Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari nýliða Álftaness hefur farið vel af stað með liðið í Subway-deildinni í vetur. Hann þekkir vel til körfunnar bæði á Álftanesi, þar sem hann ólst upp, sem og í Garðabæ þar sem hann hefur bæði leikið með Stjörnunni og þjálfað yngri flokka félagsins í fjölda ára.
Garðapósturinn heyrði í Kjartani vegna stórleiksins á móti Stjörnunni í Sub-waydeildinni á morgun, föstudag í Ásgarði og byrjaði á því að spyrja hvort hann sé sáttur með leik Álftaness sem af er tímabilinu? ,,Við erum sáttir með sumt og ósáttir við annað. Frammistaðan hefur heilt yfir verið góð en við sjáum líka rúm til bætinga á ýmsum sviðum og höldum áfram að vinna í því,” segir Kjartan Atli.
Við höfum ekki komið okkur á óvart
Hafið þið komið sjálfum ykkur á óvart sem af er eða bara á pari við það sem þið lögðuð upp með fyrir mót? ,,Nei, við höfum ekki komið okkur á óvart. Við fundum það þegar hópurinn kom saman síðla sumars að við værum með samkeppnishæft lið. Það sem hefur kannski komið manni mest á óvart er hversu jöfn deildin er, þetta er örugglega jafnasta deildarkeppni í nokkurri íþróttagrein í álfunni.”
Það skipta að sjálfsögðu allir leikir máli í deildinni, en leikurinn á móti Stjörnunni verður með öðrum undir- tóni enda nágrannaslagur af bestu gerð – í fyrsta skipti sem liðin mætast í efstu deild – spenntur fyrir þessum leik? ,,Í sumar fór ég nánast daglega í sund í Ásgarði og strax þá fann maður fyrir áhuga á þessum leik. Þá fann maður að það ríkir eftirvænting í bænum. Enda geta Garðbæingar verið stoltir að eiga tvö lið í efstu deild í jafn vinsælli íþrótt og körfuboltinn er.”
Stjarnan hefur verið að spila besta körfuboltann í dágóðan tíma
Stjarnan verið að spila besta körfuboltann í deildinni Stjörnuliðið býr yfir mikilli reynslu af efstu deild – hvernig finnst þér þeir hafa leikið sem af er tímabili – eitthvað komið á óvart í þeirra leik? ,,Að mínu
mati hefur Stjarnan verið að spila besta körfuboltann í deildinni í dágóðan tíma núna. Í raun hefur ekki mikið komið á óvart í leik liðsins. Maður sá strax í haust að þetta væri gott lið, vel mannað og vel þjálfað. James Ellisor hefur aðlagast leik liðsins fljótt og vel. Síðan hann kom og hluti hópsins kom aftur úr meiðslum hefur liðið litið virkilega vel út. Ég hef hrifist mjög af Tómasi Þórði Hilmarssyni að undanförnu, gaman að sjá Tomma spila vel. Við þekkjumst vel úr yngri flokkunum, en ég þjálfaði hann í þó nokkur ár.”
Kjartan hefur þjálfaði hjá Stjörnunni í 17 ár og þekkir því vel til í Garðabænum. Hér er hann með drengina í 9. flokki keppnistímabilið 2009-2010, en á myndinni eru m.a. Tómas Þórður Hilmarsson (nr. 23) og Dagur Kár Jónsson (nr. 3) sem leika með meistaraflokki Stjörnunnar í dag og mæta þar af leiðandi sínum gamla þjálfara.
Leikstíll liðanna ekki líkur, hvorki í vörn né sókn
Út frá stigum og stigaskori liðanna mætti segja að þetta væri mjög áþekk lið, bæði lið með 10 stig og markatalan áþekk, en þetta er tvö bestu varnarlið deildarinnar, hafa fengið á sig fæstu stiginn í deildinni, Álftanes 626 stig og og Stjarnan 659 stig. Er leikstíll þessara liða mjög svipaður og áttu von á lokuðum leik þar sem varnarleikurinn verður í fyrirrúmi? ,,Bæði lið leggja mikið upp úr varnarleik en ég get ekki sagt að leikstíllinn sé svipaður, hvort sem það er í vörn eða sókn. Hvort leikurinn verði lokaður veit ég ekki, það veltur svolítið á því hversu vel menn hitta! Bæði lið munu leggja sig fram í vörn, svo mikið er víst.”
Ég veit að þetta er klisja
Hvað er það sem mun ráða úrslitum í þessum leik – Ertu með einhver tromp á hendi fyrir leikinn? ,,Sambland af mörgum þáttum mun ráða úrslitum. Ég veit að þetta er klisja, en liðið sem mun framkvæma betur og komast betur inn í sínar helstu aðgerðir á báðum endum mun vinna leikinn. Með trompin er erfitt að segja.”
Ægir Þór búinn að vera frábær
Eru einhverjir sérstakir leikmenn í Stjörnunni sem þú þarft að leggja áherslu að loka á – hver er styrkleiki þeirra? ,,Ægir Þór Steinarsson er búinn að vera frábær það sem af er, allir sjá að hann er mikilvægur póstur í öllu sem Stjarnan gerir. Antti Kanervo skiptir grundvallaratriði fyrir Stjörnuna og svo eru þarna margir frábærir leikmenn sem þarf að passa. Breidd Stjörnunnar er virkilega flott.”
En þekkir þú ekki leikaðferðir Arnars þjálfari Stjörnunnar nokkuð vel – verður þetta ekki bara auðlesinn leikur fyrir ykkur? ,,Heldur betur, getum sleppt því að spila þennan leik! Nei, að öllu gamni slepptu þá er taktísk nálgun Stjörnuliðsins mjög góð, mikil breidd í aðgerðum og erfitt að kortleggja liðið, enda eru Arnar og Ingi Þór Steinarsson frábært þjálfarateymi. Verður gaman að mæta þeim,” segir hann.
Er í fyrsta skipti á útivelli í Ásgarði
Þið eruð að leika á útivelli, í Umhyggjuhöllinni í Ásgarði. En er þetta nokkuð útileikur fyrir þig þar sem þú þekkir Ásgarð eins og lófann á þér enda bæði leikið með Stjörnunni og þjálfað þar bæði meistaraflokk og yngri flokka í mörg ár – skiptir miklu máli hvort leikið er á heimavelli eða útivelli? ,,Ef maður ætlaði í klisjurnar myndi maður segja að þetta væri bara eins og hver annar leikur. En svo ég tali af hreinskilni, fyrir mig persónulega, þá verður þetta áhugavert. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er á útivelli í Ásgarði en heimaleikirnir eru mældir í nokkrum hundruðum, jafnvel í enn stærri tölum,” segir hann brosandi og bætir við: ,,Þú spyrð líka um mikilvægi heimavallarins, einhverjar mælingar hafa sýnt að heimavöllurinn skipti minna máli en áður. En tilfinning mín, bara þetta tímabil, er að lið hafi “varið” heimavöllinn vel.”
Þessir grannaslagir eru verkefni í mótun
Og þessi leikur snýst náttúrulega um svo mikið meira en stigin tvö sem eru í boði, er ekki montrétturinn í Garðabæ undir? ,,Þessir grannaslagir eru verkefni í mótun. Það kemur allt í ljós hvað er undir. Ég vona bara að fólk fjölmenni í Umhyggjuhöllina og njóti góðrar kvöldstundar. Þetta er söguleg stund fyrir bæjarfélagið og ég veit að Álftnesingar hlakka mikið til,” segir Kjartan Atli að lokum.