Arnarlandið – Eru Garðbæingar að eignast “Höfðatorg” Garðabæjar?

Tillögur þær sem kynntar hafa verið af núverandi meirihluta Garðabæjar um uppbyggingu Arnarlandsins falla í grýttan jarðveg hjá þeim íbúum Garðabæjar og Kópavogs sem eiga lágreist hús í nágrenni við umrætt nýbyggingarsvæði. Ástæðan er augljós. Mikið byggingarmagn af háreistum húsum á tiltölulega smáum byggingarreit. Eigendum á Akralandssvæðinu og Arnarnesi hafa hingað til verið settar strangar reglur um hæðartakmörk á húsum sínum þegar þau voru byggð. Eigendur hafa sýnt slíkum reglum skilning um að það þurfi að gæta að nágrönnum til að takmarka ekki útsýni og sól af of háum húsum. Sú hugsun virðis vera víðsfjarri núverandi bæjarstjórn Garðabæjar þegar núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokksins hefur yfirgefið fyrri sjónarmið að Garðabær skuli vera bæjafélag þar sem byggingamagn skuli vera í anda lágreistrar byggðar sem ekki skyggi sól eða útsýni annarra íbúa sem fyrir eru. Þetta er gert í blóra við núverandi aðalskipulag sem gildir til 2030. Grein 3.1.2 í aðalskipulagi hljóðar svo: Ný byggð skal vera frekar lágreist. Í blandaðri byggð er miðað við að hús verði almennt ekki hærri en þrjár til fjórar hæðir. Einstök frávik frá meginreglu koma til greina og skulu rökstudd með vísun í bæjarmynd, landslag, hagkvæmni og umhverfismál. Frávik frá meginreglu skulu tilgreind í skipulagsákvæðum viðkomandi reita (tilvitnun lýkur).

Gísli Vilhjálmsson

Tillagan gerir ráð fyrir að háreistu atvinnuhúsnæði upp á 9 hæðir sem mun örugglega mynda vindgöng og auka umferðamagn stóran hluta dagsins og að íbúar sitji fastir í bílum sínum í biðröð til þess að komast í hverfin í kringum Arnarlandið.Það hefur ætið verið stefna fyrri stjórnenda Garðabæjar að halda í yfirbragð lágreistrar byggðar sem minnir á bæjarfélag en ekki borgarsamfélag. Með því að halda byggðinni lágreistri þá skapar það manneskjulegra umhverfi. Margir eiga þann draum að búa í lágreistu húsi með garði og sólaraðkomu. Það hefur hingað til verið hægt að fá slíka byggingarreiti í Garðabæ. Margir íbúar sem hafa eitt ævihýrunni í að koma sér upp slíkum bústað telja sig vera svikna þegar bæjarfélagið stendur fyrir því að leyfa ofurbyggingarmagn í nágrenni þeirra sem fyrir eru og þannig koma aftan að þeim með því að gera ekki sömu kröfur á nýja byggingaraðila eins og þá fyrri. Þetta eru í raun svik á byggingarskilmálum allra íbúa Garðabæjar sem byggðu áður en þetta nýja byggingarskipulag kom til . Þessi “svik” beinast að öllum íbúum Akrahverfis og Arnarness , vegna tillagna um ofurbyggingarmagn á þeim smáa byggingarreit sem Arnarlandið er. Það er ekki nóg með að íbúðarbyggðin sem leyfa á sé að mestu leiti fjölbýlishús heldur á að reisa risavaxin 8-9 hæða atvinnuhúsnæði í anda Höfðatorgar Reykjavíkur með tilheyrandi takmörkun á útsýni, sólarleysi hjá nágrönnum og aukningu á núverandi umferðartöfum sem nóg er fyrir.

Það virðist vera að núverandi Sjálfstæðisflokkur í Garðbæ telji það vera eftirsóknarvert að elta fyrrverandi borgarstjóra Dag B. Eggertsson í þvílíkri þéttingu byggðar í nýbyggðum hverfum Garðabæjar í anda Reykjavíkur. Höfum við eignast nýjan Dag í bæjarstjórn Garðabæjar? Dæmi um slíkt í Reykjavík er Höfðatorg. Það byggingarmagn sem þar hefur verið leyft er hneyksli . Byggðin skyggir alveg á öll lágreistu einbýlishúsin í Túnunum, sem gerir þau verðlítil eða verðlaus. Vindstrengir myndast svo að hættulegt er að ganga framhjá Turninum þar sem Hamborgarafabrikkan er til húsa. Ætlar stjórn Garðabæjar að bjóða okkur upp á það sama í Arnarlandinu? Að vísu höfum við fengið forsmekkin af þessu breyttu hugarfari í byggingarmagni og umferðarskipulagsleysi í nýbyggðu hverfi í Garðabæ, en það er Urriðarholtið. Þar hefur stjórn Garðabæjar algjörlega misst fótana í að takmarka byggingarmagn miðað við umferðarmagn á svæðinu þannig að daglegar umferðartafir og þröngar götur er umkvörtunarefni allra þeirra sem þar búa. Á að gera sömu mistök í Arnarlandinu?

Það er nóg byggingarland í Garðabæ fyrir atvinnuhúsnæði á jaðri byggðarinnar. Það þarf ekki að geðjast landareigendum Arnarlandsins í að hjálpa þeim að fá ofurtekjur af sölu eigna með því að leyfa slíkt byggingarmagn í miðju lágreistu íbúðarsvæði. Ég veit ekki til þess að það sé neitt verið að biðja íbúa Garðabæjar sérstaklega um þá atvinnustarfsemi sem þetta svæði á að bjóða upp á af núverandi eigendum landsins. Það má ábyggilega finna því betri stað á öllu því landrými sem Garðabær hefur upp á að bjóða annars staðar.

Ég tel að með ofangreindum tillögum sé verið að brjóta á okkur íbúum sem fyrir eiga eignir á umræddu svæði. Óskandi væri að stjórn Garðabæjar myndi setja sig í spor íbúa á svæðinu og taka ákvarðanir í samræmi við samvisku sína og vilja þeirra sem kusu þá til embættis, en láta ekki skammtímasjónarmið ráða för vegna peningaleysis bæjarins. Það er nýlunda að Garðabær skuli nú orðið þurfa að taka lán. Er ekki verið að eyða um efni fram? Er verið að elta vandræðagang Reykjavíkurborgar í að leyfa ofurbyggingarmagn í nafni þéttingu byggaðar vegna peningaleysis. Ekki má sjást lengur grænn blettur á Reykjavíkursvæðinu án þess að stjórn borgarinnar sé búin að troða þar niður fjölbýlishúsi. Þar er ekki verið að hugsa um leiksvæði fyrir blessuð börnin og að bjóða upp á lífvænlegt umhverfi þegar öll opin svæði eru orðin steinsteypt. Er þetta eftirsóknarvert umhverfi? Í öllu því landrými sem Íslendingar hafa er þá ekki óþarfi að mynda stórborgarumhverfi með öllum þeim vandamálum sem því fylgja. Auk þess hef ég þá skoðun að arkitektar og skipuleggjendur gleymi því oft að við búum á Íslandi, tiltölulega fámennu þjóðfélagi, þar sem oft er misviðrasamt meiri hluta ársins. Vinnandi fólk með börn sem eru aðalskattgreiðendur þessa lands eru því oftast bundin við einkabílinn til þess að komast leiðar sinnar. Stjórnendur bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Garðabær mættu taka þetta til sín þegar þeir skipuleggja ný hverfi .

Virðingarfyllst,
Gísli Vilhjálmsson
Íbúi í Garðabæ síðan 1996

Forsíðumynd: Tölvugerð mynd, horft til suðurs eftir Hafnarfjarðarvegi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar