Allt að 500 íbúðir í fjölbýli í Arnarlandi

Lögð hafa verið fram drög að tillögu að deiliskipulagi Arnarlands sem unnin hafa verið af landeiganda í samráði við Garðabæ, en grein var gerð á drögunum á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar á dögunum og bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti tillögu skipulagsnefndar um forkynningu á deiliskipulagi fyrir Arnarland á fundi sínum í síðustu viku.

Gert er ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar og þjónustu. Fjöldi íbúðareininga geti orðið allt að 500 í fjölbýli, um 9.000 m2 ætlaðir heilbrigðistengdri þjónustu, um 20.000 ætlaðir undir skrifstofur, um 3500 fermetrar fyrir verslanir o.s.f.v. Hæðir húsa verði 3 til 6 hæðir og kennileitisbygging heilsuklasa allt að 9 hæðir. Þá er gert ráð fyrir að engin uppbygging verði Kópavogsmegin bæjarmarka á hinu óbyggða svæði að svo stöddu. 

Gert er ráð fyrir að lega Borgarlínu geti orðið um miðju Arnarlands eða á jaðri þess meðfram Hafnarfjarðarvegi en endanleg lega hennar getur ekki ákvarðast fyrr en að hönnun hennar liggur fyrir í áætlunum.

Drögin gera ráð fyrir að umferðartengingar verði frá Fífuhvammsvegi og í undirgöngum undir Arnarnesveg frá hringtorgi á mótum Akrabrautar og Miðakra.

Skipulagsnefnd hefur vísað tillögunni til forkynningar. Þá verður haldinn kynningarfundur á forkynningartíma og tillagan kynnt sérstaklega fyrir skipulagsyfirvöldum í Kópavogi.

Arnarnland
Í Arnarlandi mun rísa heilsubyggð með áherslu á lífsgæði, náttúru og heilsueflandi þjónustu. Byggðin mun annars vegar byggjast á rúmgóðum hágæðaíbúðum sem bjóða upp á möguleika á hátæknivæðingu fyrir 50 ára og eldri og hins vegar miðstöð fyrirtækja sem sérhæfa sig í heilbrigðisþjónustu, þróun og nýsköpun í heilsueflandi starfsemi. Staðsetningin er einstök í miðju höfuðborgarsvæðisins, á mörkum Garðabæjar og Kópavogs.

Græn íbúðabyggð
Vandaðar og rúmgóðar íbúðir sem aðlagast kröfum og þörfum íbúa í fallegu umhverfi á besta stað. Svæði með mikla útivistarmöguleika til að njóta lífsins og rækta líkama og sál, í nálægð við haf og náttúru.

Miðstöð heilsutæknifyrirtækja
Fyrirhugað er að á atvinnuhluta svæðisins verði til klasi fyrirtækja sem sérhæfa sig í þjónustu, þróun og nýsköpun með heilsueflandi starfsemi á borð við heilsugæslu, sérfræðiþjónustu, heilsurækt o.fl. Fyrirtækin og íbúðabyggðin munu njóta góðs af nærveru hvors annars ásamt því að auka heilsutengt þjónustuframboð til nærliggjandi hverfa. Ósar, ásamt dótturfyrirtækjunum Icepharma og Parlogis, munu reisa höfuðstöðvar sínar á svæðinu og verða leiðandi í uppbyggingu á atvinnuhluta þess.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar