Álftanesskóli – Allir eru einstakir – kynningar í grunnskólum Garðabæjar

Innritun nemenda í grunnskóla Garðabæjar í 1. bekk (f. 2017) og 8. bekk (f. 2010) og fer fram dagana 1. – 10. mars. Innritað er á þjónustugátt Garðabæjar.

Kynningar í grunnskólum

Grunnskólarnir í Garðabæ bjóða í heimsókn og verða með opin hús/kynningar í húsnæði skólanna. Gestum gefst þá kostur á að skoða skólana í fylgd starfsmanna og/eða nemenda. Allir grunnskólarnir bjóða foreldrum og forráðamönnum einnig að koma í heimsóknir á öðrum tíma. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu skólanna sé óskað eftir því. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að skoða vefsíður skólanna. Þar má finna gagnlegar upplýsingar og margskonar fróðleik um skólastarfið.

Opið hús/kynningar verða miðvikudaginn 8. mars, kl: 16:30–17:30 í Álftanesskóla

Álftanesskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur í 1.-10. bekk. Í skólanum eru rétt tæplega 400 nemendur í tveimur bekkjardeildum í árgangi. Í Álftanesskóla er lögð áhersla á fjölbreytta og sveigjanlega kennsluhætti í samræmi við einstaklingsmiðað nám og reynt að stuðla að því að öllum líði vel í skólanum. Litið er svo á að mannleg samskipti og ábyrg hegðun séu grunnþættir í skólastarfinu og að forsenda náms sé að nemendum líði vel í skólanum. Starfsmenn skólans leggja sig fram við að eiga jákvæð samskipti við heimilin og stuðla þannig að betri líðan nemenda, auknu öryggi og betri námsárangri.

Jákvæður skólabragur – Uppeldi til ábyrgðar
Í skólanum er í samskiptum byggt á uppbyggingu sjálfsaga – uppeldi til ábyrgðar. Megináhersla stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga og sjálfsstjórn og ýta undir sjálfstraust. Uppbyggingarstefnan leggur áherslu á samskipti fremur en reglur, ábyrgð fremur en blinda hlýðni og virðingu fremur en stjörnugjöf. Mikil áhersla er lögð á að nemendur séu í góðum samskiptum við starfsmenn svo hægt sé að leysa öll mál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Stefnan treystir á hæfileikann til sjálfsstjórnar og að hver og einn geti brugðist rétt við aðstæðum. Uppeldi til ábyrgðar kennir sjálfsaga og hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Gagnkvæm virðing er forsenda jákvæðra samskipta.

Anna María Skúladóttir, skólastjóri.

Fjölbreytt umhverfi
Álftanesskóli býr við fjölbreytta náttúru þar sem stutt er í fjörur, fjölskrúðugt fuglalíf, tjarnir og skemmtilegt umhverfi í göngufæri og er áhersla lögð á tengsl við umhverfið í skólastarfinu. Álftanesskóli hefur sett sér umhverfisstefnu þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu og skapa jákvætt viðhorf þeirra og starfsmanna til umhverfismála.
Skólasafnið og Bókasafn Álftaness/Garðabæjar eru rekin sameiginlega í skólahúsinu. Eftir að skóladegi nemenda í 1.– 4. bekk lýkur er boðið upp á frístundastarf, Álftamýri. Á elsta stigi Álftanesskóla er öflugt félagslíf en þar er starfrækt félagsmiðstöð, Elítan. Hlutverk hennar er að styðja við unglinga með fjölbreyttu tómstundastarfi en meginmarkmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru.

Skapandi skólastarf
Álftanesskóli leggur áherslu á skapandi starf og í list- og verkgreinum er kennt í vinnulotum í 1. – 9. bekk. Einnig hafa nemendur á unglingastigi valgreinar í sínum stundatöflum þar sem þeir geta valið um ýmis fög og þá út frá áhugasviði. Á miðstigi er einnig skapandi starf í list- og verkgreinum en á miðstigi eru einnig kenndar svokallaðar fjölgreinar sem eru skipulagðar sem ákveðnar vinnulotur þar sem lögð er áhersla á mismunandi greinar, s.s. leiklist, hreyfingu, félagsfærni, sköpun, upplýsingamennt o.fl.

Þróunarverkefni
Ýmis þróunarverkefni hafa verið í gangi í skólanum síðustu ár og skapa þessi verkefni fjölbreytta vinnu og nýjar áherslur í skólastarfi t.d. leiðsagnamat, rætt til ritunar, fjölbreyttir kennsluhættir og skapandi stærðfræði.

Lestur
Í skólanum hefur mikil áhersla verið á lestur og lestrarfærni nemenda m.a. með kynningum fyrir foreldra/forráðamenn nemenda í 1. og 3. bekk á hverju ári. Nemendur taka árlega þátt í alls konar lestrartengdum verkefnum s.s. lestrarsprettum, þjálfun lesskilnings og fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum á bókasafni skólans. Stefna Álftanesskóla er að leggja frá upphafi skólagöngu nemenda traustan grunn að lestri svo að þeir geti byggt ofan á eftir því sem færni þeirra eykst og þroskinn vex. Áhersla hefur verið á fjölbreytta kennsluhætti m.a. Vörður og vegvísa á yngsta og miðstigi. Einnig hefur verið lögð áhersla á fjölbreyttar matsaðferðir á læsi, s.s. Lesfimi, Orðarún o.fl.

Samstarf skólastiga
Álftanesskóli hefur verið í samstarfi við leikskólana Krakkakot og Holtakot, þar sem megintilgangurinn með samstarfinu er að leikskólanemendur læri í gegnum leik að þekkja Álftanesskóla, kynnist þannig húsnæði og starfsfólki skólans. Skólinn hefur jafnframt átt gott samstarf við Fjölbrautaskóla Garðabæjar með framhaldsáfanga fyrir nemendur í 10. bekk.

Á vefsíðu skólans www.alftanesskoli.is má finna hagnýtar upplýsingar um skólann og skólastarfið. Opið hús fyrir foreldra barna sem hefja nám í fyrsta bekk haustið 2023 verður 8. mars kl. 16:30. Foreldrar geta einnig komið í heimsókn og kynnt sér skólann eftir samkomulagi.

Anna María Skúladóttir, skólastjóri.
Álftanesskóli. v/Breiðumýri
Árgangar 1. – 10. bekkur
Fjöldi nemenda: 360
Sími: 540 4700
Netfang: [email protected]

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar