Austurálmu Hofsstaðaskóla lokað það sem eftir lifir skólaárs

Verkfræðistofan Mannvit hefur skilað niðurstöðum úr flestum sýnum vegna rakaskemmda i Hofsstaðaskóla.

Niðurstöðurnar benda til þess að loka þarf stofu 104 og skrifstofu námsráðgjafa. Tekin hefur verið ákvörðun um að loka austurálmu skólans (báðar hæðir) það sem eftir lifir skólaárs og ráðast strax í umfangsmiklar framkvæmdir til að bregðast við rakaskemmdum bæði þar sem vísbendingar eru um myglu og þar sem hún hefur ekki greinst. Þetta eru fyrirbyggjandi mótvægisaðgerðir, sem eiga að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks. Stefnt er að allar skólastofur í vesturálmu verði nothæfar fljótlega eftir vetrarleyfi.

Skólinn lokaður í dag, 10. febrúar

Til að hægt sé að ráðast í framkvæmdir eins fljótt og auðið er og nýta vetrarleyfið að fullu verður ekki kennsla í skólanum í dag, föstudaginn 10. febrúar.

Fundur með forráðamönnum 21. febrúar

Boðað er til opins fundar með forráðamönnum þriðjudaginn 21. febrúar klukkan 17:00 í Sveinatungu og verður honum jafnframt streymt í gegnum netið.

Forráðamenn hafa fengið sendan upplýsingapóst vegna málsins þar sem fram koma nánari ráðstafanir vegna skólastarfsins.

Húsgögn og gögn verða þrifin á næstu dögum, en Garðabær vinnur samkvæmt ákveðnu verklagi og fylgir ráðleggingum Mannvits. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar