Alexander Schram, nemandi í Garðaskóla gerði sér lítið fyrir og hafnaði í 2. sæti nemenda í 8. bekk í stærðfræðikeppninni Pangeu, sem fram fór í Menntskólanum við Hamrahlíð núna í maí.
Tæplega fimm þúsund nemendur í 8. og 9. bekk um allt land tóku þátt í fyrstu umferð keppninnar og komust 87 nemendur áfam í úrslit keppninnar og þar á meðal Alexander sem lenti í 2. sæti eins og áður segir.
Dæmin sem lögð voru fyrir keppendurna byggja á spurningabanka Pangea. Spurningar byggja ýmist á Íslandi og íslenskum aðstæðum.
Pangea er stærsta stærðfræðikeppnin á grunnskólastigi og markmiðið með keppninni er að vekja áhuga ungs fólks á stærðfræði og sýna fram á að allir geti haft gaman að stærðfræði. Keppnin hefur verið haldin á Íslandi síðan árið 2016 og farið ört stækkandi síðan.
Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin bæði fyrir nemendur í 8. bekk og bekk og fékk Alexander 15 þúsund krónur fyrir annað sætið.
En hvaðan kemur stærðfræðiáhuginn? ,,Ég veit það eiginlega ekki, en stærðfræðin hefur alltaf legið vel fyrir mér. Ég verð þó að viðurkenna að heimilisfræði er uppáhalds fagið mitt í Garðaskóla,” segir hann brosandi.
Alexander segist ekki hafa lært mikið fyrir keppnina og aðspurður hvað stefni á í framtíðinni þá er það eins og er að komast í Versló.
Hvað varðar önnur áhugamál þá segir Alexander að hann æfi handbolta með Stjörnunni, en gaman verður að fylgjast með þessum efnilega námsmanni í framtíðinni.
Forsíðumynd: Alexander nemandi í Garðaskóla, sem er annar frá hægri á myndinni, stóð sig frábærlega í Pangea stærðfræðikeppninni. Hér tekur hann við viðurkenningu fyrir annað sætið í keppninni.