Á svæðinu eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki.
Umhverfisstofnun hefur sent bréf til bæjarráðs Garðabæjar um friðlýsingu Skerjafjarðar við Álftanes.
Í bréfinu eru kynnt áform um friðlýsingu Skerjafjarðar við Álftanes sem friðland og er frestur til að skila athugasemdum við áformin til og með 21. maí 2021.
Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stefna á að kynna áform um friðlýsingu Skerjafjarðar við Álftanes sem friðland, í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Verndun búsvæða fugla
Skerjafjörður við Álftanes er hluti af því svæði sem skráð var sem Álftanes-Skerjafjörður á náttúruverndaráætlun 2004 – 2008 vegna gildis þess fyrir verndun búsvæða fugla. Á svæðinu eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda. Svæðið er viðkomustaður margæsar og rauðbrystings en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildrur sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir og hundruð tjalda, stelka og lóuþræla á fartíma.
Eini fundarstaður fléttunnar gálgaskeggs og þar vex marhálmur
Á svæðinu eru sjaldgæfar plöntur, þar er eini fundarstaður fléttunnar gálgaskeggs og þar vex marhálmur sem hefur takmarkaða útbreiðslu.
Friðlýsingin er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga, en gert er ráð fyrir að svæði sem eru ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir um áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Að þeim tíma liðnum mun samstarfshópur um undirbúning friðlýsingarinnar vinna að gerð friðlýsingarskilmála og leggja fyrir rétthafa og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa tillögu að fyrirhugaðri friðlýsingu í sex vikur þar sem öllum gefst kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu. Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að varðveita verndargildi svæðisins. Þá er heimilt að kveða á um takmarkanir s.s. á umferðarrétti og framkvæmdum og að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi svæðisins. Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 21. maí 2021