Áhugi bæjarfulltrúa á ungmennaráðinu hefur aukist gríðarlega með tímanum

Ungmennaráð Garðabæjar er vettvangur fyrir unga íbúa bæjarins til að hafa áhrif á samfélagið sitt og koma málefnum sínum á framfæri við bæjaryfirvöld. Ráðið hefur síðustu ár lagt áherslu á líðan ungs fólks, aðstöðu fyrir ungmenni, samgöngur og fræðslumál. Með því að taka virkan þátt í stefnumótun bæjarins fá ungmennin tækifæri til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Nýverið tóku þær Freyja Huginsdóttir og Emilía Ósk Hauksdóttir við sem formaður og varaformaður ungmennaráðsins, en þær sátu einnig í ráðinu í fyrra. Við spurðum þær út í nýtt hlutverk, helstu verkefni ráðsins og þau málefni sem þær vilja leggja áherslu á á komandi starfsári.

Við viljum gera Garðabæ að betri stað

Hver eru ykkar helstu markmið sem formaður og varaformaður ungmennaráðsins í ár? ,,Okkur langar að vera raddir ungmenna í Garðabæ og viljum við gera það vel. Til að ná því markmiði þurfum við að hlusta á alla, virða skoðanir allra og setja metnað í verkefnin okkar. Við viljum gera Garðabæ að betri stað og eiga háværa rödd,“ segjar þær vinkonur, Emilía og Freyja.

Dugnaðurinn skín af okkur

En fyrir hvað stendur ungmennaráð Garðabæjar og hversu mikil áhrif getur það haft? ,,Markmið ungmennaráðsins er að koma hugmyndum ungmenna á framfæri. Til þess höldum við t.d. ungmennaþing og náum þannig að heyra skoðanir ungmenna. Ungmennaráðið er virkt og metnaðarfullt og erum að vinna mikið í að stækka okkur. Dugnaðurinn skín af okkur og sést í öllum verkefnunum sem við vinnum,“ segir þær brosandi.

Bæjarstjórn græðir mjög mikið á að fá okkar skoðanir inn og öfugt

Og nær rödd ykkar inn fyrir veggi bæjarstjórnar og hvaða máli skiptir það fyrir ungt fólk í Garðabæ – eru bæjarfulltrúarnir að hlusta á ykkur? ,,Við förum á fund með bæjarstjórn á hverju ári þar sem lang flest okkar málefni koma fram, en við erum í reglulegum samskiptum við marga bæjarfulltrúa. Áhugi bæjarfulltrúa á ungmennaráðinu hefur aukist gríðarlega með tímanum og vinnum við allskyns verkefni saman. Svona samstarf eru gríðarlega mikilvæg þar sem bæjarstjórn græðir mjög mikið á að fá okkar skoðanir inn og öfugt,“ segja þær.

Á dagskrá að opna ungmennahús

Og hver eru helstu áherslumál ungmennaráðsins fyrir árið 2025? ,,Okkur langar að bæta samgöngur í Garðabæ og þetta er mál sem við vinnum hart af. Á dagskrá er einnig að opna ungmennahús fyrir ungmenni eftir grunnskóla. Fullt af öðrum málefnum sem eru á dagskrá en þessi eru mest áberandi akkúrat núna.“

Mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á ungmenni í Garðabæ og vellíðan þeirra

Eins og þið nefnið þá hafið þið talað fyrir því að bærinn skoði möguleika á ungmennahúsi – hvernig gengur það mál og hverju mundi það breyta fyrir ykkur? ,,Þetta mál er komið á dagskrá og höfum við unnið lengi með það. Við erum gríðarlega ánægð hvað bærinn tekur vel í þetta verkefni og samstarfið sem myndaðist. Þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á ungmenni í Garðabæ og vellíðan þeirra. Svona ungmennahús hafa komið mjög vel út í öðrum bæjarfélögum og vonum við að ungmenni í Garðabæ taki vel í þetta verkefni,“ segja þær vinkonur.

,,Látið í ykkur heyrast! Ef þið haldið að þið getið haft jákvæð áhrif á samfélagið verðið þið að þora að koma skoðunum ykkar á framfæri,“ segja þær vinkonur. Freyja er til vinstri á myndinni og Emilía til hægri.

Og þið hafið einnig nefnt samgöngumálin, strætó og hjólaleiðir. Það skiptir ykkur máli? ,,Samgöngumál er stórt áherslumál hjá okkur og brennum við fyrir þessum málaflokki þar sem ungmenni nýta samgöngur mest. Við viljum bæta þessi mál og hlusta á ungmenni í öllum hverfum. Við höfum verið í góðu samstarfi við ÍTG og eru þessi mál kominn í farveg og á góðri leið.“

Vilja ná athygli íbúa í Garðabæ og þá sérstaklega ungmenna

En eru ungmenni í dag dugleg að fylgjast með og taka þátt í umræðunni um bæjarmál almennt og hvernig er hægt að efla þátttöku ungmenna í bæjarmálum enn frekar? ,,Við höldum reglulega ungmennaþing og þar hafa ungmenni í Garðabæ vettvang til að koma sínum skoðunum á framfæri. Við erum einnig að fara í markaðsherferð þar sem við viljum auglýsa okkur mun betur og ná athygli íbúa í Garðabæ og þá sérstaklega ungmenna,“ segir þær Freyja og Emilía.

Hvað finnst ykkur mikilvægast að bæta í Garðabæ fyrir ungt fólk? ,,Það eru mörg málefni sem brenna á ungmennum í Garðabæ í dag og erum við að gera okkar besta í að vinna úr þessu öllu. Mikilvægast fyrir okkur er að ungmenni sjái einhverja breytingu og finni fyrir því að það sé hlustað á þau.“

Látið í ykkur heyrast!

Hvaða skilaboð viljið þið senda ungu fólki sem vill hafa áhrif í samfélaginu? ,,Látið í ykkur heyrast! Ef þið haldið að þið getið haft jákvæð áhrif á samfélagið verðið þið að þora að koma skoðunum ykkar á framfæri. Það þurfa ekki alltaf allir að fara vera sammála þér en þú verður að muna að standa með sjálfum þér og þinni sannfæringu.

Eitt af verkefnum framtíðarinnar gæti verið bæjarpólitík

Hvað með framtíðina – hafið þið áhuga að taka þátt í bæjarpólitíkinni síðar og verða bæjarfulltrúar? ,,Okkur langar áfram að gera góða hluti í samfélaginu og er bæjarstjórn mjög góður vettvangur til þess. Framtíðin er björt hjá okkur og eigum við eftir að taka að okkur fullt af skemmtilegum verkefnum og eitt af þeim gæti verið bæjarpólitík,“ segja þessar flottur og ákveðnu stelpur að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins