Áfram ríkuleg menningardagskrá fyrir börn í Garðabæ

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar samþykkti þann 15. nóvember sl. að metnaðarfull menningardagskrá verði áfram í boði fyrir hópa á öllum stigum í skólum Garðabæjar. Nefndin vill með því leggja jákvætt lóð á vogarskálarnar í bæjarlífinu með ríkulegri menningardagskrá fyrir nemendur í skólum Garðabæjar á komandi árum.

Fjölbreyttir viðburðir fyrir öll leik- og grunnskólabörn á komandi árum

Af þessu tilefni ræddi Garðapósturinn við Gunnar Val Gíslason formann nefndarinnar. „Nú liggur fyrir úttekt heilbrigðisyfirvalda um áhrif Covid-19 faraldursins á lýðheilsu Íslendinga og af niðurstöðum þeirrar úttektar má ráða að börn og ungmenni hafi farið sérstaklega illa út úr faraldrinum hvað lýðheilsu varðar,“ segir Gunnar Valur þegar hann er inntur eftir ástæðu þess að áfram er lögð svo mikil áhersla á viðamikla dagskrá fyrir skólahópa.

„Menningar- og safnanefnd telur því að áfram sé mjög brýnt að bjóða börnum og ungmennum í Garðabæ upp á innihaldsríka menningarviðburði, bæði á skólatíma og eftir að skóla lýkur. Nú síðast þurftum við vegna samkomutakmarkana að fresta Tónlistarveislu í skammdeginu sem átti að vera 18. nóvember síðastliðinn. Þar ætlaði söngkonan GDRN að koma fram ásamt hljómsveitinni sinni en hún er mjög vinsæl meðal yngri kynslóðarinnar. Þessi viðburður er hins vegar ennþá á vetrardagskránni okkar og bíður bara þangað til reglur um samkomuhald verða rýmkaðar á ný. Menningar- og safnanefnd tekur undir með menningarfulltrúa Garðabæjar kærar þakkir til skólastjórnenda og kennara í Garðabæ fyrir frábærar viðtökur og mjög gott samstarf sem hefur leitt til geysimikillar þátttöku skólahópa í menningardagskránni í ár.“

Undanfarið skólaár hefur mikil og metnaðarfull dagskrá verið í Hönnunarsafninu, Bókasafni Garðabæjar, Tónlistarskóla Garðabæjar og Kirkjuhvoli, sal Vídalínskirkju.
„Það er gríðarleg hvatning fyrir okkur sem sitjum í menningar- og safnanefnd Garðabæjar að sjá hve miklu samstarf nefndarinnar og menningarfulltrúa bæjarins við leikskólana, grunnskólana, tónlistarskólann, bókasafnið, hönnunarsafnið og kirkjurnar hefur skilað fyrir skólabörnin okkar í faraldrinum,“ segir formaður menningar- og safnanefndar að lokum.

Ungmenni í smiðju í Hönnunarsafni Íslands

Menningardagskrá skólahópa skólaárið 2020-2021

Þau Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari sem bæði eru hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands og mynda dúettinn Dúó Stemmu héldu tónleika fyrir alls 425 leikskólabörn í Tónlistarskóla Garðabæjar frá október 2020 fram í mars 2021. Þar var saga krumma sögð með tónlist og börnin virkjuð með.

Grunnskólanemendur í 1.-4. bekk nutu jazztónleika í sal tónlistarskólans, alls 735 börn og voru þar leikræn tilþrif í forgrunni.

Hönnunarsafnið bauð 5.-7. bekkingum í heimsókn í ullarsmiðju og leiðsögn um sýninguna 100% ull. Komust þar um 360 nemendur að. 5.-7. bekkingar fóru líka í leirsmiðju í hönnunarsafninu og nutu um 800 börn þar leiðsagnar um sýninguna Deiglumór. Glæsilegur afrakstur þeirrar vinnu var sýndur á Barnamenningarhátíð Garðabæjar í apríl sl., alls 804 leirfuglar og fékk sú sýning mikla athygli fjölmiðla. Barnamenningarhátíðin bauð auk þess upp á ljóðasmiðjur fyrir leikskólabörn, smiðju fyrir nemendur í 1. bekk með ull og trjágreinar, verkefni 3. bekkinga með Dýrin í Deiglumó, arabíska danssýningu 5. bekkinga og sögusmiðju 7. bekkinga með Gunnari Helgasyni rithöfundi.

Börn á tónleikum með Hallveigu Rúnars

Menningardagskrá skólahópa haustið 2021 og vorið 2022

Rafóperan Music and the Brain eftir Helga Rafn Ingvarsson, óhefðbundin sýning þar sem raftónlist og óperusöngur mætast, var sýnd fjórum sinnum í Kirkjuhvoli, sal Vídalínskirkju í byrjun nóvember fyrir um 450 nemendur í 7. bekk og hópa úr unglingadeild grunnskólanna og úr framhaldsskólum.
Hefðbundin aðventuhátíð var slegin af í ár vegna samkomutakmarkana en í staðinn komu börn frá leikskólanum Hæðarbóli fram í aðventukeðju og börn frá Álftanesi tendruðu ljós jólatrésins með aðstoð jólasveins.

Áformað er að leikskólabörn fái til sín Dúó Stemmu með jóladagskrá nú í desember og að Gunni og Felix líti einnig við.

Á nýju ári verður svo fræðsla og sköpun fyrir skólahópa í tengslum við sýningu á Hönnunarsafni Íslands um sundlaugamenningu á Íslandi en sýningin verður sett upp í samstarfi safnsins og þjóðfræðideildar Háskóla Íslands.

Á bókasafninu verður ratleikur fyrir nemendur í 6. bekk og grafískar skáldsögur fyrir 8. og 9. bekkinga.

Hvatningarsjóður ungra listamanna

Menningar- og safnanefnd hefur falið menningarfulltrúa Garðabæjar að móta tillögu að endurskoðuðum reglum um úthlutun styrkja úr Hvatningarsjóði fyrir unga listamenn í Garðabæ með það að leiðarljósi að ungir hönnuðir komi þar einnig til álita við úthlutun styrkja.
Menningarfulltrúi mun einnig skoða möguleika á því að ungmennaráð bæjarins fái hlutverk í þessu verkefni, t.d. við yfirferð umsókna um styrki úr sjóðnum.

Hugmyndin með endurskoðun reglanna er að útvíkka hvatningarsjóðinn og efla samstarf við Hönnunarsafnið varðandi unga hönnuði í Garðabæ.

Barnamenningarhátíð Garðabæjar 2022

Vegleg Barnamenningarhátíð Garðabæjar verður haldin í apríl 2022 þar sem smiðjur og þátttaka skólabarna verður í fyrirrúmi. Meðal annars verður á dagskrá verkefni tengt minjagarðinum á Hofsstöðum sem fengið hefur styrk frá Þjóðræknifélagi Íslendinga.

Í aðdraganda barnamenningarhátíðar verður hugað að listasamkeppni meðal grunnskólabarna og hefur þar komið til tals að efna til smásagnasamkeppni meðal nemenda í 8. og 9. bekk þar sem úrslit verði kunngerð á barnamenningarhátíðinni sjálfri.

Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar