Bæjar(búa)fulltrúinn

Eflaust finnst mörgum við frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins því sem næst athyglissjúk. Hættum ekki að skrifa greinar, halda fundi, hringja í bæjarbúa og vekja athygli á okkur og stefnumálum okkar. Hér ætla ég að reyna í örfáum orðum að sannfæra þig, kæri lesandi, um að þetta sé í raun allt gert vegna þinnar framtíðar.

Sækist eftir 5. sæti

Ég býð mig fram í 5. sæti í prófkjörinu – já ég óska eftir fimmu frá þér.
Prófkjörið á laugardaginn og veitarstjórnakosningarnar í maí eru tækifæri fyrir þig til að hafa áhrif á þróun mála í Garðbæ til framtíðar. Við eigum að láta okkur miklu varða hvernig bænum er stjórnað og hvaða áherslur og stefnumál ráða för og nýta kosningaréttinn okkar.

Horfum til framtíðar

Þessi misserin er bærinn okkar að stækka hratt og laða að sér Garðbæinga framtíðarinnar. Á slíkum tímum skiptir öllu máli horfa fram í tímann, hugsa stórt og taka réttar ákvarðanir. Ákvarðanir sem móta framtíð okkar í Garðabæ.
Með þátttöku í prófkjörinu 5. mars og svo með atkvæði þínu í vor getur þú haft heilmikil áhrif á þína framtíð í því samfélagi sem Garðabær er og verður á komandi árum. Við ætlum saman að gera bæinn okkar enn betri.

Þín framtíð

Með því að sækjast eftir 5. sætinu 5. mars (auðvelt að muna) er ég að lýsa því yfir að ég treysti mér til að taka sæti sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn.Ég treysti mér í það verkefni og það væri sannur heiður, því hér hef ég vaxið úr grasi, setið öll skólastig og nú stofnað litla fjölskyldu í Sjálandshverfinu.
Mér þykir vænt um Garðabæ og mig langar til þess að taka þátt í því að betrumbæta hann.
Sem bæjarfulltrúi mun ég leggja áherslu á það sem er eftir allt kjarni starfsins; að vera bæjarbúafulltrúi. Heitið bæjarfulltrúi nær ekki að fullu að grípa mig, því verkefnið snýst fyrst og fremst um bæjarbúana. Það er þess vegna sem framboð mitt er í raun um þína framtíð. 

Tölum saman

Síðustu vikur hef ég lagt mig fram um að ná til ykkar sem flestra samhliða námi, uppeldi og rekstri heimilisins og hvet alla til þátttöku í prófkjörinu á laugardaginn. Hægt er að senda mér skilaboð á samfélagsmiðlum, en þið getið sömuleiðis ávallt náð í mig með skilaboðum á heimasíðunni minni eða með því að hringja einfaldlega í síma 8683277.

Ég legg áherslu á fjölskyldumál og framúrskarandi þjónustu í Garðabæ. Það verður krefjandi að mæta væntingum um hátt þjónustustig í ört vaxandi bæjarfélagi næstu árin, en þá skiptir máli horfa til framtíðar, að forgangsraða rétt og að ætla sér ekki um of. Framúrskarandi leikskólar, öflugt íþrótta- og tómstundastarf, vinalegt samfélag fyrir fólk á öllum aldri og fjölbreytt framboð af húsnæði. Þetta eru málin sem ég mun berjast fyrir. Þessu þarf að fylgja fyrirhyggja og varfærni í fjármálum svo hámarksárangri til lengri tíma verði náð.

Hvert atkvæði skiptir máli. Tökum öll þátt í prófkjörinu og tryggjum góða kosningu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor.

Margrét Bjarnadóttir. Gefur kost á sér í 5.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar