Bættar almenningssamgöngur við Urriðaholt – loksins!

Í september 2019 lögðum við í Garðabæjarlistanum fram tillögu í bæjarstjórn um bættar almenningssamgöngur í Urriðaholti. Nú tveimur árum síðar hefur meirihlutinn látið undan afturhaldsemi sinni en ekki síður ákalli íbúanna sjálfra um aukna þjónustuþörf sem alla jafna sprettur upp með nýjum hverfum og fjölgun íbúa. Ekki síst þegar ráðist er í uppbyggingu fjölmenns hverfis í úthverfi sveitarfélags líkt og Urriðaholtið er skýrt dæmi um.

Almenningssamgöngur gegna öllu jafna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu hverfa og hafa meðal annars áhrif á val fólks um búsetu. því hefur það valdið nýjum íbúum miklum vonbrigðum hingað til hvernig almenningssamgöngum hefur verið háttað þar sem tenging Urriðaholts við aðra þjónustu hefur ekki verið í neinum takti við þörfina og uppbyggingu innviða. Til að mynda hafa grunnskólabörn á eldri stigum ekki getað sótt skóla innan hverfis og því verði þeim algjör nauðsyn að komast leiða sinna til þess að sækja skóla. 

Því var það mikið fagnaðarefni að gjörbreytt þjónusta Strætó við íbúa Urriðaholts var samþykkt í bæjarráði nýverið þar sem tíðni ferða er aukin stórkostlega og pöntunarkerfið svokallað gert víkjandi í þjónustunni.

Með tilkomu okkar bæjarfulltrúa í Garðabæjarlistanum erum við að ná fram breyttri sýn á mikilvægi almenningssamgöngna í stækkandi sveitarfélagi þar sem nú þykir meira en sjálfsagt að hafa val um annars konar lífsstíl en þann sem tilheyrir einkabílnum. 

Við erum að lifa miklar breytingar er varða vitund um mikilvægi umhverfisvitundar og meðvitundar okkar sem samfélags um mikilvægi þess að leita allra leiða til þess að vinna gegn loftslagsvánni og almenningssamgöngur er lykill í slíkri ákvarðanatöku íbúanna sem vilja og velja að leggja sitt að mörkum. 

Við sem leitumst eftir því að stýra málum ber einfaldlega að hlusta og greiða götur íbúanna samfélaginu til heilla.

Sara Dögg Svanhildardóttir
Oddviti Garðabæjarlistans

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar