Aukin áhersla á samspil atvinnustarfsemi og íbúabyggðar við mótun tillagna í Rjúpnadal

Skipulagsnefnd Garðabæjar samþykkti á dögunum að leggja fram verkefnislýsingar fyrir breytingar á bæði svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins –Höfuðborgarsvæðið 2040– og aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030. Breytingarnar varða annars vegar tilfærslu á vaxtarmörkum byggðar og hins vegar nýtt athafnasvæði í Rjúpnahlíð og Rjúpnadal.

Í tillögunum felst meðal annars að vaxtarmörk byggðar í Vífilsstaðalandi verði dregin um Elliðavatnsveg, frá Vífilsstöðum að hesthúsabyggðinni á Kjóavöllum. Með því færist öll hesthúsabyggðin innan vaxtarmarka, sem tryggir betri tengingu og skipulagssamræmi í framtíðinni.

Jafnframt er gert ráð fyrir að nýtt athafnasvæði rísi í Rjúpnahlíð og Rjúpnadal, austan við fyrirhugaðan kirkjugarð. Í tengslum við þá breytingu hafa verið gerðar breytingar á lýsingarskýrslum – þar sem sérstök áhersla er lögð á að við mótun skipulagstillagna verði tekið tillit til nálægðar athafnasvæðis við íbúðabyggð.
Skipulagsnefnd samþykkti framlagðar verkefnislýsingar og verður málið sent svæðisskipulagsnefnd og þeim sveitarfélögum sem aðild eiga að svæðisskipulaginu til samþykktar.

Garðapósturinn hafði samband við Björgu Fenger, formann skipulagsnefndar Garðabæjar og spurði af hverju ákveðið var að leggja aukna áherslu á grenndaráhrif fyrirhugaðs athafnasvæðis við íbúðarbyggð í nýju lýsingarskýrslunum – í hverju felast breytingarnar og hvernig uppbyggingu vill Garðabær sjá á svæðinu? ,,Þegar fyrri skipulagslýsingar fyrir sama svæði voru kynntar árið 2022 varð töluverð umræða um svæðið og þá starfsemi sem þar væri hugsuð,“ segir Björg. „Sú umræða byggðist á ákveðnum misskilningi enda átti eftir að þróa og varpa skýrara ljósi á hugmyndina fyrir skipulagssvæðið í bæði aðal- og deiliskipulagsvinnunni sem boðuð var í framhaldinu. Það er í eðli svona verkefna að fyrstu „drög“ ef svo má segja taka talsverðum breytingum. Skipulagsnefnd Garðabæjar ákvað að taka skipulagslýsingarnar fyrir að nýju með það að markmiði að horfa sérstaklega á grenndaráhrif fyrirhugaðs athafnasvæðis við íbúðarbyggðina á þessu svæði eins og á öðrum svæðum í Garðabæ þar sem slík svæði eru í nálægð við hvort annað.“

Rjúpnadalur! ,,Það er mikilvægt að það komi fram að ekki er gert ráð fyrir starfsemi á svæðinu sem getur haft neikvæð áhrif á umhverfi sitt s.s. með hávaða, lykt, ryki, óþrifnaði eða óeðlilega mikilli umferð. Þessi svæði eiga að falla vel að hvoru öðru,“ segir Björg.

Björg segir að athafnasvæðið verði nýtt undir fjölbreytta starfsemi sem falli að nærliggjandi byggð og gert er ráð fyrir grænu svæði sem aðskilji hverfin tvö. „Áformin lúta að því að fyrirhugað athafnasvæðið í Rjúpnahlíð muni nýtast undir fjölbreytta starfsemi svo sem iðnfyrirtæki eða plássfreka þjónustu og stofnanir. Lögð verður áhersla á fallega bæjarmynd sem fellur vel að nærliggjandi byggð en í lýsingunni er nú gert ráð fyrir um 60 m breiðu opnu svæði milli sveitarfélagamarka og nýrra landnotkunarreita.

Það er til skoðunar að á svæðinu verði að finna grænan iðngarð (EIP, eco-industrial park) þar sem leitast verði við að ná fram umhverfislegum, efnahagslegum og félagslegum ávinningi með samstarfi um stjórn umhverfis- og auðlindamála og hringrásarhagkerfi. Það er mikilvægt að það komi fram að ekki er gert ráð fyrir starfsemi á svæðinu sem getur haft neikvæð áhrif á umhverfi sitt s.s. með hávaða, lykt, ryki, óþrifnaði eða óeðlilega mikilli umferð. Þessi svæði eiga að falla vel að hvoru öðru,“ segir Björg

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins