Allir í stuði í sveitinni og enginn skilinn eftir – frábær stemmning á Forsetabikarnum á Álftaensi

Forsetabikarinn var haldinn á dögunum, en þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin á Álftanesi. Um er að ræða árlega bæjarhátíð og fjölskyldudag ætlaður öllum sem vilja gera sér glaðan dag, taka þátt í ýmsum leikjum og njóta þess sem Álftanesið hefur uppá að bjóða og auðvitað hefur Guðni forseti tekið þátt í deginum.

Forsetabikarinn er haldin í maí á Uppstigningardag og eru það foreldrar á Álftanesi ásamt góðri aðstoð frá UMFÁ sem standa fyrir þessari hátíð. ,,Við sem komum að skipulagningu hátíðarinnar erum mjög lánsöm með fólkið í kringum okkar, það ríkir mikil samheldni og jákvæðni í bæjarbúum og allir eru reiðubúnir að leggja okkur lið til þess að láta þetta ganga upp. Án þeirra væri þetta ekki hægt,” segir Sigrún Antonsdóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar. ,,Forsetabikarinn er fyrir alla, það kostar ekkert að vera með og okkar mottó er: „Allir í stuði í sveitinni og enginn er skilin eftir.“,” segir hún.

Forsetahlaupið á vegum UMFÍ var í fyrsta skipti haldið á sama degi og Forsetabikarinn og var mikil ánægja að sameina þessa tvo flottu viðburði.

Ýmislegt var hægt að finna sér til gamans á hátíðinni. Þar á meðal fótbolta- og vítaspyrnukeppni, dýragarður, matar-vagnar, leiktæki, grænn markaður, Saunu Sesh með Gufu-Gussu í fjörunni svo ekki sé minnst á stórtónleika Aron Can, Steinda og Audda Blö.

Álftanesi var skipt upp eftir litum og voru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta húsin sín. Sumar götur gengu skrefinu lengra og héldu heljarinnar götuveislu þar sem líf og fjör var fram eftir kvöldi. ,,Við viljum þakka öllum þeim sem styrktu hátíðina með kaupum á veitingum og happdrættismiðum kærlega fyrir stuðninginn. Sjáumst hress að ári liðnu,” segir Sigrún.

Eins og sjá má á myndunum var mikil og góð stemmning á Forsetabikarnum á Álftanesi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar