Anna María Skúladóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Álftanesskóla frá og með 1. ágúst nk. Anna María hefur kennarapróf B.Ed og masterspróf M.Ed í stjórnunarfræðum menntastofnana.Fjórar umsóknir bárust um starf skólastjóra Álftanesskóla.
Frá árinu 2018 hefur Anna María hefur verið aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla. Hún hefur víðtæka reynslu af skólamálum, hefur starfað við kennslu og eða stjórnun frá árinu 1998 eða í 24 ár. Í störfum sínum hefur Anna María sýnt að hún er faglegur leiðtogi með skarpa skólasýn og drifkraft til að leiða öflugt skólastarf.
Anna María tekur við starfi skólastjóra af Ernu Ingibjörgu Pálsdóttur sem hefur verið skólastjóri skólans frá árinu 2018 en þar áður var hún aðstoðarskólastjóri skólans, deildarstjóri og grunnskólakennari. Erna lætur senn af störfum og fer á eftirlaun.
Álftanesskóli er rótgróinn grunnskóli fyrir nemendur í 1.-10. bekk og þar stunda rúmlega 400 nemendur nám þetta skólaár. Skólastarfið byggir m.a. á hugmyndafræðinni um „Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga“. Skólinn er staðsettur nálægt fjöru og fallegri náttúru, auk þess að vera í göngufæri við tvo leikskóla og íþróttamiðstöð. Nýlega var tekin í notkun ný viðbygging við skólann sem hefur bætt aðstöðu skólans til muna með mötuneyti, bókasafni og tengingu við íþróttamiðstöðina.