Benedikt Sveinsson

Í bókinni „Skíni Stjarnan“ segir höfundurinn, Steinar J. Lúðvíksson: „Á engan er hallað þótt sagt sé að Benedikt hafi haft meiri áhrif en nokkur annar á styrkingu félagsins og íþróttalíf bæjarins þar sem hann beitti sér ákveðið fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og auknum fjárhagslegum stuðningi bæjarins við félagið svo sem nánar er fjallað um í bókinni,“ og eru þetta örugglega orð að sönnu. Allt frá því að Benedikt flutti í Garðabæ sýndi hann félaginu áhuga og er þess t.d. getið að árið 1973 hafði hann forgöngu um að finna félaginu nýjan formann og var það raunar ekki í fyrsta skiptið.

Sjálfur kynntist ég Benedikt árið 1977 þegar ég, ásamt Bjarna, syni Benedikts hóf að æfa knattspyrnu. Fylgdi hann okkur, 1970 árganginum, eftir alla tíð á meðan við stunduðum ýmist handknattleik eða knattspyrnu hjá Stjörnunni og hjá mörgum okkar var hann síðar mikilvægur bakhjarl þegar við tókum að okkur stjórnunarstörf hjá félaginu.

Benedikt var formaður byggingarnefndar bæði við uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar og sundlaugarinnar við Ásgarð.

Þá var hann í forsvari fyrir uppbyggingu knattspyrnuvalla bæði á Ásgarðssvæðinu og við Hofsstaðaskóla og hann hafði einnig frumkvæði að því að koma upp einum fyrsta æfingavelli sem lagður var gervigrasi á Íslandi við Ásgarð. Sagt er að Benedikt hafi spurt þáverandi þjálfara Stjörnunnar, Jóhannes Atlason, hvort honum þætti góð hugmynd að fá æfingavöll lagðan gervigrasi og fengið jákvætt svar frá honum. „Þá látum við það gerast,“ svaraði Benedikt. Æfingavöllur sá er um ræðir er enn notaður af Stjörnunni.

Benedikt var þekktur fyrir að láta hlutina gerast hvað varðaði uppbyggingu og eflingu alls íþróttastarfs í Garðabæ. Hann, ásamt Erling Ásgeirssyni, hafði forgöngu um að Gunnar Einarsson var ráðinn íþróttafulltrúi í Garðabæ og jafnframt þjálfari meistaraflokks Stjörnunnar í handknattleik. Var það mjög dýrmætt skref í glæsilegum uppgangsskeiði handknattleiksins í Garðabæ þar sem leiðin lá úr neðri deildum í þá efstu þar sem félagið hefur verið lengst af síðan.

Árið 1986 tók Benedikt sæti í stjórn knattspyrnudeildar félagsins og segja má að þar með hafi uppgangstímabil deildarinnar bæði í yngri flokkum og meistaraflokkum hafist. Hann hafði forgöngu um að landsliðsmennirnir Árni Sveinsson og Sveinbjörn Hákonarson auk Rögnu Lóu Stefánsdóttur komu frá Akranesi til Stjörnunnar og það skipti sköpum fyrir félagið á leið sinni í fremstu röð bæði í karla- og kvennaflokki.

Þótt Benedikt hafi ekki setið lengi sem formlegur stjórnarmaður hjá Stjörnunni má sega að hann sé fremstur meðal jafningja í baklandi félagsins í áratugi. Ég leyfi mér að fullyrða að hann var velgjörðarmaður félagsins. Hann var ekki einungis til ráðgjafar og styrkur fyrir þjálfara og forystumenn félagsins heldur lagði hann einnig fjármuni til reksturs Stjörnunnar, bæði persónulega og gegnum þau fyrirtæki sem hann hafði aðkomu að.
Í sínu daglega lífi stundað Benedikt viðskipti og var í forystu fyrir stórfyrirtæki. Hann hafði líka einlægan áhuga á samfélagsmálum og lét samfélagið Garðabæ sannarlega njóta þess.

Benedikt var gerður að heiðursfélaga Stjörnunnar árið 2014. Haustið 2023 kom hann í síðasta sinn í Stjörnuheimilið og mætti þar ásamt öðrum heiðursfélögum til að hlusta á fyrirlestra Patreks Jóhannessonar handknattleikþjálfara og Jökuls Elísubetarsonar knattspyrnuþjálfara þar sem framtíð félagsins bar ekki síst á góma.

Ungmennafélagið Stjarnan þakkar Benedikt Sveinssyni samfylgdina og fyrir hans mikla og merka framlag til félagsins. Við sendum Guðríði, Bjarna, Sveini og Jóni innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður Guðmundsson, formaður Stjörnunnar.

Mynd. Heiðursfélagar Stjörnunnar komu saman í Stjörnuheimilinu í lok nóvember 2023 ásamt Sigurði Guðmundssyni formanni Stjörnunnar. F.v. Sigurður Guðmundsson, Sigurður Bjarnason, Jóhann Ingi Jóhannsson, Erling Ásgeirsson, Benedikt Sveinsson, Jón Guðmundsson, Jón Ásgeir Eyjólfsson, Snorri Olsen, Jóhann Ingimundarson, Lárus Blöndal, Gunnar Einarsson, Steinar J. Lúðvíksson og Guðjón Erling Friðriksson. Á myndina vantar Önnu Möller heiðursfélaga

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar