Alþjóðaskólinn á Íslandi. Gæði í kennslu – gjöfult nám – gleði í starfi
Alþjóðaskólinn á Íslandi er eini alþjóðlegi grunnskólinn á landinu. Skólinn býður upp á vottað alþjóðlegt nám fyrir nemendur á öllum stigum grunnskólans (1.-10. bekkur). Jafnframt býður skólinn upp á 5 ára bekk.
Hverjir eru nemendur okkar?
Nemendur okkar koma víðsvegar að. Íslenskir nemendur með alþjóðlegan bakgrunn, tvítyngdir nemendur þar sem til að mynda annað foreldrið er íslenskt og hitt erlent, nemendur sérfræðinga eða sendiráðsstarfsmanna sem vinna tímabundið á landinu svo eitthvað sé nefnt. Við fögnum fjölbreyttum bakgrunni nemenda okkar leggjum metnað okkar í að mæta þörfum hvers og eins. Þannig er til að mynda á yngra stigi skólans (1-6 bekkur) val um annars vegar tvítyngda námsbraut þar sem námið fer fram íslensku og ensku og hins vegar enska námsbraut, þar sem einungis er kennt á ensku.
Alþjóðleg námskrá
Skólinn þjónar jafnt þeim nemendum sem búa á Íslandi sem og þeim sem eru hingað komnir tímabundið. Kennsluhættir eru sveigjanlegir, bekkir eru fámennir og kennarateymið er alþjóðlegt. Alþjóðaskólinn er aðili að samtökum evrópskra alþjóðlegra skóla (ECIS) og sækja kennarar okkar m.a. endurmenntun sína þangað. Skólinn hefur hlotið alþjóðlega faggildingu hjá Council of International Schools (CIS) og The Middle States Association of Colleges and Schools (MSA).
International Baccalaureate
Á vormánuðum 2020 hlaut skólinn styrk frá Marel til áframhaldandi uppbyggingar á innra starfi. Það gerði skólanum meðal annars kleift að hefja innleiðingaferli á IB (International Baccalaureate) námsskrá fyrir nemendur í 7. til 10. bekk. Hlutinn sem skólinn innleiðir heitir MYP (Middle Years Programme) og er ætlað að undirbúa nemendur fyrir alþjóðlegt framhaldsnám, meðal annars IB brautina í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
The International Primary Curriculum
Í 1. til 6. bekk er, auk kjarnagreina, kennt eftir alþjóðlegri námskrá sem kallast IPC (International Primary Curriculum). Hún byggist á þemakennslu þar sem börnin læra um sitt nærumhverfi og sitt heimaland samhliða því að læra um ákveðin þemu. Inn í þemað fléttast sögukennsla, samfélagsfræði, náttúrufræði og fleira. Oft tengjast IPC þemun svo inn í kjarnagreinarnar, sem eykur samfellu í námi nemenda.
Virðing, skapandi hugsun og trú á eigin getu
Grunngildi skólans eru virðing, skapandi hugsun og trú á eigin getu.
Í skólastarfinu er lögð er rík áhersla á virðingu í verki til dæmis í formi samvinnu, samkenndar og umhverfisvitundar. Lagt er áherslu á sköpun í öllum námsgreinum en auk þess eru list- og verkgreinar kenndar á öllum skólastigum. Undir listgreinar falla námskeiðin myndlist, tónmennt og leiklist og undir verkgreinar falla námskeiðin hönnun, forritun og STEAM (Science, Technology, Engineering, Art, Math).
Rík áhersla er lögð á að bæði nemendur og starfsfólk hafi sjálfstraust og trúi því að þau geti tekist á við þau margvíslegu og krefjandi verkefni sem lífið hefur uppá að bjóða. Leitast er við að efla nemendur til dáða og allir eru hvattir til að verða besta útgáfan af sjálfum sér, bæði í leik og starfi.
Í Alþjóðaskólanum er lögð rík áhersla á jákvæð samskipti í öllu starfi og fá bæði nemendur og starfsmenn tækifæri til að fræðast og þjálfa sig í viðurkenndum aðferðum til að slíkt megi verða. Í skólanum er unnið samkvæmt hugmyndafræði Jane Nelson um jákvæðan aga (Positive Discipline). Hugmyndfræðin hvetur til jákvæðs hugarfars, lausnamiðaðrar hugsunar og byggir upp persónulega ábyrgð, innri styrk og samskiptafærni.
Nýtt skólahúsnæði í Garðabæ
Undanfarin ár hefur verið unnið að hönnun nýs skólahúsnæðis. Byggingin mun rísa á Þórsmerkurlandinu. Við erum ákaflega stolt af þessum mikilvæga áfanga í starfsemi skólans og hlökkum til að koma okkur fyrir á nýjum stað. Ráðgert er að taka í notkun fyrsta áfanga árið 2023.
Nánari upplýsingar og umsóknir
Við hvetjum áhugasama til að kynna sér heimasíðu skólans og hringja eða skrifa okkur til að fá nánari upplýsingar um starfsemina. Jafnframt er hægt að bóka tíma í heimsókn, annað hvort með netpósti eða símtali. Á heimasíðu skólans, www.internationalschool.is má finna umsóknareyðublöð. Nauðsynlegt er að fylla þau út og fá staðfestingu um skólavist.
Hanna Hilmarsdóttir
Skólastjóri
Upplýsingar
Alþjóðaskólinn á Íslandi
Þórsmörk við Ægisgrund, 210 Garðabær
Sími: 594-3100
Netfang: [email protected]
Veffang: www.internationalschool.is