Ásta Kristinsdóttir og Ægir Þór eru íþróttafólks ársins 2024 í Garðabæ

Íþróttakona ársins 2024 í Garðabæ er Ásta Kristinsdóttir, fimleikakona Stjörnunnar. Íþróttakarl ársins 2024 í Garðabæ er Ægir Þór Steinarsson körfuboltamaður Stjörnunnar. Tilkynnt var um valið á íþróttafólki ársins við hátíðlega athöfn á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram í gær, sunnudaginn 12. janúar, í Miðgarði.

Umsögn um Ástu:

Ásta Kristinsdóttir hefur verið í lykilhlutverki í meistaraflokki í Stjörnunnar sem varð bikar- og Íslandsmeistari á árinu 2024. Hún keppir þar með hæstan erfiðleika í stökkum sem sést á íslenskum mótum í öllum umferðum sem hún framkvæmir. Ásta hlaut einnig Evrópumeistaratitil með landsliði kvenna í fullorðins flokki í október 2024. Var þetta annar Evrópumeistaratitillinn hennar í fullorðins flokki.

Auk þess var Ásta valin í lið besta fimleikafólks mótsins (All Star) fyrir frammistöðu sína á dýnu. Það þýðir að hún framkvæmdi umferðir með hæstan erfiðleikastuðul og bestu framkvæmdina á öllu mótinu. Ásta keppti með þrefalt heljarstökk á íslenska keppnistímabilinu sem er mjög sjaldgæf sjón hjá konum í fimleikum, ásamt því þá keppti hún fyrst kvenna á Íslandi með framseríu sem endar á tvöföldu heljarstökki með hálfum snúningi á Evrópumótinu. Ásta vann einstaklings sigur í FACEOFF fimleikakeppninni í fjórða sinn.

Umsögn um Ægi:

Ægir Þór er fyrirliði meistaraflokksliðs Stjörnunnar sem er í toppbaráttu Bónusdeildarinnar í körfubolta karla. Ægir er að spila sitt fimmta tímabil fyrir Stjörnuna, hann lék hér á árunum 2019-2021 og aftur frá 2023-2025 en í millitíðinni fór hann í atvinnumennsku til Spánar. Það sem af er tímabili er Ægir stoðsendingahæstur af öllum í deildinni,  í þriðja sæti yfir stolna bolta ásamt því að vera með tæp 17 stig í leik.  Af heildarframlagi leikmanna í deildinni er Ægir í sjötta sæti, langhæstur Íslendinga. Framlag Ægis er þó langt í frá að vera mælt eingöngu í tölfræði enda algjör drifkraftur í leikjum Stjörnunnar á báðum endum vallarins sem drífur bæði liðið og áhorfendur með sér.

ÍÆgir Þór er landsliðsfyrirliði. Árangur landsliðsins undir forystu Ægis hefur verið frábær þar sem sigur á Ungverjum og frækinn útisigur á Ítalíu standa upp úr. Íslenska landsliðið er sem stendur í frábærri stöðu til að tryggja sig inn á lokakeppni Evrópumótsins næsta sumar. Ægir Þór er einnig þjálfari hjá Stjörnunni. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar