Áhugavert málþing um heimsfaraldurinn

Margir telja að við séum loks að ná tökum á faraldrinum sem herjað hefur á heimsbyggðina vegna kórónaveirunnar Covid-19. Ísland virðist hafa náð að vera í fremstu röð ríkja í baráttunni og einna fæst dauðsföll hlutfallslega hafa átt sér stað hér landi. En hefur heimsfaraldurinn kennt okkur eitthvað nýtt? Hefur samfélagið breyst til betri eða verri vegar? Snertingar fólks hafa óneitanlega minnkað en þýðir það minni náungakærleik? Hvað um vistkerfið? Þessar spurningar og ýmsar fleiri hafa skotið upp kollinum og á sunnudaginn verður leitast við að draga fram læknisfræðilegar-, siðferðilegar-, heimspekilegar- og lagalegar hliðar málsins fram á örmálþingi í Vídalínskirkju. 

Frummælendur verða Arnar Þór Jónsson lögfræðingur og fv. dómari, dr. Bjarni Karlsson siðfræðingur, dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Landlæknisembættinu, dr. Jón Ásgeir Kalmannsson heimspekingur og dr. Sólveig Anna Bóasdóttir siðfræðingur. Fundarstjórar verða sr. Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur og Björg Anna Kristinsdóttir varaformaður sóknarnefndar.

Örmálþingið hefst kl. 12:30 í Vídalínskirkju á sunnudaginn, 10. okt., er öllum opið og er aðgangur ókeypis. Beint streymi frá þinginu verður á Facebook-síðu kirkjunnar fyrir þá sem ekki komast á staðinn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar