Ársreikningurinn fyrir árið 2022 samþykktur samhljóða í bæjarstjórn

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri fór yfir helstu niðurstöður ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2022 á síðasta fundi bæjarstjórnar og var hann samþykktur samhljóða.

Eftir að Almar hafði klárað sitt mál lögðu þrír bæjarfulltrúar fram bókun á fundinum varðandi ársreikning ársins 2022.

Óveruleg hækkun útsvarsprósentu myndi gjörbreyta stöðu bæjarsjóðs, án mikilla áhrifa á bæjarbúa

Sara Dögg Svanhildardóttir

Sara Dögg Svanhildardóttir, hjá Viðreisn lagði fram eftirfarandi bókun. „Sjálfbær og ábyrgur rekstur er undirstaða þess að geta boðið upp á framúrskarandi þjónustu við íbúa og það viljum við í Viðreisn gera.

Jákvæð niðurstaða í rekstri bæjarsjóðs, sem við sjáum birtast í ársreikningi fyrir árið 2022 byggir fyrst og fremst á umtalsverðum tekjum af lóðasölu. Slíkar einskiptisgreiðslur geta ekki verið grundvöllur sjálfbærs reksturs.
Viðreisn í Garðabæ telur brýnt að rýna þurfi í rekstur og framkvæma að fullu hag- ræðingartillögur Haraldar Líndals frá árinu 2019 til að ná fram hagræðingu og að endurskoða tekjuöflun sveitarfélagsins til þess að bæjarsjóður Garðabær standi raunverulega undir merkjum sjálfbærs reksturs. Óveruleg hækkun útsvarsprósentu myndi gjörbreyta stöðu bæjarsjóðs, án mikilla áhrifa á bæjarbúa. Fyrir liggja, enn fremur, tillögur um breytingu á Jöfnunarsjóði, sem ef fram ná að ganga, munu hafa veruleg áhrif á rekstrarreikning bæjarsjóðs.

Mikil uppbygging á sér stað í Garðabæ sem getur tímabundið aukið verulega tekjur sveitarfélagsins og styrkt tekju-grunn þess til framtíðar. Ábyrgt væri að nýta einskiptisgreiðslur við lóðasölu til niðurgreiðslu skulda, uppbyggingu vara- sjóðs og að einhverju leyti til fjárfestinga í Garðabæ. Þetta eru ekki tekjur sem á að grípa til við rekstur grunnstoða og daglegs reksturs. Til þess eru þær of óstöðugar til lengri tíma og óáreiðanlegar.
Viðreisn vill gjarnan taka þátt í nauðsynlegri hugmyndavinnu um hvernig sé hægt að hverfa frá því að treysta á einskiptis- tekjur til að halda uppi grunnrekstri Garðabæjar.“

Markmiðið að halda gjöldum á íbúa eins lágum og kostur er, en einnig að tryggja góða þjónustu við íbúa og byggja upp innviði

Ingvar Arnarson

Ingvar Arnarson, hjá Garðabæjarlistanum lagði fram eftirfarandi bókun. „Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans þakka starfsfólki fyrir vinnu við ársreikning. Það er ánægjuefni að skatttekjur á hvern íbúa voru hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þar var gert ráð fyrir 910 þúsund kr. á íbúa en í raun komu inn 929 þúsund kr. á íbúa. Þá er einnig jákvætt að sala á lóðum/byggingarrétti var töluverð sem gerir það að verkum að tekjur bæjarins hafa aukist um 3,6 milljarð króna á árinu 2022. Ánægjulegt er að sjá mikla fjölgun íbúa í Garðabæ, en frá árinu 2017 hefur fjölgað um 3200 íbúa.

Líkt og við höfum bent á undanfarin ár höfum við þó áhyggjur af nokkrum þáttum. Aukin verðbólga er áhyggjuefni, sérstaklega þar sem að verðtryggðar skuldir bæjarsjóðs hafa aukist töluvert síðustu ár. Árið 2017 voru þær 751 þúsund kr. en eru í dag orðnar 1528 þúsund kr. á hvern íbúa. Að auki eru fjármagnsgjöld mjög há eða 1.739 milljónir árið 2022. Mikilvægt er að hafa í huga að Garðabær hefur staðið í miklum framkvæmdum á þessu tímabili og hafa eignir bæjarins þ.a.l. aukist töluvert.

Sala á byggingarrétt skilaði bænum 3.665 milljónum í tekjur. Lóðir eru takmörkuð auðlind og ekki hægt að gera ráð fyrir að tekjur af slíkri sölu verði stöðugar til framtíðar, sérstaklega ef verðbólga helst há og kaupmáttur rýrnar. Framundan eru framkvæmdir vegna löngu tímabærs viðhalds á eignum og fjárfestingar í innviðum sem eru nauðsynlegir til að veita bæjarbúum viðeigandi þjónustu. Til að standa undir þeirri fjárfestingu er mikilvægt að fara varlega í næstu skref. Að okkar mati er ekki skynsamlegt að auka mikið við skuldir á næstu árum og því nauðsynlegt að meta hversu miklu er hægt að ná inn með sölu lóða/byggingaréttar og í framhaldinu skoða hvort sú upphæð dugi til að standa undir þeim framtíðarfjárfestingum sem eru nauðsynlegar til að halda í við íbúaþróun Garðabæjar.

Markmið okkar í Garðabæjarlistanum er að halda gjöldum á íbúa eins lágum og kostur er, en einnig að tryggja góða þjónustu við íbúa og byggja upp innviði í takt við íbúaþróun. Til þess að það sé hægt þarf fjárhagsstaða Garðabæjar að vera sterk.“

Sjaldan verið mikilvægara að ábyrg fjármálastjórn ríki í sveitarfélaginu og að íbúar búi að ráðdeild í rekstri bæjarsjóðs

Björg Fenger

Björg Fenger frá Sjálfstæðisflokknum og formaður bæjarráðs lagði fram eftirfarandi bókun. „Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2022 endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu og staðfestir lágt skuldahlutfall í samanburði við flest önnur sveitarfélög. Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð og sjóðstreymið sterkt.

Það er mikilvægt að tekjur af sölu bygg- ingarréttar eru nýttar til framkvæmda og uppbyggingar innviða. Uppbygging íbúðarsvæða er í fullum gangi og mikil þörf verður á áframhaldandi fjárfestingum í innviðum bæjarins á næstu árum.

Um þessar mundir eru ýmsar áskoranir í rekstri sveitarfélaga. Viðvarandi verðbólga og mikil hækkun vaxta hafa neikvæð áhrif á rekstrarkostnað og fjármagnsgjöld sveitarfélaganna og vanfjármögnun ríkisins á þeim mikilvæga og vaxandi málaflokki sem málefni fatlaðs fólks er, þyngir rekstur sveitarfélaganna verulega.

Við núverandi aðstæður hefur því sjaldan verið mikilvægara að ábyrg fjármálastjórn ríki í sveitarfélaginu og að íbúar búi að ráðdeild í rekstri bæjarsjóðs. Á sama tíma þarf þjónusta við íbúa að vera góð eins og staðfest hefur verið í könnunum og álögum á íbúa stillt í hóf.

Um þessa mikilvægu hagsmuni bæjarbúa vilja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa vörð um hér eftir sem hingað til.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar