Bein leið, liggur gatan greið?

Leið mín á bæjarskrifstofuna er alla jafna nokkuð greið, enda örstutt.

En þrátt fyrir það þekki ég, líkt og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins, umferðatafir – eða teppu- vel. „Teppan“ fer líklegast að ná hápunkti sínum á næstu dögum nú þegar skólar eru byrjaðir og sumarfrí klárast.
Umferðin er augljóslega hluti af lífinu, en í mínum huga er það valfrelsismál – og lýðheilsumál-að geta valið sér ferðamáta. Hvort sem fólk vill ferðast akandi, gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum eiga það að vera þeim raunhæfir valkostir.

Hér í Garðabæ höfum við verið nokkuð sjálfbær í því að útbúa greiðfæra göngu og hjólastíga, enda vitum við að gerir fólki kleift að hreyfa sig eftir eigin hentisemi. Innviðaskuldin varðandi bílaumferðina var hins vegar orðin yfirgengileg, enda ekki á okkar færi að laga hana einsömul.

Það var því jákvætt skref þegar Samgöngusáttmálinn varð að veruleika árið 2019. Því miður fór framkvæmd hans ekki nægilega vel af stað og ýmis þeirra verkefna sem um var samið voru ekki nægilega þroskuð og hingað til höfum við séð of lítinn ávinning og mun meiri kostnað en lagt var upp með. Umfangsmikil uppfærsla á sáttmálanum hefur verið í gangi undanfarna mánuði, þar sem áætlanir og uppsetning sáttmálans voru endurskoðaðar rækilega.

Það var því mikilvægur áfangi þegar uppfærður Samgöngusáttmáli var undirritaður.

Hann er sameiginleg niðurstaða höfuðborgarsvæðisins og ríkisins um framtíðarsýn, sem felur í sér fjölbreytta og raunhæfa samgönguvalkosti. Samgöngusáttmálinn felur ekki aðeins í sér bættar almenningssamgöngur eða hjólastíga.

Hann er einnig sameiginlegt átak ríkis og bæja að vinna á innviðaskuldinni sem við erum svo sannarlega komin í. Það er algjörlega nauðsynlegt að tryggja uppbyggingu stofnvega á höfuðborgarsvæðinu.

Á meðal þeirra verkefna sem munu hafa mikil áhrif á umferðarflæði til og frá Garðabæ er að Hafnarfjarðarvegur verður lagður í stokk í gegnum miðjan bæinn. Enn er nokkuð langt í þá framkvæmd en allt okkar skipulag miðast við hana. Breytingar á gatnamótum Reykjanesbrautar við Kaplakrika í Hafnarfirði og gerð mislægra gatnamóta í Garðabæ á mótum Reykjanesbrautar og Álftanesvegar (rétt við húsnæði Góu) munu verða að veruleika innan fárra ára. Sú framkvæmd er mjög mikilvæg fyrir Garðbæinga. Að sjálfsögðu eru önnur mál okkur líka mikilvæg, ég trúi því t.d. að það styttist í að biðinni löngu eftir mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar ljúki. Þó fyrr hefði verið.

Samgöngusáttmálinn er afrakstur sameiginlegrar vinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Hann horfir ekki á einn hóp heldur yfir allt sviðið og reynir að koma til móts við þarfir okkar í nútíma samfélagi. Garðabær er í vexti, þeim mesta af nágrannasveitarfélögunum. Við erum að leggja drög að því að innviðirnir okkar beri þessa öru þróun. Samgöngukerfið er okkar allra, það er hagur okkar allra að samgöngur séu greiðfærar. Auðvitað væri einfalt að segja að við Garðbæingar vildum meiri umbætur hjá okkur og fyrir okkur. En sem betur fer hefur öllum sveitarfélögunum og ríkisvaldinu lánast að horfa á heildarmyndina og þá forgangsröðun sem nauðsynleg er saman. Og við Garðbæingar getum mjög vel við unað.

Í mínum huga var alveg ljóst að ríkið þyrfti að koma að rekstri almenningssamgangna og að sá hluti verkefnisins þyrfti að vera innan ramma nýs samgöngusáttmála. Það er lykilforsenda þess að hægt sé að byggja upp almenningssamgöngurnar og tryggja að þær nái markmiðum sínum. Sáttmálinn í heild, jafnt stofnvegir, sem almenningssamgöngur og aðrir ferðamátar, þarf að vera byggður upp af áætlunum og raunsæi. Það er því lykilforsenda að ríkið mun taka þátt í rekstrinum til framtíðar.

Nú þurfum við að halda vel á spöðunum þar sem fyrsta skrefið er umræða í bæjarráði og bæjarstjórn um þetta mikilvæga mál og hagsmuni okkar. Svo þurfum við að rísa undir ábyrgðinni og á það hef ég lagt þunga áherslu í sameiginlegri vinnu um málið. Það þarf að halda áætlun um kostnað og framvindu. Markmiðið er að bæta flæði samgangna um höfuðborgarsvæðið, styrkja innviðina okkar og leyfa íbúum að ákveða hvernig þeir komast á milli staða.

Ég notaði lítið breytta laglínu hans KK, úr laginu Bein leið hér í yfirskriftinni. Það er freistandi að álykta að hann hafi verið með hugann við hið mikilvæga verkefni að byggja upp samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu þegar hann orti í sama lagi: „Það kostar svita og blóð – að fara þessa slóð.“

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ

*fyrirsögnin er tilvitnun í frábært samnefnt lag KK.

Frá undirritun endunýjunar á samgöngusáttmálanum í síðustu viku

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar