Alls 49 fyrirtæki taka þátt í POP UP markaði sem haldinn verður á Garðatorgi á laugardaginn

Það verður líf og fjör á Garðatorgi á laugardaginn. Þá fer aðventuhátíð Garðabæjar fram og einnig verður glæsilegur POP UP markaður haldinn á göngugötunni, Garðatorgi 5.

Birna Ágústsdóttir og Stefanía Helga Bjarnadóttir eru konurnar sem standa á bak við markaðinn. Þær lofa sannkallaðri jólastemmningu um helgina.

Þær hafa haldið samskonar POP UP markaði nokkrum sinnum og segja þessa viðburði ávallt falla vel í kramið hjá bæjarbúum. Þetta er annað árið í röð sem þær halda POP UP markað svona skömmu fyrir jól. „Markaðurinn hefur vakið mikla lukku og fólk er alltaf ánægt að sjá líf á Garðatorgi,“ segir Birna.

Stefanía tekur undir. „Þetta hefur lukkast betur en við þorðum að vona. Það hefur verið rosalega góð mæting og skemmtileg stemning. Oftar en ekki er boðið upp á flott tilboð.“

Upplagt að græja jólagjafainnkaupin

Alls verða 49 fyrirtæki sem taka þátt í POP UP markaðinum að þessu sinni. „Þetta eru aðallega netverslanir sem núna fá tækifæri til að leyfa viðskiptavinum að sjá og snerta sínar vörur og bjóða upp á góða kynningu á þeim. Það er alveg tilvalið að græja jólagjafainnkaupin núna og fá jólastemninguna beint í æð,“ segir Stefanía.

Birna segir að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á markaðinum á laugardaginn. „Þarna verða mjög fjölbreyttar vörur frá alls konar verslunum, t.d. barnavörur, fatnaður, leðurvörur, skart, snyrtivörur og sælkeravörur,“ segir Birna.

Það er óhætt að segja að það verði nóg um að vera á Garðatorgi á laugardaginn, til viðbótar við markaðinn verða ýmsir flottir viðburðir í boði í tengslum við aðventuhátíðina og fara þeir fram á Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar, göngugötunni á Garðatorgi og á Garðatorgi 7. „Í boði verða alls kyns frábærir viðburðir, tónlistaratriði, jólasveinar mæta á svæðið og boðið upp á matarsmakk. Vöffluvagninn verður á sínum stað og Bæjarins bestu verða með pulsur,“ segir Stefanía.

Fyrirtækin á Garðatorgi verða auðvitað einnig með opið samkvæmt sínum opnunartíma.

POP UP markaðurinn verður frá 11:00 til 16:00, á laugardaginn 30. nóvember.

Forsíðumynd: Birna Ágústsdóttir og Stefanía Helga Bjarnadóttir eru konurnar sem standa á bak við markaðinn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar