Alexander Eiríksson Íslandsmeistari í U-18 ára og fullorðinsflokki

Íslandsmót í fullorðinsflokki fór fram í lok apríl og tóku tveir keppendur frá Júdófélagi Garðabæjar þátt, Alexander Eiríksson keppti í -60kg flokki og Gísli Egilsson í -81kg flokki, en Gísli er jafnframt þjálfari liðsins.

Alexander gerði sér lítið fyrir og vann sinn flokk með miklum yfirburðum. Hann slóst vel og átti eitt af flottustu köstum mótsins og þá stóð Gísli sig einnig mjög vel en hann varð í öðru sæti í sínum flokki.

Alexander er mikið efnið en hann varð aðeins 16 ára í mars og hlýtur því að vera einstaklega sáttur með árangurinn? ,,Já mjög svo. Það er virkilega gaman að verða Íslandsmeistari á mínu fyrsta fullorðinsmóti,” segir hann brosandi.

Á þú áttir eitt af flottustu köstum mótsins – hvernig kast var það? ,,Það bragð heitir Osoto gari, það heppnaðist mjög vel.”

Og svo gerðir þú gott betur og varst Íslandsmeistari í flokki U-18 um sl. Helgi í sínum þyngdarflokki. ,,Já, það gekk mjög vel um helgina. Þetta voru erfiðar glímur en þetta hafðist allt hjá mér,” segir Alexander sem er eftir sigurinn um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari þ.e.a.s. í U-18 og fullorðinna.

Er langt síðan þú byrjaðir að æfa? ,,Ég byrjaði að æfa fyrir fjórum árum í Júdófélagi Garðabæjar, flutti mig svo í Júdófélag Reykjavíkur í smá tíma, en hætti svo að æfa eitt ár. Ég byrjaði svo aftur í júdó hér í Garðabæ eftir að boðið var upp á kynning á Júdófélagi Garðabæjar í skólanum.”

Alexander og Gísli í júdógallanum og með verðlaunin eftir fullorðinsmótið

Virkilega gaman að æfa júdó, krefjandi og góðar æfingar

Og hvernig er að stunda júdó? ,,Það er virkilega gaman að æfa júdó og starfið hjá Júdófélagi Garðabæjar er mjög gott. Þetta eru krefjandi æfingar sem styrkja mann og maður lærir góða tækni sem á eftir að nýtast mér vel,” segir hann og bætir við: ,,Ég hef lagt sérstaklega mikið á mig í vetur og uppsker eftir því. Ég hvet alla til að koma og prófa. Það eru krakkaæfingar og þeir sem eru fimmtán ára og eldri æfa með fullorðnum.”

Og hvað er svo framundan hjá þér í sumar í júdóinu? ,,Það eru æfingabúðir hér á Íslandi um næstu helgi sem haldnar verða hjá Judofélagi Reykjavíkur, svo fer ég í æfingabúðir í viku til Danmerkur í lok júlí. Ég reikna líka með að það verðir einhverjar æfingar hjá okkur í Judofélagi Garðabæjar í sumar.”

Slær garða í sumar fyrir íbúa í Garðabæ

Á hvað stefnir þú í framtíðinni? ,,Ég er að klára Garðaskóla nú í vor. Svo tekur bara við vinnan mín í sumar en ég tek að mér að slá garða fyrir fólk hér í Garðabæ og Kópavogi. Þið finnið mig á Face-book GarðslátturAlexanders (https://www.facebook. com/profile.php?id=100082001552528). Endilega hafið samband ef ykkur vantar slátt. Svo tekur bara við framhaldskólinn hjá mér í haust,”

Stefnir á svartabeltið

En hvað með júdóið, hvert stefnir þú í framtíðinni? ,,Ég stefni á að halda áfram í júdóinu og taka svartabeltið en það eru nokkur ár í það,” segir þessi efnilegi júdókappi að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar