Mitt í svartasta myrkri vetrarins sjáum við enn bjarma upp af þessari dásamlegu, sígildu hátíð ljósanna, gleðinnar og kærleika. Við lítum til bernskunnar og rifjum upp ljúfar minningar af æskujólunum og ástvinum. Jólanóttin er sú nótt sem kallar fólk heim í faðm fjölskyldu og ástvina. Við eigum endurfund við hjartfólgna bernskustund og á sama tíma viljum við búa börnum okkar sömu blessun, svo að einnig megi hjá þeim minning vaka um heilög jól í heimaranni.
Mér þykir vænt um þessa hátíð. Hún snertir við mér á margvíslegan hátt og ég dreg upp minningar sem eru mér afskaplega kærar. Ég fæddist á jóladag og ég man hvað mér fannst gaman að verja tímanum með fólkinu sem elskaði mig og ég elskaði sannarlega. Nú horfi ég á sömu gleði raungerast hjá dóttur minni.
Þess vegna hef ég leitast við að skrifa greinar um sögu jóla í Garðabæ. Fyrir tveimur árum birti ég Sögu jóla í Garðabæ í þremur hlutum, sem var ítarleg umfjöllun um jólahelgihald í byggðinni allt frá landnámi. Þá grein skrifaði ég meðal annars vegna þess að ég hafði lesið margt um jólahelgihald í Garðabæ þegar ég vann við að rita ævisögu afa míns séra Braga Friðrikssonar, sem var hér prestur í yfir þrjá áratugi. Ævisaga hans kemur út á næsta ári.
Hér skrifa ég í stórum dráttum um aftansöng jóla í Garðabæ og vona að þessi grein geti á einhvern smávægilegan hátt auðgað jólaandann í bænum og eflt bæjarbraginn.
Jól í Garðabyggð
Saga jóla í Garðabæ er löng og merkileg. Fyrsti aftansöngur jóla í Garðabæ var vitaskuld fyrir meira en 1000 árum, enda eru tveir merkir kirkjustaðir í bænum okkar, Garðar og Bessastaðir. Því hefur boðskapurinn um ljósið í myrkrinu, fæðing frelsarans Jesú Krists, verið boðaður í helgidómum Garðabyggðar um aldir.
Fjölmargar frásagnir eru til af jólahelgihaldi í Garðabyggð í gegnum tíðina. Sumar verma hjörtun, en aðrar sýna okkur hversu erfiðu lífi fyrri kynslóðir Íslendinga lifðu. Fólkið barðist við grimm náttúruöfl, fátækt og erfiðar aðstæður, en varðveitti þrátt fyrir allt trú, von og kærleika í brjósti sér og bar það á vit niðja sinna og samferðarmanna.
Fátæktin var svo óskapleg að fólkið í Garðabyggð gat ekki veitt sér nauðsynlegustu föt og fæði og því síður veitt sér hófsamar skemmtanir að jólum. Til eru frásagnir af jólamatnum í Álftaneshreppi hinum forna árið 1755 – söl og vatn!
Á sama tíma var Bessastaðakirkja illa útleikin. Yfirþakið var fúið og víða burt blásið, svo að bæði rigndi og snjóaði inn á vondum vetrardögum. Ekkert gólf var í kirkjunni og mátti fólk því vaða í mold og bleytu upp að ökkla við aftansöng jóla. Embættismenn Danakonungs voru byrjaðir nota kirkjuna fyrir hesthús og svínabæli. Niðurlæging og örbirgðin var algjör.
Þrátt fyrir alla þá fátækt og harðindi sem þjóðin gekk í gengum í þúsund ára sögu taldi fólk í Garðabyggð það ekki til einskis að ganga til aftansöngs jóla bæði í meðlæti og mótlæti. Þetta eina kvöld, jólanóttin, hefur vissulega verið íslenskri þjóð heilög um aldir.
Gengið heim að Görðum að jólum
Það var heilagt hjá íbúum Garðahrepps að ganga heim að Görðum á aðfangadag til að hlýða á aftansöng jóla í Garðakirkju. Í gegnum aldirnar gekk fólkið óravegu í öllum veðrum, í kulda og fannfergi, til að sinna skyldu sinni, leita kjarnans í jólaguðspjallinu og hugleiða hver boðskapur jólanna væri.
Talað var um að ganga „heim að Görðum“ enda hafði staðurinn sérstakan stað í hjörtum íbúa á svæðinu. Garðabær dregur nafn sitt frá kirkjustaðnum í Görðum. Fólkið frá Urriðakoti í Urriðaholti og Setbergi gekk sjónhendingu vestur yfir hraunið, sem í dag er Miðhraun eða Molduhraun, og svo norðan við Víðistaði þar sem Setbergsklettar eru og þaðan áleiðis til kirkju. Fólkið af Ofanbæjunum svokölluðu, þ.e. Vífilsstöðum, Hofsstöðum, Hagakoti, Valgarði og Hraunsholti, gekk sem leið lá um Engidal og þar vestur yfir hraunið á Garðaholtsendann í Garðahlið á túngarðinum. En ábúendur á Arnarnesi gekk með sjónum norðan í Hraunsholti, þar sem Sjálandshverfi er nú, um Gálgahraunsstíg og þaðan upp á Garðaholt í Garðahlið og heim til kirkju.
Flestir báru með sér tvo poka. Í öðrum þeirra voru kirkjuskór og sokkar, en í hinum var sálmabók. Skórnir voru flestir íslenskir skinnskór, en fólkið skipti um skó sem næst kirkjunni. Konur fengu flestar að skipta um skó á bæjum sem voru næst kirkjunni, eins og á Dysjum eða jafnvel í Görðum, en karlmennirnir gerðu það flestir utangarðs, þ.e.a.s. rétt fyrir utan Garðakirkju. Þá skiptu þeir um skó, stungu blautum skóm í holu í tvíhlöðnum túngarðinum og gengu svo til messu.
Garðhreppingar hlýddu svo á djúpar og efnismiklar prédikanir Garðaklerka eins og Jóns Vídalíns, séra Árna Helgasonar eða séra Þórarins Böðvarssonar. Einnig var gengið heim að Görðum til hámessu á jóladag, gamlárskvöld og nýársdag.
Hafnarfjörður var hluti af Álftaneshreppi hinum forna og einnig Garðahreppi eftir skiptinguna 1878. Um aldir höfðu íbúar í firðinum sótt Garðakirkju að jólum og gengu þá um Garðaveg eða Kirkjuveg. Hafnfirðingar fengu síðan sjálfstæði frá Garðahreppi árið 1908 og byggðu sína eigin kirkju sem var vígð árið 1914. Þá var þjónusta lögð niður í Garðakirkju sem grotnaði niður og varð vályndum veðrum að bráð. Þegar öldin var hálfnuð stóðu hnausþykkir veggir kirkjunnar einir eftir, turn hennar og þak var hrunið, ekkert var eftir nema gapandi steintóft.
Ný dögun í Garðabyggð
Um miðbik síðustu aldar hófst þéttbýlismyndun í Garðahreppi með uppbyggingu í hverfum eins og Silfurtúni, Hraunsholti og á Flötunum. Ungt fólk flykktist í hreppinn til að byggja sér hús, en þá var lóðaskortur í Reykjavík og Garðahreppur hreppur tækifæranna. Til að mæta þörfum barnafjöldans var byggður barnaskóli við Silfurtún sem var vígður árið 1958. Síðar fékk skólinn nafnið Flataskóli.
Um svipað leyti flutti í hreppinn ungur prestur ásamt fjölskyldu sinni, séra Bragi Friðriksson. Á þeim tíma var sóknarprestur Garðhreppinga presturinn í Hafnarfirði, séra Garðar Þorsteinsson, sem messaði þá í Hafnarfjarðarkirkju og Bessastaðakirkju.
Séra Bragi stakk upp á því við séra Garðar að hann annaðist aftansöng í nýja barnaskólanum þetta ár 1959. Séra Garðar tók vel í hugmynd unga prestsins og fól honum jólahelgihaldið í Garðahreppi.
Aftansöngur jóla í barnaskólanum
Það var kyrrð um lágnættið þessi jól í Garðahreppi, himininn heiðskír og stjörnubjartur. Það átti vel við, enda boðar jólaguðspjallið frið og segir meðal annars frá jólastjörnunni sem skein yfir Betlehem. Heillastjarna hefur reyndar ávallt skinið yfir er leið Garðbæinga hefur legið til aftansöngs jóla.
Enginn salur var í nýja skólanum þannig að opnað var inn á kennarastofu og stólum raðað út á gang. Búist var við fjölmenni enda fólk spennt fyrir að halda í hefðir sínar um göngu til aftansöngs í nýju byggðinni. Altari var útbúið með nokkrum skólaborðum og dúkur lagður yfir, krossum komið fyrir, stólum raðað upp og sálmabókum dreift. Loks var orgeli komið fyrir á góðum stað en Lúðvíka Lund hafði boðist til að leika á það. Eiginmaður Lúðvíku, Leifur Eiríksson, tók að sér hlutverk meðhjálpara. „Þetta var mjög eftirminnileg athöfn. Enginn kór var til staðar, en hins vegar lítið orgel og við undirleik þess söng söfnuðurinn jólasálmana,“ minntist séra Bragi síðar. Mikill fjöldi sótti fyrstu jólamessuna í Garðahreppi eftir þéttbýlismyndun, eða um 300 manns, og hátíðleikinn var alltumlykjandi þegar fólk gekk út í jólanóttina úr skólanum í brakandi snjóinn.
Í prédikun sinni sagði séra Bragi: „Jólin boða ljósið, sem kom í heiminn með fæðingu Frelsarans. Það er fagurt hlutverk að vera knúinn kærleika Krists til að leitast við að vera ljósberi og leyfa ljósi hans að lýsa frá hjarta til hjarta. Leyfum nú ljósi Guðs að skína í hjörtu okkar, svo að birtu leggi þaðan til þeirra, sem samleiðina eiga með okkur.“
Garðakirkja rís á ný
Nokkrum árum síðar var Garðakirkja endurreist og vígð á ný að frumkvæði Kvenfélags Garðahrepps, en kvenfélagskonur vissu að kirkja yrði að vera sem klettur í hverri byggð. Fram að 1966 var aftansöngur jóla í barnaskólanum, en frá þeim tíma í Garðakirkju. Séra Bragi var kjörinn prestur í Garðaprestakalli sama ár. Kirkjan var yfirfull og hvert sæti var skipað við fyrsta aftansönginn í endurreistri Garðakirkju árið 1966. Það var fallegt veður, heiðríkt og frost töluvert, eins og séra Bragi skráði í dagbók sína. Þá máttu Garðhreppingar hlýða á Garðbæska jólasálminn, Ó helga nótt, eftir Sigurð Björnsson sem var meðlimur í Garðakórnum og tók virkan þátt í kirkjustarfinu.
Síðan þá hefur töluverður metnaður verið lagður í jólahelgihald í Garðabæ og ýmsar hefðir orðið til. Vídalínskirkja var vígð árið 1995 og hin síðari ár hefur aftansöngur jóla farið þar fram í Garðabæ, svo og í Bessastaðakirkju á Álftanesi.
Verum ljósberar að jólum
Leggjum okkur fram við að gera jólin að feginsfundi fjölskyldunnar. Notum hátíðina til að bregða birtu á brautir samferðarmanna okkar og vera þannig þeir ljósberar sem okkur er ætlað að vera. Eins og séra Bragi sagði: „Hvað er meira en það að elska og vera elskaður? Leyfum því að boðskapur jólanna fæði að nýju barnið hið innra með okkur sjálfum, svo að Drottinn Jesús megi enn gefa okkur hið fagra og góða, sem eitt getur fært okkur sanna og varanlega jólagleði.“
Gleðileg jól, kæru Garðbæingar.
Hrannar Bragi Eyjólfsson
Forsíðumynd: Bessastaðakirkja um 1900