Allar breytingar eru að skila árangri og þar af leiðandi betri þjónustu

Garðabær hefur boðið 27 börnum sem fædd eru í september og fram í miðjan október 2023 pláss í ungbarnaleikskólanum Mánahvoli og hefur stór hluti af þeim nú þegar þegið pláss. Vonir standa til að geta boðið fleiri pláss fyrir börn fædd síðla árs 2023 þegar tvær deildir í Urriðabóli við Holtsveg taka til starfa í kringum áramót, en það er háð mönnun.

Það er langhlaup að hlúa að leikskólunum, starfsfólki og fjölskyldum

„Það er stórt jafnréttismál að börn komist snemma inn á leikskóla. Við gerðum breytingar á kerfinu okkar í fyrra, vitandi að það er langhlaup að hlúa að leikskólunum okkar, starfsfólki og fjölskyldum. Þessar breytingar eru að skila sér, það er undantekning að loka þurfi leikskólum vegna manneklu og höfum getað boðið fleiri börnum leikskóladvöl. Við höfum bætt upplýsingagjöfina til foreldra og finnum að allar breytingar eru að skila árangri og þar af leiðandi betri þjónustu,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Almennt gekk innritun í leikskóla Garðabæjar fyrir haustið 2024 vel og var öllum börnum á biðlista sem fædd eru í ágúst 2023 og eldri boðin leikskólavist í vor. Núna eru alls 100 börn sem fædd eru árið 2023, þ.e. í janúar til ágúst, í 13 leikskólum í Garðabæ. Börnin sem fengu úthlutað núna í september fá að hefja leikskóladvöl þegar þau hafa náð 12 mánaða aldri.

Nokkrar praktískar upplýsingar fyrir fjölskyldur:

  • Upplýsingar um innritun eru veittar í gegnum netfangið: [email protected]
  • Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili í Garðabæ og sé búsett í bænum. Sjá nánar hér:  Innritunarreglur
  • Vala leikskólakerfi heldur utan um flest sem viðkemur umsókn og leikskóladvöl barnsins.
  • Við innritun í leikskóla er tekið mið af kennitölu barna, þau elstu fá úthlutað fyrst. Í Garðabæ fer fram innritun í laus leikskólapláss allt árið.
  • Þegar pláss losnar er það boðið til barns á biðlista í samræmi við innritunarreglur. Foreldrum er sent bréf þegar barn fær leikskóladvöl. Foreldrar hafa 5 virka daga í umhugsunarfrest, eftir það er barnið tekið af biðlista.
  • Biðlistagreiðslur: Ef barn sem er orðið 12 mánaða og eldri er ekki byrjað í leikskóla en búið að fá úthlutað plássi er hægt að sækja um greiðslur þar til barnið byrjar í aðlögun á leikskólanum. Sjá nánar hér: Biðlistagreiðslur

Sjá einnig: Í leikskólum Garðabæjar starfar samhentur hópur ólíkra einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn. Leikskólakennarar sem hafa áhuga á að kynna sér leikskólastarfið í Garðabæ er bent á síðuna www.starfabaer.is, en fjölmörg fríðindi eru í boði auk þess sem stytting vinnuvikunnar er að fullu komin til framkvæmda.

Forsíðumynd: Mánahvoll

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar