Áfram í forystu

Sveitarfélög sinna mikilvægri grunnþjónustu sem snertir okkur öll. Mikil uppbygging hefur verið í Garðabæ og hún mun halda áfram. Slíkum vexti fylgja miklar fjárfestingar, fjárfestingar í innviðum. Það er mikilvægt að tekjur af sölu lóða fari í uppbyggingu innviða og niðurgreiðslu skulda. Góð þjónusta byggir á traustum fjárhag.

Framúrskarandi þjónusta

Mikil verðmæti felast í því að hafa valkosti um ólík hverfi, sveit í borg í bland við þéttari byggð. Þessi sérkenni þarf að varðveita, huga að fjölbreytni. Undanfarin ár hefur verið töluverð uppbygging í fjölbýli og við þurfum því að auka framboð á sérbýlum.
 
Garðabær er fjölskyldubær. Framúrskarandi leik- og grunnskólar ásamt öflugu íþrótta- og tómstundastarfi eru stoðir sem við þurfum áfram að hlúa að. Manneklu í leikskólum þarf að leysa og það verður aðeins gert með kerfisbreytingum. Einnig þarf að auka stuðning inn í grunnskólana. Þá eru félagsmiðstöðvar, frístundastarf og tómstundabíll mikilvægir hlekkir í þjónustu við barnafjölskyldur.

Fjölbreyttir valkostir

Þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi eykur vellíðan og virkni og spornar gegn félagslegri einangrun. Öflugt íþrótta- og tómstundastarf hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú í kjölfar heimsfaraldurs. 
  
Góðir innviðir, aðstaða og búnaður, stuðla að aukinni virkni og þátttöku bæjarbúa. Við þurfum að tryggja góðan aðbúnað, sinna viðhaldi betur og auka framboð á fjölbreyttum valkostum um leið og við hvetjum alla aldurshópa til þátttöku. Með því að efla innviði aukum við félagslega þátttöku fólks.

Betri og einfaldari þjónusta

Gott skipulag hefur ekki aðeins áhrif á að við komumst örugglega á milli staða heldur hefur það líka áhrif á líðan okkar. Góð tenging á milli hverfa er jafn mikilvæg og tenging við ósnortna náttúru. Með betra stígakerfi og bættum samgöngum aukum við öryggi íbúa, jafnt barna sem fullorðinna. Höldum áfram með uppbyggingu miðbæjar og hverfiskjarna, búum til jarðveg fyrir skemmtilegra mannlíf og öflugra atvinnulíf.

Eflum heimaþjónustu og aðra stuðningsþjónustu. Fjölgum valkostum, nýtum tæknina og aukum virkni eldri bæjarbúa. Ótrúleg tækifæri eru fólgin í velferðatækni því hún eykur lífsgæði og sjálfstæði notenda. Stafræn þróun nýtist bæjarbúum á öllum aldri, henni fylgir betri, einfaldari og skilvirkari þjónusta og við förum betur með fjármuni.

Valfrelsi íbúa og lágar álögur

Okkur hefur gengið vel í Garðabæ. Við byggjum á góðum grunni og við getum gert betur.
Ég hef skipað 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins og óska eftir því að gera það áfram. Ég hef verið í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í rúman áratug, fyrst sem forseti bæjarstjórnar og síðustu átta ár sem formaður bæjarráðs en þar eru helstu ákvarðanir sveitarfélagsins teknar og stefnan mótuð. Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu þar sem ég hef stýrt stóru menntafyrirtæki og komið að uppbyggingu fyrirtækja sem hafa náð árangri í umhverfis- og velferðarmálum.

Ég vil leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Við stefnumótun og ákvarðanatöku munu grunngildi sjálfstæðisstefnunnar um valfrelsi bæjarbúa og lágar álögur vera í forgrunni. 

Garðabær á áfram að vera framúrskarandi sveitarfélag þar sem eftirsóknarvert er að búa.
 
Áslaug Hulda Jónsdóttir, er formaður bæjarráðs Garðabæjar og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar