Barnaskóli Hjallastefnunnar. Opið hús 7. mars.

Glöð börn, glaðir foreldrar, glaðir kennarar og góður námsárangur.
Barnaskóli Hjallastefnunnar hefur verið starfræktur á Vífilsstöðum frá því haustið 2003. Aðalsmerki skólans hefur verið frá upphafi að skapa jafnvægi á milli náms og leiks þar sem vellíðan hvers barns skiptir mestu máli. Við erum skóli jafnréttis, umburðarlyndis og höfum virðingu einstaklingsins í forgrunni. Við mætum hverju barni eins og það er og teljum okkur geta fylgt börnum sérstaklega vel eftir hvað varðar námslega og félagslega þætti.

Lovísa Lind skólastýra í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum

Í starfinu leggjum við ríka áherslu á að skapa skólaumhverfi sem einkennist af nálægð, trausti og kærleiksríkum samskiptum. Þetta læra börnin í daglegu amstri undir styrkri stjórn kennara sem leiðbeina börnum í jákvæðar áttir. Í Barnaskólanum höfum við náð góðum árangri í að fylgja þessum lykilþáttum eftir með námskrá þar sem einstaklings- og félagsþættir eru æfðir sérstaklega.
Í haust lögðum við af stað í fyrsta skipti í Barnaskólanum með heildstætt skólasamfélag fyrir börn frá 5 ára gömlum upp í 12 ára og þar með eru þrjú skólastig undir einum hatti. Því má með sanni má segja að hér hafi allt iðað af lífi og sál þar sem hver einasti gólfflötur hefur verið nýttur til hins ýtrasta.

Kynjanámskrá og aðalnámskrá
Skólinn starfar eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar sem byggir á jafnrétti stúlkna og drengja, þar sem báðum kynjum er gert jafnhátt undir höfði og menning beggja kynja er virt.
Aðalnámskrá grunnskóla og kynjanámskrá Hjallastefnunnar móta inntak allrar kennslu. Kennsluhættir Barnaskólans eru einstaklingsmiðaðir þar sem markmiðið er að hvert barn njóti sín á eigin forsendum og því bjóðist sá fjölbreytileiki sem æskilegur er í námsumhverfi barna. Við skiptum barnahópnum ekki í hefðbundna bekki heldur í stúlknakjarna og drengjakjarna. Takmarkaður fjöldi barna á hvern kennara gerir það að verkum að hvert barn fær þá athygli sem á þarf að halda hverju sinni.

Í fjögurra vikna lotum vinnum við með félags- og tilfinningaþroska jafnhliða því sem börnin læra að lesa, skrifa og reikna, eru í íþróttum, sundi, ensku og fleiru. Eftir hverja fjögurra vikna lotu kemur opin vika. Þá vinnum við í smiðjum og leggjum höfuðáherslu á list- og verkgreinar, skapandi starf og samvinnu.

Opinn efniviður og kennsla án hefðbundinna námsbóka fyrir hvern og einn nemanda eru einkennandi því kennarar skipuleggja kennslu og móta viðfangsefni með námsmarkmið barna að leiðarljósi. Mikið er unnið út frá hlutbundinni vinnu þar sem verkefni eru útfærð á lifandi og skemmtilegan hátt og ólíkar leiðir farnar í uppgötvunarnámi barna. Námið fer oft fram í stöðvavinnu og börn fá verkefni sem hæfa getu þeirra og áhuga. Þannig er reynt að mæta hverju barni þar sem það er statt og veita því tækifæri til að vinna sig í átt að námsmarkmiðum kjarnans.

Á Vífilsstaðatorfunni er umhverfið friðsælt, skólalóðin mjög stór en stutt er í berjabrekkur og inn í skóg. Skólinn opnar kl. 7.45 og eftir skóla er Frístund opin til kl. 16:30. Það er sívinsælt að “velja út” í Frístund en kennarar fara líka mikið út með kjarnahópana sína á skólatíma.

Miðstig skólans
Í haust var farið af stað með 7.bekk og með því er miðstig fullkomnað hér í skólanum. Á miðstigi hefur verið fjörugt starf og kennsla með hefðbundnu og óhefðbundnu sniði. Áhersla hefur verið lögð á samvinnu sem og fjölbreytt námsefni. Rithöfundurinn Gerður Kristný var gestakennari hér í viku og kenndi skapandi skrif, Guðrún Valdís tölvuhakkari var einnig gestakennari og fræddi börnin um ábyrga netnotkun, hegðun á samfélagsmiðlum og auðvitað sitt starf sem vakti mikinn áhuga. Börnin hafa fengið kennslu í forritun með Lego vélmennum, fjallað um heimspeki, geðheilbrigði og margt fleira. Farið var af stað í skemmtilegt samstarfsverkefni með Listasafni Reykjavíkur þar sem börnin bæðu heimsóttu safnið og fengu fyrirlestra um myndlæsi.

Fjörugt fimm ára starf
Við höfum frá árinu 2003 boðið upp á nám og kennslu fyrir fimm ára börn hér í Barnaskólanum og erum því komin með töluverða reynslu í því. Námsleiðirnar eru að mestu í gegnum leik, söng og hreyfingu.
Okkur hefur tekist einstaklega vel til með lestarkennslu okkar barna. Mörg af fimm ára börnunum okkar eru komin vel af stað í lestri þegar þau hefja grunnskólanám í sex ára kjarna. Góð samvinna milli fimm og sex ára kjarna gefur okkur tækifæri til að skipuleggja lestrarnámið á þeim hraða sem hentar þroska og þörfum hvers barns. Á fimm ára kjörnum skiptum við kennslunni upp í lotur í upphafi annar og kennum stærðfræði og lestur á víxl, sem blandast þó meira þegar á líður. Tilraunir og vettvangsferðir eru nú aðalmerki fimm ára starfsins því kennarar eru óþreytandi í að fara í ferðir með börnin sem geisla af áhuga þegar í hús er komið.

Sumarskólinn á sumrin
Við Barnaskólann er starfræktur sumarskóli yfir sumartímann þar sem gleði, öryggi og frelsi eru í forgrunni, og fjör og frumkvæði barna er sérstaklega eflt.
Veiðiferðir, hellaskoðun, bæjarferðir, kofabyggð, vatnafjör, sköpun og listkennsla eru lykilorð í starfi sumarskólans auk endalausra leikja í ósnortinni náttúru í nágrenni skólans. Börnin okkar finna til öryggis og festu þar sem öflugt starfsfólk sem hefur fengið góða leiðsögn í hjallískum starfsháttum, leiðir sumarskólastarfið.

Þjálfun í mannlegum eiginleikum
Við erum stolt og glöð yfir að geta boðið börnum upp á fjölbreytt skólastarf þar sem fyrst og fremst er hugað að velferð allra barna og þeim mætt á þeirra forsendum. Hjallískt skólasamfélag tryggir jafnrétti allra barna og veitir frelsi innan skýrra ramma og stöðugleika. Við lítum einnig jöfnum höndum á mikilvægi þess að þjálfa mannlega eiginleika og færni, þjálfa kjark, þjálfa jákvæðni, þjálfa samskipti, þjálfa vináttu og þjálfa kærleika líkt og leikni í bóknámsgreinum.

Velkomin til okkar
Opið hús verður mánudaginn 7. mars frá kl. 17 – 18 og þá bjóðum við alla velkomna sem vilja kynna sér skólastarf á 6 ára kjörnum, fyrir veturinn 2022-2023.

Velkomið er að hringja í síma 5557710 og panta annan tíma til heimsóknar og svo má senda okkur póst á [email protected]
Við tökum vel á móti ykkur.

Með góðri kveðju,
Lovísa Lind skólastýra

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar