Sex ár eru liðin síðan að karlalið Stjörnunnar í knattspyrnu varð bikarmeistari eftir sigur á Breiðabliki í spennandi leik sem fór í vítaspyrnukeppni, en þetta er eini bikarmeistaratitilinn sem Stjarnan hefur unnið í karlaflokki.
Drengirnir sem skipuðu liðið á þessum tíma ásamt þjálfurum hafa hist reglulega eftir að bikarmeistaratitillinn var handleikinn árið 2018 og í síðustu viku hittist liðið heima hjá Haraldi Björnssyni, markverði liðsins, þar sem m.a. úrslitaleikurinn var rifjaður upp og þaðan lá leiðin á Sæta svínið.
Þessi hópur, sem hefur að geyma marga frábæra knattspyrnumenn og nokkra ef helstu sonum Stjörnunnar, virðist ekki fá leið á hvor öðrum því þeir hafa hist nokkrum sinnum eftir þennan flotta bikarsigur. Þeir hafa tvisvar farið saman erlendis, fyrst til Hamborgar í Þýskalandi og síðan til Edinborgar og Newcastle í sömu ferð. Næst stefna þeir á að fara saman erlendis árið 2026, en fyrir utna þessar ferðir erlendis þá hittast þeir reglulega hérna heima.
Æfðu ekki vítaspynur fyrir leikinn
Til að rifja aðeins upp leikinn þá var leikurinn stál í stál, en eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var markalaust. Löglegt mark var tekið af Stjörnunni á lokamínútu venjulegs leiktíma og Stjarnan fékk svo gullin tækifæri í lok framlengingar til að skora sigurmarkið sem ekki gekk eftir, en vítin voru ekki vandamál hjá Stjörnumönnum þar sem þeir reyndustu andlega sterkari en Blikar og skoruðu úr öllum sínum fjórum spyrnum á meðan Breiðablik skoraði úr aðeins einni spyrnu. Halli Björns, markvörður Stjörnunnar varði eina spyrnu í vítakeppninni með glæsibrag auk þess sem hann varði í þrígang mjög vel í leiknum. Halli var í raun maður leiksins þótt allir leikmenn Stjörnunnar hafi staðið sig vel og lagt sig alla fram, en til vitnis um það þá fengu þeir Brynjar Gauti og Gaui Baldvins sinadrátt að leik loknum þegar þeir tóku sprett að stúkunni og renndu sér á hjánum fyrir framan stuðningsmennina. Þeir lágu síðan kylliflatir á grasinu við stúkuna eins og það hafi verið brotið illa á þeim og gátu sig hvergi hreyft fyrr en liðsmenn þeirra og sjúkraþjálfarar komu til að hlúa að þeim.
Það voru reynsluboltarnir, Hilmar Árni Halldórsson, Baldur Sigurðsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Eyjólfur Héðinsson sem skoruðu örugglega úr vítinum fyrir Stjörnuna. Í viðtali Garðapóstsins við Rúnar Pál Sigmundsson þjálfara liðsins eftir leikinn kom í ljós að liðið hafi ekki æft vítaspyrnur fyrir leikinn.