Bæta vinnumhverfi barna og starfsfólks

Bæjarstjórn Garðabæjar tekur fyrir 15 tillögur að bættu starfsumhverfi leikskóla í dag, 16. nóvember. Tillögurnar voru kynntar í liðinni viku, en Garðapósturinn fjallaði um þær fyrir skemmstu áður en þær voru útfærðar að fullu.

Dvalartími styttur í 40 tíma og einn skipulagsdagur bætist við

Tillögurnar sem verða lagðar til samþykktar í bæjarstjórn síðar í dag fela meðal annars í sér að dvalartími verður styttur í 40 tíma, að einn skipulagsdagur bætist við í leikskólunum og að lokað verður í dymbilvikunni í leikskólum Garðabæjar en að samhliða komi inn sveigjanleiki fyrir foreldra sem geta þá stýrt dvalartíma barnanna betur en áður var hægt.

Gjaldskráin mun einnig taka mið af þessum breytingum með afslætti fyrir þau sem nýta styttri dvalartíma.

Leikskólarnir eru á tímamótum

Hér fyrir neðan má finna upplýsingar og svör um tillögurnar en Garðapósturinn náði tali af Margréti Bjarnadótt- ur sem er formaður leikskólanefndar Garðabæjar. „Við erum að stíga stór skref með það fyrir augum að bæta um- hverfi barna og starfsfólks,” segir Margrét. ,,Við erum með gott og sterkt faglegt leikskólaumhverfi hér í Garðabæ. En leikskólarnir eru á tímamótum og við þurfum að bregðast við. Garðabæjarleiðin er að gera það áður en komið er í óefni. Mönnun hefur gengið verr í haust en undanfarið, við foreldrar hér í bænum höfum orðið vör við það í flestum leikskólum,“ segir Margrét. „Með því að stytta dval- artímann þá erum við bæði að stytta daginn hjá börnum og auðvelda mönnun. Það verður til þess að við þurfum sjaldnar að grípa til fáliðunarreglu sem skerðir verulega þjónustu leikskólanna til íbúa.“

Kynningarfundir, samráð og sveigjanleiki

Margrét segir að samhliða þessu sé verið að bæta sveigjanleika foreldra varðandi dvalartíma, en gjaldskrá bæjarins mun einnig taka nokkrum breytingum. ,,Hún mun meðal annars veita afslátt af leik-skólagjöldum eftir fjölda vistunartíma undir 38 tímum. Hún verður endanlega útfærð samhliða fjárhagsáætlun þann 7. desember nk.”

Foreldrum og forráðafólki stendur til boða að mæta á kynningarfundi á föstudag og þriðjudag og svo er hægt að senda inn ábendingar í gegnum þjónustuvef Garðabæjar.

Margrét Bjarnadóttir formaður leikskólanefndar. Ljósmyndari : Aldís Pálsdóttir

Foreldrar geta skipulagt dvalartímann eftir því sem hentar fjölskyldunni best

Margrét segist vilja heyra í fólki, en mikið samráð hefur þegar átt sér stað í leikskólanefnd, meðal annars við foreldraráð og starfsfólk leikskólanna. „Við viljum gjarnan heyra frá vaktavinnufólki um hvernig þetta snertir þau til dæmis. Foreldrar geta skipulagt dvalartímann eftir því sem hentar fjölskyldunni best. Ef barnið þarf níu tíma dvalartíma á mánudegi, þá getur þriðjudagurinn til dæmis verið styttri og vikurnar gætu verið mismunandi til að bregðast við ólíkum vinnutíma. Svo biðjum við fólk að skrá börnin sérstaklega á eftirmiðdögum á föstudögum en þá sýnir reynslan okkur að fólk er oft að sækja börnin fyrr,“ segir Margrét.

Ætlum þessum breytingum að laða að gott starfsfólk

Hún boðar einnig að átak verði gert í því að ráða starfsfólk. „Við státum okkur sannarlega af sterkum mannauði á leikskólum Garðabæjar, en til að draga úr álagi þurfum við að fullmanna leikskólana. Við ætlum því þessum breytingum að laða að gott starfsfólk sem er tilbúið að styðja við okkar góða hóp og halda áfram að reka framúrskarandi leikskólastarf.“

Spurt og svarað um leikskólabreytingar

Tillögurnar eru í heildina fimmtán og verða innleiddar í tveimur fösum. Þær eru eftirfarandi:

· Leikskólar í Garðabæ verði opnir á mánudegi til fimmtudags frá 07.30-16.30 en á föstudögum frá 07.30- 16.00.
· Í leikskólum í Garðabæ verði boðið upp á sveigjanlegan vistunartíma barna, að lágmarki 20 tímar og að hámarki 40 tímar á viku.
· Í leikskólum í Garðabæ verði boðið upp á aukinn sveigjanleika fyrir foreldra og börn með því að taka fleiri vikur í frí á ársgrundvelli
· Leikskólar í Garðabæ verði lokaðir í dymbilvikunni
· Leikskólagjöld í leikskólum í Garðabæ falli niður í vetrarfríi og milli jóla- og nýárs ef börn eru ekki skráð í vistun
· Skipulagsdögum í leikskólum í Garðabæ verði fjölgað frá fjórum í fimm
· Í leikskólum í Garðabæ verði starfsfólki í leikskólum með lögheimili í Garðabæ boðinn forgangur að ákveðnum fjölda leikskólaplássa
· Í leikskólum Garðabæjar verði starfsfólk leikskóla með lögheimili í Garðabæ boðinn afsláttur af leikskólagjöldum
· Í leikskólum í Garðabæ verði hverri deild tryggður sami undirbúningstími
· Í leikskólum í Garðabæ verði efld fræðsla og endurmenntun fyrir starfsfólk
· Í leikskólum í Garðabæ verði sett upp heildstæð áætlun til að takast á við mikla fjarveru og kostnað vegna veikinda starfsfólks
· Í leikskólum í Garðabæ verði skilgreind fleiri starfsheiti
· Í skóla- og frístundastarfi í Garðabæ verði eitt samræmt starfsheiti fyrir starfsfólk í leikskóla, grunnskóla og á frístundaheimilum
· Í leikskólum í Garðabæ verður viðmiðunum um grunnmönnun breytt í elstu hópunum
· Í leikskólum í Garðabæ verði skoðað starfsumhverfi leikskóla hvað varðar fjölda fermetra í leikrými barna inni og úti, aðstöðu starfsfólks og önnur rými.

Hvað þýðir sveigjanlegur dvalartími?
Leikskólar Garðabæjar eru opnir frá 07.30-16.30 fjóra daga vikunnar en til kl. 16.00 á föstudögum.• Lágmarksdvalarlengd barns er 20 klst á viku.

• Hámarksdvalarlengd er 40 klst á viku, eða um það bil 160 klukkutímar á mánuði.

• Dvalartími er getur verið breytilegur milli daga og innan vikunnar. Skrá þarf dvalartíma eða breytingu á honum fyrir hvers mánaðar.

• Fyrir 20. hvers mánaðar þarf að skrá barn sérstaklega ef nýta á dvalartímann milli 14-16 á föstudögum.

Dæmi:
• Ef barn dvelur 37 klst. í leikskóla þá getur skráningin verið 7 tímar á mánudögum, 8 tímar á þriðjudögum. 8 tímar á miðvikudögum, 8 tímar á fimmtudögum og 6 tímar á föstudögum.
• Ef barn dvelur 38 klst. á viku í leikskóla þá getur skráningin verið 8 tímar fyrir fjóra daga og 6 tímar fyrir einn dag.
• Ef barn dvelur 38 klst. á viku í leikskóla þá getur skráningin verið 8 tímar fyrir 2 daga, 9 tímar fyrir tvo daga og 4 tímar fyrir einn dag.
• Ef barn dvelur 40 klst. á viku í leikskóla getur skráning verið 9 klukkustundir fyrir fjóra daga og fjórir tímar fimmta dag vikunnar.

Hvers vegna er verið að stytta dvalartímann? Garðabær er barnvænt samfélag og stytting á opnunartíma leikskóla mun bæta þjónustu við flest börn sem dvelja í leikskólum þar sem mönnun verður auðveldari og minni líkur eru á að grípa verði til fáliðunarreglu sem skerðir þjónustu leikskóla.

Verð ég að taka sex vikur í frí? Nei, en auk þeirra fjögurra vikna sem taka skal yfir sumarmánuðina (júní – ágúst) bætast við tvær valfrjálsar vikur (5/10 dagar) sem hægt er að taka á hvaða tíma sem er á árinu.
Fjölskyldur fara saman í frí á öllum tímum ársins og því er það fjölskylduvænt að auka sveigjanleika á vistunartíma barna í leikskóla með möguleikum á auknu fríi. Líkt og í sumarleyfisvikum verða leikskólagjöld felld niður þessar 1-2 vikur kjósi foreldrar að nýta þær.

Hvers vegna er skipulagsdögum fjölgað? Með fjölgun skipulagsdaga er verið að gefa enn frekari svigrúm til þróunar á innra mati, gerð starfsáætlana og skólanámskráa. Með því að bæta við einum starfsdegi dregur úr fundartímum starfsfólks eftir að leikskólar loka. Allir skipulagsdagar leikskóla eru á sama tíma og skipulagsdagar í grunnskólum og svo verður áfram.

Hvers vegna verður veittur afsláttur og forgangur til starfsfólks? Afsláttur af leikskólagjöldum er hvati fyrir fólk til að starfa í heimabyggð og gæti aukið stöðugleikann við mönnum leikskóla. Skilyrði fyrir forgangi yrði að viðkomandi starfsmaður sé hæfur, sé ráðinn að minnsta kosti til árs og ráðningarhlutfall þarf að vera 70-100%

Hvernig breytist gjaldskráin? Gjaldskrá bæjarins fyrir leikskóladvöl mun einnig taka breytingum og Garðabær vinnur nú að nýrri fjárhagsáætlun og verður hún kynnt endanlega 7. desember nk.

Fyrir liggur að:

• Leikskólinn verður ekki gjaldfrjáls og fæðisgjöld greiðast áfram.
• Búast má við því að verulegur afsláttur verði veittur af dvalartímum frá 37 tímum á viku og allt niður í 20 tíma.
• Áfram verður veittur systkinaafsláttur og tekjutengdur afsláttur til foreldra.

Ítarlegra spurt og svarað má finna á vef Garðabæjar, bæði á íslensku og á ensku. www.gardabaer.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar