Allt á áætlun hjá IKEA

Framkvæmdir við nýtt vöruhús IKEA í Kauptúni ganga vel og er stálgrindin byrjuð að rísa eins og þeir sem keyra Reykjanesbrautina hafa sjálfsagt tekið eftir.

Stækkunin er um það bil 12.500 fermetrar. Verslunin sjálf stækkar ekki, en lagerinn stækkar verulega og svo verða skrif- stofur fyrirtækisins stækkaðar og sameinaðar á einn stað. Stækkunin felur einnig í sér stækkun á heimsendingasvæði IKEA og betri aðstöðu fyrir þjónustu sem IKEA hóf í upphafi Covid, Smelltu og sæktu. ,,Til viðbótar við það fáum við aðstöðu til að bjóða upp á nýjar lausnir sem verða kynntar til sögunnar eftir að við tökum nýju bygginguna í notkun,” segir Stefán Rúnar Dagsson framkvæmdastjóri IKEA og bætir við: ,,Tilgangurinn er fyrst og fremst að sameina allan rekstur fyrirtækisins á einn stað. Við erum á þremur stöðum í dag, en eftir að framkvæmdum lýkur verður allur rekstur í Kauptúni 4. Það er því hagræðing í þessu fyrir okkur og einnig þægindi fyrir okkar viðskiptavini því það einfaldar þeim lífið að þurfa ekki að fara á marga staði að sækja vörur.”

Hvað framkvæmdirnar varðar þá var tæknibygging tekin í notkun í þessari viku, en þá voru flutningar á rafmagni kláraðir. Þá gengur vel að steypa skrifstofubygginguna og fyrsti hluti botnplötunnar hefur verið steyptur. Jarðvinnan er að mestu búin og stór hluti af jarðvegi er og verður endurnýttur í þetta verkefni sem og önnur verkefni sem eru í gangi.

Fyrsti áfangi af húsinu fer í notkun snemma vorið 2024, svo koll af kolli fram á haustið 2024, framkvæmdum á að vera lokið að fullu í september 2024.

Það eru 450 manns sem starfa hjá IKEA, en stöðugildi eru 360.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar