Allt er gott sem endar vel

Nú er komið að því að taka knatthúsið Miðgarð í notkun. En sagan að baki þessa mannvirkis er ansi löng eða yfir 25 ár. Ég kannast nokkuð vel við þessa sögu og man vel þegar fyrstu umræður um knatthús voru að fara af stað. Þá var einmitt verið að ræða staðsetningu og stærð. En fyrir sveitarstjórnarkosningar 1998 tók ég þátt í að mynda framboð með ungu fólki sem var með þetta efst á sinni stefnuskrá. Við unnum eftir settum lögum og reglum, mótuðum framboðslista og söfnuðum meðmælendum. Ég hafði þá fengið það hlutverk að leiða listann aðeins 19 ára gamall. Við mættum með öll okkar skjöl, undirrituð og klár á bæjarskrifstofur Garðabæjar og ætluðum að leggja þau inn fyrir tilsettan tíma þannig að allt væri löglegt. Þar var ekki vilji til að taka við gögnunum og okkur tjáð að koma seinna. Það sem gerðist eftir það var eitt það furðulegasta sem ég hef upplifað. Nokkur af þeim sem voru skráðí framboð vildu hætta við og drógu sum framboð sitt til baka. Seinna kom í ljós að þeir aðilar höfðu fengið orð í eyra og í þeim orðum hefði legið hótun um framtíð viðkomandi hjá íþróttafélagi bæjarins ef farið yrði í framboð. Þá var einnig lofað að þetta yrði eitt af þeim málum sem Sjálfstæðisflokkurinn myndi taka upp á sína arma og klára ef ekki yrði af framboðinu.  Með þessu athæfi tókst að draga úr krafti unga fólksins á þeim tíma til að hafa áhrif og áhuginn kæfður í fæðingu. 

Eftir að málið var búið að liggja hjá bæjarstjórn í nokkurn tíma, kom fram sterkur hópur árið 2014 sem vildi þrýsta á byggingu knatthúss á Ásgarðssvæðinu. Haldin var opinn fundur með bæjarbúum um nokkrar tillögur að staðsetningu og málin rædd. Þar vakti þó athygli að í öllum tillögum var húsið í litum umhverfis nema þegar að sýnd var staðsetning á Ásgarðssvæðinu. Þá var húsið litað gult og féll mjög illa inn í umhverfið. Þrýstihópurinn var mjög duglegur og lausnamiðaður og kom meðal annars með svipaða lausn að umferðarmálum við Flataskóla og Ásgarð líkt og búið er framkvæma núna. Það má með sanni segja að þessi hópur hafi hreyft við málinu.

Miðað við kostnaðargreiningu sem var lögð fyrir bæjarráð 19. maí 2015 var gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu hússins yrði á bilinu 650 – 1.850 milljónir króna og stefnt var að því að hefja framkvæmdir á því kjörtímabili. Í upphafi árs 2019 breyttist knatthúsið í fjölnota íþróttahús. Efnt var til samkeppni um hönnun og byggingu hússins í Vetrarmýri og í framhaldinu samið við ÍAV sem fékk 5,0 í einkunn fyrir hönnun og í alútboði átti verkið að kosta 4,3 milljarða. Það var áhugavert að sjá að húsið sem fékk 9,2 í einkunn fyrir hönnun og átti að kosta 4,6 milljarða varð ekki fyrir valinu. Þann 3. maí 2019 var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu hússins og áætluð verklok í apríl 2021. Á haustdögum 2019 var síðan kominn upp ágreiningur um grundun og í framhaldi hætti verktaki að vinna að verkinu, þá var Bleik brugðið.

En núna í febrúar 2022 er komið að því. Húsið á að taka í notkun og er það stór dagur í sögu okkar Garðbæinga. Nú þarf að kappkosta að samgöngur til og frá húsinu verði sem fjölbreyttastar. Við þurfum að hafa göngustígakerfi sem tengir húsið við aðra hluta bæjarins ásamt því að tryggja almenningssamgöngur gangi til og frá húsinu. Einnig þarf að huga að nýtingu þess og gefa öllum skólum bæjarins tækifæri á að komast að í húsinu sé vilji til þess. Gleymum þó aldrei að húsið er fjölnota.

Til hamingju Garðbæingar!
Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar