Almar Guðmundsson býður sig fram í fyrsta sæti í Garðabæ

lmar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, býður sig fram í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Almar hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2014, í bæjarráði frá 2018 og er formaður fjölskylduráðs og öldungaráðs. Hann er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School.

Áhersla á traustan, sjálfbæran og ábyrgan rekstur sveitarfélagsins

„Ég legg áherslu á traustan, sjálfbæran og ábyrgan rekstur sveitarfélagsins. Góð fjármálastjórn er forsenda þess öfluga og fjölskylduvæna samfélags sem við viljum halda áfram að byggja upp hér í Garðabæ. Það þarf mikla vinnu og úthald til að viðhalda þeirri stöðu. Það þarf einnig að tryggja sterka rödd Garðabæjar gagnvart ríkisvaldinu í málum þar sem tekjur hafa ekki fylgt þeim verkefnum sem færð hafa verið til sveitarfélaga. Rödd bæjarins á vettvangi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu skiptir líka miklu máli enda eru þar stór úrlausnarefni í skipulags- og samgöngumálum sem leysa þarf skynsamlega úr,“ segir Almar.

Undanfarið ár hefur Almar starfað hjá Reiknistofu lífeyrissjóða þar sem hann leiðir vinnu við breytingar á rekstri hugbúnaðarkerfis í eigu lífeyrissjóða. Hann starfaði hjá Krít fjármögnunarlausnum og síðar hjá Kviku 2017-2020 en á árunum 2009-2017 var hann framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og hjá Samtökum iðnaðarins. Þar áður vann hann ýmis stjórnunarstörf hjá Íslandsbanka og síðar Glitni.

Þekkir vel mikilvægi leikskóla-, skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs

Almar segist sem uppalinn Garðbæingur og fimm barna faðir þekkja vel mikilvægi leikskóla-, skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs. Hann segir hlutverk bæjarfulltrúa að skapa eins góðar aðstæður fyrir þessa málaflokka og frekast sé kostur. „Við búum að því að hafa mjög öflugt fagfólk í skólum, leikskólum og tómstundastarfi. Við þurfum að stíga frekari skref í að gera starfsumhverfið þeirra enn meira aðlaðandi“, segir Almar

Með sterka taug til íþrótta og frjálsra félaga

„Íþróttir og starf frjálsra félaga eiga sterka taug í mér, enda hef ég lagt mitt af mörkum í starfi þeirra. Ég var m.a. formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar í sjö ár. Ég hef verið og ætla áfram að vera talsmaður þess að Garðabær sé í forystu við að efla þessa starfsemi og nýta þann kraft sem býr í félögunum í þjónustu við íbúanna. Aðstaða til íþróttaiðkunar og útivistar er mjög góð í Garðabæ og ég hef mikinn metnað til þess að sú aðstaða þróist áfram í takt við þarfir íbúanna,“ segir Almar.

Hefur leitt starf fjölskylduráðs

„Ég hef á síðustu árum leitt starf fjölskylduráðs og við höfum m.a. unnið eftir skýrri áætlun um „Ég hef á síðustu árum leitt starf fjölskylduráðs og við höfum m.a. unnið eftir skýrri áætlun um fjölgun búsetukjarna fyrir fatlað fólk, ásamt því að vinna að áframhaldandi uppbyggingu félagsaðstöðu fyrir eldri borgara, leiguíbúða og félagslegs húsnæðis. Þá höfum við endurskoðað jafnréttisstefnu bæjarins og ný lýðræðisstefna verður kynnt á næstu vikum.“

Almar segir oddvitastarfið snúast um að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka, hóp sem hafi burði til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. „Ég hef mikla reynslu af slíku starfi, bæði í daglegum störfum og félagsmálum. Þess vegna býð ég mig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins sem fram fer þann 5 mars.

Almar er kvæntur Guðrúnu Zoega, deildarstjóra á Hrafnistu Skógarbæ, og eiga þau börnin Tómas Orra, Ölmu Diljá, Fríðu Margréti, Baldur Frey og Bjarna Ragnar.

Framboðssíða www.almarg.is
Sími 824-6111
[email protected]

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar