fyrir um þremur árum síðan. Störf innan íþróttahreyfingarinnar eru gefandi og hvetjandi í öllu starfi.
Ég er varabæjarfulltrúi og hef setið í fjölskylduráði frá 2018. Jafnframt er ég formaður samráðshóps um málefni fatlaðra og varaformaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar síðan árið 2018.
Rekstur Garðabæjar hefur gengið ágætlega með stefnufestu í ákvarðanatökum og þannig óska ég að framhaldið verði. Þó mætti gera enn betur með því að halda álögum í lágmarki. Ég vil að fasteignaskattur verði lækkaður eftir gríðarlegar hækkanir fasteignamats undanfarin ár. Að auki tel ég að alltaf eigi að halda útsvari í lágmarki.
Ég vil leggja meiri áherslu á að nýta velferðartækni í félagsþjónustu Garðabæjar við aldraða og fatlað fólk. Tæknin er til að auka gæði þjónustu ásamt því að vera rekstrarlega hagkvæm. Skólamálin, stærsti útgjaldaliður Garðabæjar, hafa verið til fyrirmyndar. Garðabær hefur stutt við einkaskóla eins og t.d. Hjallastefnuna. Sjálfstætt starfandi skólar verða að vera hluti af vexti skólakerfis Garðabæjar til framtíðar.
Ég tel að áhugi minn á sveitarstjórnarmálum, reynsla af þeim vettvangi, reynsla af félagsstarfi innan íþróttahreyfingarinnar og víðtæk reynsla úr viðskiptalífinu sé gott veganesti til starfa í bæjarstjórn.
Bjarni Theódór Bjarnason