Árekstrar á Arnarnesbrú minnst með árlegum viðburði

Árlegur viðburður um afleiðingar alvarlegra umferðarslysa, bættar samgöngur og kröfur um aukna umferðarlöggæslu verður haldinn fimmtudaginn 28. nóvember nk. í Garðaholti við Garðaholtsveg, í nágrenni Garðakirkju við Álftanes.  Húsið opnar kl. 19.30 og dagskrá hefst kl. 20. 

Það eru þær Anna Linda Bjarnadóttir og Þórunn Óskarsdóttir, stofnendur jafningjahópsins ,,Á batavegi”, sem standa að viðburðinum fyrir hönd hópsins.  Þann 28. nóvember 2020 slasaðist Anna Linda alvarlega í árekstri við ölvaða konu á Arnarnesbrú og hefur þess atviks verið minnst á hverju ári síðan með viðburði.  Þórunn slasaðist alvarlega þann 1. nóvember 2019 sem farþegi í leigubíl á Reykjanesbraut.   

Þær Anna Linda og Þórunn verða með erindi en á hverju ári hafa þær jafnframt boðið handhafa opinbers valds sem sérstökum heiðursgesti til að flytja erindi.  Að þessu sinni er heiðursgestur viðburðarins 2024 Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi samgönguráðherra, innanríkisráðherra og dómsmálaráðherra.  Í erindi hans verður meðal annars farið yfir hvernig fækka megi umferðarslysum út frá sjónarhóli stjórnvalda og í lok erindis verður tekið á móti fyrirspurnum úr sal. 

Alma Rut Kristjánsdóttir, söngkona úr Garðabæ, býður upp á glæsilegt tónlistaratriði og léttar veitingar verða í boði að framsögum loknum.  Allir hjartanlega velkomnir!  

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar